Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

28. júlí 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp á Menningarlandinu - ráðstefnu um reynslu af menningarsamningum haldin 11. maí 2009

Kæru gestir.

Það er mér mikið ánægjuefni að fyrsta embættisverk mitt í nýrri ríkisstjórn sé að ávarpa Menningarlandið – ráðstefnu sem fjallar um reynsluna af menningarsamningum. Þetta er önnur ráðstefnan sem haldin er undir merkjum Menningarlandsins og fór sú fyrri fram í maí 2001 á Seyðisfirði. Það virðist ekki vera mikil veðursæld á þessu Menningarlandi en þeir sem voru á Seyðisfirði í maí 2001 muna eflaust eftir því að hafa verið fastir þar í sólarhring eftir að ráðstefnu lauk vegna ófærðar.

En Breiðafjörðurinn er alltaf fallegur.

Grunnur að menningarsamningum var lagður með skýrslu um menningarmál á landsbyggðinni en þar kemur fram að umræða um byggðamál hefur mjög beinst að málefnum atvinnulífs, samgöngum og í æ ríkara mæli menntamálum en minni gaumur hefur verið gefinn að menningarlífinu á landsbyggðinni. Öflugt menningarlíf er þó einn af þeim þáttum sem ráða miklu um búsetu fólks. Menningarsamningarnir er framlag ríkis og sveitarfélaga til að koma til móts við fólkið í landinu.

Menningin er mikilvægur þáttur í burðarvirki samfélagins. Hún bindur okkur saman.

Þrátt fyrir augljóst mikilvægi menningar þá virðist ekki alltaf mikill skilningur á menningu þegar kemur að stuðningi hins opinbera. Ekki er langt síðan ég stóð í ræðustól á Alþingi og varði fjölgun listamannalauna. Þá komu fram þau sjónarmið, sem oft heyrast, um að listin væri til skrauts og við ættum ekki á erfiðum tímum að setja peninga í list og listamenn.

Á erfiðum tímum þurfum við list, þá þurfum við sterkt menningarlíf.

Það hefur verið gaman að sjá og finna þá ánægju sem ríkir með menningarsamningana. Hvar sem ég hef komið og þeir hafa komið til tals hefur fólk lýst yfir ánægju sinni. Ég var fyrir nokkru viðstödd úthlutun Eyþings á Húsavík og var ótrúlegt að sjá þá fjölbreytni sem einkenndi verkefnin sem hlutu styrk.

Aukið fjármagn og nánara samstarf milli sveitarfélaga um stefnumótun og forgangsröðun hafa skapað ný tækifæri í menningu landsins. Meðferð fjármuna hefur orðið markvissari og hagkvæmari með því að fela menningarráðum úthlutun þeirra, hér er því um að ræða nýjung í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Fjölbreytni í menningarviðburðum hefur aukist og atvinnutækifærum hefur fjölgað á sviði menningarmála, m.a. með ráðningu menningarfulltrúa sem halda utan um starf menningarráða.

Nú er landið allt tengt sjö menningarsamningum utan höfuðborgarsvæðisins. Þriggja ára samningstímabil rennur út í lok þessa árs við alla utan Austurlands. Á þessu ári er því komið að því að endurnýja samningana og taka ákvörðun um slíkt af hálfu ríkisins og sveitarfélaganna, byggt á árangursmati.

Í stefnumótun menningarmála þarf nú sérstaklega að huga að því hvernig menning, ferðamál og atvinnumál geti frekar en orðið er tengst og orðið þannig öflugur þáttur í íslenskri nýsköpun. Samstarfið hefur farið fram undir jákvæðum formerkjum alla tíð og það er mikilvægt að þessum samningum hafi verið tekið fagnandi og að árangur þeirra er sýnilegur og mælanlegur.

Það er skýr vilji menntamálaráðuneytis að halda áfram með menningarsamninga þrátt fyrir erfiðar horfur í efnahagsmálum. Samningarnar hafa styrkt menningarlíf á landsbyggðinni, ýtt undir að störf hafa skapast á því sviði og aukið gagnsæi við úthlutun styrkja til menningarverkefna og verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Við munum nota sumarið til að kanna hug iðnaðarráðuneytis og sveitarfélaga til áframhaldandi samstarfs um samningana, sem og hvort sameina eigi samninga yfir stærri svæði landsins.

Ég vil að lokum þakka sérstaklega þeim sem hafa lagt hönd á plóg við undirbúning ráðstefnunnar, iðnaðarráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fyrirlesurum, verkefnisstjórn, verkefnisstjóra Hallmari Sigurðssyni og Menningarráði Vesturlands.

Mig langar að ljúka þessu ávarpi á orðum Bergveins Birgissonar skálds sem hljóma eitthvað á þessa leið:

Lífið er ekki flókið.
Maðurinn þarf ást og kartöflur.
Ef annað bregst
harðnar á dalnum.

Ég vona að þið eigið eftir að eiga góðar og skapandi samræður hér í Stykkishólmi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum