Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

21. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp menntamálaráðherra á málþingi um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni. Málþingið var haldið 15. september 2009

Endurskoðun aðalnámskrár með sjálfbæra þróun í huga
Málþing um þjóðaráætlun um menntun til sjálfbærni 15. sept 2009

Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem sú þróun sem mæti þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Á síðustu árum hefur merking hugtaksins öðlast víðari merkingu og nær nú til þátta er varðar efnahag, félaglega velferð og lífskjör fólks. Þannig var í fyrstu lögð áhersla á umhverfismál, mengunarmál, ábyrga umgengni og sjálfbæra nýtingu auðlinda en nú er einnig horft til jafnréttis, mannréttinda, lýðræðislegrar þátttöku, alþjóðavitundar og efnahagsmála. Þessi útvíkkun er samfara þeirri vissu að sókn eftir efnahagslegum og félagslegum gæðum verður að haldast í hendur við verndun umhverfis og grunngæða jarðar og að þróun samfélags verður ekki sjálfbær nema tekið sé tillit til menningarlegs margbreytileika og ólíkra sjónarmiða af margvíslegum toga.

Í nýrri menntastefnu er gengið út frá þessari nýju skilgreiningu og gert ráð fyrir að menntun til sjálfbærrar þróunar verði einn af fimm lykilþáttum sem eiga að einkenna almenna menntun frá leikskóla upp í framhaldsskóla. Þessir lykilþættir eru bæði samfélags- og einstaklingsmiðaðir í takt við hlutverk skóla. Þeir eru hugsaðir sem leiðarstef fyrir skólana um hvernig byggja eigi upp öflugt skólasamfélag og lýsing á þeirri hæfni sem hver og einn þarf að búa yfir til að geta lifað og unnið í sátt við sjálfan sig, þróast í og með umhverfi sínu og áttað sig á möguleikum sínum til að bæta lífskilyrði sín og annarra.

Þessir lykilþættir eru læsi (í víðum skilningi), lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Þeir tengjast allir innbyrðis og eru háðir hver öðrum. Helstu viðmið um menntun til sjálfbærni hafa þegar verið sett fram í drögum að nýrri námskrá. Menntun til sjálfbærrar þróunar hefur það að markmiði að auka þekkingu og meðvitund á félagslegum, hagrænum, pólitískum og umhverfislegum hliðum sjálfbærrar þróunar. Til að vinna að þessu markmiði þarf að huga að viðhorfum og tilfinningum gagnvart náttúru og umhverfi, þekkingu til að nota náttúruna á ábyrgan hátt, velferð og lýðheilsu, lýðræði, jafnrétti og fjölmenningu, alþjóðavitund (eða alheimsvitund – global awareness), efnahagsþróun og framtíðarsýn. Við mótun nýrrar námskrár hefur verið leitast við að koma inn á alla þessa þætti. Í nýrri menntastefnu þarf nemandinn að:

  • byggja upp skilning á umhverfisvernd og bera virðingu fyrir og kynnast lífi, náttúru og umhverfi
  • gera sér grein fyrir mismunandi gildum, viðhorfum og tilfinningum til náttúru og umhverfis
  • skilja mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa og öðlast þekkingu til að nýta náttúruna á ábyrgan hátt.
  • temja sér lífsvenjur sem eru uppbyggilegar fyrir líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði (lýðheilsa)
  • efla vitund um félagslega velferð í samfélaginu
  • þjálfa lýðræðislega hæfni (þjálfun í félags- og samskiptafærni og gagnrýninni hugsun) til að hafa áhrif á ákvarðanir nær og fjær
  • öðlast skilning á sameiginlegri ábyrgð jarðarbúa og sýna það í verki í umgengni við nærumhverfi sitt (think globally – act locally)
  • skilja hvaða áhrif daglegar venjur og ólík neyslumynstur hafa á framtíðina
  • öðlast skilning og umburðarlyndi á margbreytileika mannlífsins hér á landi sem annars staðar í heiminum
  • átta sig á að jafnrétti kynja hefur áhrif á og skiptir máli fyrir sjálfbæra þróun.

Leiðir fræðsluaðila og skóla

Samkvæmt nýjum lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla hafa stjórnendur töluvert svigrúm til að móta starf skóla eftir mismunandi áherslum og aðstæðum.

Í lagagreinum um hlutverk leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2008, er lögð áhersla á að nám stuðli að alhliða þroska og velferð einstaklingsins. Enn fremur að náin samvinna sé höfð við foreldra barna og ólögráða nemenda. Í skólastarfinu skal velferð og hagur barna og unglinga hafður að leiðarljósi og starfshættir mótaðir af umburðarlyndi, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju og virðingu fyrir manngildi. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun barna og unglinga, þjálfa þau í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Á öllum skólastigum skal efla hæfni barna og unglinga í samskiptum og tjáningu á íslensku, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum. Leggja skal grundvöll að því að börn og unglingar verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun. Enn fremur að rækta hæfileika barna og unglinga til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta, stuðla að víðsýni og efla siðferðisvitund. Að auki bætist við hlutverk framhaldsskólans að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Allir þessir þættir samrýmast menntun til sjálfbærrar þróunar.

Skólar og fræðsluaðilar eru hvattir til að virkja skólasamfélagið þannig að skólinn verði vettvangur þar sem nemendur, kennarar og annað starfsfólk þjálfast í að nota þekkingu sína og færni til að auka veg sjálfbærrar þróunar. Hvert samfélag getur fundið ólíkar leiðir til að vinna að þessum markmiðum og skólar geta gegnt þar lykilhlutverki. Með nýjum lögum hafa framhaldsskólar fengið aukið svigrúm til að skipuleggja nám sitt. Með því skapast mikilvægt tækifæri til að skapa vinnulag og vinnuumhverfi í þessum anda sem felst m.a. í því að finna þessum áherslum stað í sínum námsbrautarlýsingum, hvort sem um er að ræða bóknám, starfsnám, starfsbrautir fyrir fatlaða eða fullorðinsfræðslu.

Leiðir sveitarfélaga

Samkvæmt nýjum lögum um leik- og grunnskóla er forræði sveitarfélaga á skólarekstri aukið og sveitarfélögum gert að setja almenna stefnu um skólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess. Þannig er sveitarstjórnum falin meiri ábyrgð á faglegu starfi í skólum. Þeim ber að móta sér almenna stefnu um skólahald og einnig að fylgja því eftir að skólar vinni markvisst að umbótum í skólastarfi og mæti þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Þá er búinn til nýr samráðsvettvangur um skólahaldið með skólaráðum sem í sitja fulltrúar kennara og annars starfsfólks, foreldra og grenndarsamfélags og nemenda eftir því sem við á. Með þessum hætti er leitast við að efla lýðræðislega virkni þeirra sem tengjast starfi skólans og áhrif þeirra á stefnumótun og starfsemi skóla og almenna umgjörð skólastarfs. Upplagt er að tengja sama ákvæði sem gjarnan hafa verið sett í Staðardagskrá 21 varðandi menntun og skólastefnu.

Sveitarfélög þurfa því að gæta að því að í skólastefnu sveitarfélagsins sé hugað að menntun til sjálfbærrar þróunar og að sett séu fram viðmið um hvernig skuli staðið að menntun til sjálfbærrar þróunar.

Að forðast pólitík

Mikilvægt er að í menntastefnu sé ekki reynt að forðast pólitísk og viðkvæm málefni heldur sé nemendum kennt að vinna lýðræðislega að því að vega þau og meta. Þroski og sjálfvitund eru ekki bara sálfræðilegs og siðferðilegs eðlis heldur ekki síður félagsleg og menningarleg afurð sem verður til í sögulegu og pólitísku samhengi og er háð kyni og stéttarstöðu. Í rannsókn Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar á eldri menntastefnum um fjölmenningu og sjálfbærni kom í ljós að ákveðin þögn ríkti um eldfim málefni. Þannig fólst svar menntamálaráðuneytisins um fjölmenningu í mikilli áherslu á tungumálakennslu en lítt var tekist á við viðfangsefni sem fylgja margbreytilegri og ólíkri menningu. Í erlendum rannsóknum hefur komið fram að auðvelt þykir að tala um mat, föt og frídaga í ólíkum menningarheimum en um leið og málið færi að snúast um efnahag og stéttir vandaðist málið. Hér á landi virðast umræður um íslenskukennslu vera hinn „öruggi, ópólitíski vettvangur“. Samkvæmt rannsókn Ingólfs hefur menntun til sjálfbærrar þróunar hingað til ekki verið ofarlega í stefnu opinberra aðila, hvorki ríkis né sveitarfélaga. Hugsanlega má rekja það til þess að hugtakið hefur spyrst saman við róttæka náttúruverndarstefnu af því fylgjendur hennar nota rök sjálfbærrar þróunar gegn stórvirkjunar- og álversstefnu. Mikilvægt er að taka fram að þótt sjálfbær þróun eigi meira skylt við róttæka náttúruverndarstefnu en álversstefnu er hér alls ekki um sama fyrirbrigðið að ræða og mikilvægt að greint sé hér á milli. Aðalatriðið er að nemendur þrói með sér dómgreind en ekki sé reynt að kenna „rétta“ afstöðu. Enn fremur að reynt sé að greina á milli staðreynda og gildisdóma en að kennarar geri sér grein fyrir að það er ekki auðvelt verk. Margir halda að á bakvið jafnrétti og menntun til sjálfbærrar þróunar séu eingöngu gildishlaðnir dómar og ólíkar skoðanir en átta sig ekki á eða þekkja ekki til rannsóknarþekkingar og staðreynda sem liggja fyrir í þessum málaflokkum. Mikilvægt er að nemendur fái þjálfun í sjálfstæðri leit að mismunandi rökum og rannsóknarniðurstöðum í viðleitni sinni til að þroska eigin dómgreind og lýðræðishæfni. 

LOKAORÐ

Það er von mín að þessar nýju áherslur muni vekja upp áhuga í samfélaginu og að í kjölfarið munum við sjá jákvæðar breytingar á viðhorfum og aðgerðum íslensku þjóðarinnar í þessum mikilvæga málaflokki.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum