Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra setur Reykjavík Jazz Festival í Norræna húsinu 13. ágúst 2009

Reykjavík Jazzhátíð
Setningarhátíð í Norræna húsinu
13. ágúst 2009

Góðir gestir. Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér þegar Jazzhátíð Reykjavíkur er sett í tuttugasta sinn. Á boðskorti er sagt að ræðuhöld verði temmileg, þannig að ég reyni að vera skorinorð. Það er jú tónlistin sem er ástæða þess að þið komið hingað en ekki ávörpin.

Í tuttugu ár hefur Jazzhátíð Reykjavíkur fært íslenskum tónlistarunnendum heillandi tóna jazzsins í flutningi innlendra sem erlendra hljóðfæraleikara og er þessum tímamótum nú fagnað með mikilli tónaveislu sem stendur í tuttugu daga með ekki færri en um 50 viðburðum. Það ættu allir því að finna eitthvað við sitt hæfi á dagskrá hátíðarinnar.

Þetta mikla ævintýri byrjaði með Norrænum útvarpsjazzdögum sem Ríkisútvarpið tók þátt í og skipulagði hér á landi í maí 1990. Einn af eldhugunum – Ólafur Þórðarson - hafði heillast svo af hátíðinni í Svíþjóð á árinu 1988 að hann bauðst til að stýra hátíðinni á Íslandi vorið 1990 „án þess að hafa nokkuð leyfi til þess“ eins og hann segir í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Þetta er kannski dæmigert fyrir okkur Íslendinga – við köstum okkur út í djúpu laugina og náum við yfir á hinn bakkann – svona yfirleitt. Um árabil stafaði hátíðin undir nafninu Rúrek en á þeim árum stóðu Ríkisútvarpið og Reykjavíkurborg saman að hátíðinni. Fyrir um áratug breyttist heitið í Jazzhátíð Reykjavíkur og stendur nú jazzdeild FÍH að henni af miklum metnaði með stuðningi ýmissa aðila. Vert er að þakka sérstaklega þeim Vernharði Linnet og Pétri Grétarssyni sem auk Ólafs hafa löngum staðið í eldlínunni fyrir jazzhátíð í Reykjavík.

Áhugi, kraftur, ósérhlífni og eldmóður hafa löngum einkennt listaheiminn hér á landi. Nú í ágúst og september rekur hver listahátíðin aðra: Art Fart leiklistarhátíðin, Jazzhátíð Reykjavíkur, Alþjóðlega leiklistarhátíðin Lokal, Bókmenntahátíð í Reykjavík og Alþjóðlega kvikmyndahátíðin. Allar þessar hátíðir styrkja innviði listalífsins hér, hleypa erlendum straumum inn í landið og gefa útlendingum innsýn í styrk og getu íslenskra listamanna.

Jazzhátíð Reykjavíkur er þar framarlega í flokki. Það er íslenskum jazzleikurum ómetanlegt að eiga þann vettvang sem Jazzhátíð Reykjavíkur skapar þeim – að þeim gefist kostur á að flytja eigin jazztónlist sem annarra í hópi góðra flytjenda og þakklátra hlustenda en einnig að hlusta á og jafnvel spila með mikilsmetnum erlendum hljóðfæraleikurum. Í jazztónlistinni mætast oft tónlistarmenn sem alla jafna fást við ólíka hluti í tónlist og eru virkir í allri flóru íslensks tónlistarlífs. Þetta skapar meiri breidd og styrkir hæfni tónlistarflytjenda – fámennið hefur oft kosti í för með sér og tel ég það vera styrk okkar.


Góðir gestir

Ég færi Jazzhátíð Reykjavíkur – öllum sem að henni standa og taka þátt – bestu árnaðaróskir á þessum tímamótum og óska þess að Jazzhátíð Reykjavíkur megi um ókomin ár veita jazzunnendum góðar og eftirminnilegar stundir.
Ráðherra setur Reykjavík Jazz Festival í Norræna húsinu



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum