Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. ágúst 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp ráðherra á Þjóðlagahátíð á Siglufirði 1. júlí 2009

Ráðherra tekur á móti Raddir Íslands
radherra_tekur_a_moti_Raddir_Islands

Góðir tónleikagestir

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hefst nú í tíunda sinn með þessum tónleikum í Siglufjarðarkirkju. Fram undan er glæsileg og áhugaverð dagskrá hátíðarinnar þar sem allir tónlistarunnendur, ekki síst unnendur þjóðlagatónlistar, ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Auk margs konar tónleika býður hátíðin líka upp á fyrirlestra og fjölmörg námskeið.

Í áratug hefur þjóðlagahátíðin verið haldin í byrjun júlí Siglfirðingum og öðrum landsmönnum svo og erlendum gestum til mikillar gleði, fróðleiks og ánægju, en ekki síst hafa íslensk þjóðlög og þjóðlagahefð með hátíðinni gengið í endurnýjun lífdaga og hún hefur eflt þekkingu fólks á þessum tónlistarfjársjóði.

Með tilkomu Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar, sem var vígt við hátíðlega athöfn fyrir þremur árum, hefur styrkari stoðum verið skotið undir söfnun og varðveislu íslenskra þjóðlaga – ekki eingöngu þeirra þjóðlaga sem sr. Bjarni safnaði og tónsmíðum hans – heldur íslenskum þjóðlögum almennt. Setrið hefur safnað miklum fróðleik og upptökum og gert þetta aðgengilegt á áhugaverðan hátt.

Í kvöld lítur dagsins ljós enn einn afrakstur ötuls starfs Þjóðlagasetursins og þjóðlagahátíðarinnar með útgáfu mynddisksins Raddir Íslands. Mynddiskur þessi hefur að geyma flutning helstu þjóðlagatónlistarmanna okkar á ýmsum perlum íslenskra þjóðlaga – rímum, tvísöng, barnagælum, þulum, sálmalögum og svokölluðum druslum. Einnig geymir mynddiskurinn ýmsa dansa - sagnadansa og vikivaka. Raddir Íslands eru mikilvæg heimild um íslensk þjóðlög og þjóðdansa og er öllum sem lagt hafa hönd á plóg þakkað fyrir framlag þeirra, ekki síst Gunnsteini Ólafssyni sem hefur verið aðalhvatamaður og drifkraftur verkefnisins.

Ég óska okkur öllum til hamingju með glæsilegt og þarft verk um leið og ég óska þjóðlagahátíðinni 2009 gæfu og velfarnaðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum