Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

08. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp í Háskólanum á Akureyri í tilefni af alþjóðadegi læsis 8. september 2009

Alþjóðlegur dagur læsis

Kæru gestir

Það er mér sönn ánægja að vera hérna á Akureyri á Degi læsis. Ég vil byrja á að þakka Háskólanum á Akureyri fyrir að standa að skipulagningu dagsins og fyrir að hvetja til aukinnar athygli á mikilvægi læsis. Það er vissulega gleðiefni að starfsfólk skólans skuli að eigin frumkvæði fá Íslendinga til að taka þátt í þessum degi sem Menningarmálastofnun sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur valið sem Alþjóðlegan dag læsis. UNESCO, hvetur þjóðir heims til að nota þennan dag til að vekja athygli á mikilvægi læsis fyrir alla, alls staðar. Það kemur fáum sem til Háskólans á Akureyri þekkja á óvart að starfsfólk hans skuli, af eigin frumkvæði, skipuleggja dagskrá á degi læsis. Í skólanum hefur lengi verið unnið áhugavert og gagnlegt starf í tengslum við læsi og lestrarkennslu. Má þar sem dæmi nefna verkefni sem miða að því að bæta stuðning við nemendur með lestrarerfiðleika og þekkt verkefni tengd byrjendalæsi.

Undanfarin misseri hefur ýmislegt komið fram sem bendir til þess að auka þurfi áherslu á læsi og lestrarkennslu hér á landi. Má í því sambandi til dæmis nefna niðurstöður alþjóðlegu rannsóknarinnar PISA frá 2006. Þær gáfu til kynna að læsi 15 ára íslenskra unglinga færi versnandi miðað við fyrri mælingar og að íslenskir unglingar, sérstaklega drengir, hafi mun lakari lesskilning en jafnaldrar þeirra í þeim löndum Evrópu sem við berum okkur gjarnan saman við.

Nýleg úttekt sem gerð var á vegum ráðuneytisins í tíu íslenskum grunnskólum bendir til þess að skipulagðri lestrarkennslu ljúki of snemma, leggja þurfi meiri áherslu á lestrarkennslu í eldri bekkjum og að námsmat sé of fábreytt. Einnig kom fram í könnuninni að núverandi skipulag kennaranáms undirbúi afmarkaðan hóp kennaranema undir lestrarkennslu í fyrstu bekkjum grunnskólans en að auka þurfi færni allra kennara til að kenna alla þætti læsis. Þá var kallað eftir skýrri stefnu í lestrarkennslu og bent á að skerpa þyrfti skilning kennara og skólastjóra á gildi læsis í öllum námsgreinum. Ráðuneytið hefur óskað eftir viðbrögðum við úttektinni og niðurstöðum hennar og mun ákvörðun um næstu skref verða tekin þegar svör hafa borist.

Ráðuneytið hefur undanfarið leitað leiða til að bæta stöðu nemenda með lestrarerfiðleika og hefur margt verið gert í því sambandi. Sem dæmi má nefna að síðastliðið haust var gerð breyting á samræmdu prófunum í 4. bekk sem miðar að því að þau nýtist betur til að skima fyrir lestrarvanda. Einnig voru veittir styrkir til að semja lestrarpróf auk þess sem ráðuneytið kostaði uppsetningu og viðhald á vef sem hefur að geyma upplýsingar um lestrarerfiðleika fyrir nemendur, foreldra og kennara.

Vissulega getur ráðuneytið í samstarfi við skólana haft áhrif á læsi íslenskra barna en það má samt ekki gleyma hlutverki foreldra í lestrarnámi barna sinna. Það skiptir miklu máli að foreldrar séu meðvitaðir um mikilvægi læsis, taki virkan þátt í námi barnanna og stuðli markvisst að því að þau verði vel læs. Þessi dagur á vonandi sinn þátt í að vekja athygli foreldra á mikilvægi læsis og hvetja þá enn frekar til dáða.
 
Sú vinna ráðuneytisins sem upphaflega miðaði að því að komið yrði betur til móts við nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestur og lestrarnám hefur nú beinst í víðari farveg. Ráðuneytið vill nú beina sjónum sínum að því hvernig auka megi vægi og áherslu á lestur fyrir alla nemendur. Nú stendur yfir endurskoðun á námskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla á grundvelli nýrra laga sem samþykkt voru í fyrra og er það stefna ráðuneytisins að endurskoðunin leiði til þess að lestri verði gert hærra undir höfði í nýjum námskrám.Hafa ber í huga að góð færni í læsi og skapandi skrifum er jafnréttismál og forsenda fyrir virku lýðræði. Ein mikilvægasta hæfnin í nútímasamfélagi er sú færni sem felst í að skima, kynna sér, skilja, greina og vinna úr því upplýsingaflóði sem að okkur beinist.  Allir þurfa að öðlast slíka menntun  til að geta tekið málefnalega afstöðu og verið virkir lýðræðisþegnar í síbreytilegu þjóðfélagi.

Það sem hér hefur verið nefnt er einnig í  samræmi við íslenska málstefnu en þar er lögð áhersla á að efla læsi og er lagt er til að íslenskukennsla í grunnskólum verði aukin. Þar er jafnframt bent á að nýta þurfi það tækifæri sem gefst með fyrirhugaðri lengingu á kennaranámi til að auka þátt íslenskunnar og efla þannig íslenskukunnáttu kennaranema.

Læsi er vissulega mikilvæg færni í nútímasamfélagi og það gerir líf einstaklings auðugra að vera vel læs en það er ekki síður mikilvægt fyrir samfélagið í heild að þeir sem það mynda séu vel læsir. Það er því vel til fundið við skipulagningu dagsins að fá fjölmiðla, bókasöfn, kirkjuna og fleiri til að taka þátt í vitundarvakningu sem þessari.

Það er von mín að það frumkvæði Háskólans á Akureyri sem við tökum þátt í hér í dag verði öðrum hvatning og að fleiri muni skipuleggja áhugaverða viðburði í tengslum við þennan mikilvæga málaflokk á komandi misserum. 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum