Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

25. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp menntamálaráðherra - Norræn ráðstefna um jafnréttisfræðslu í skólum 22. september 2009

Ávarp menntamálaráðherra þriðjudaginn 22. september kl. 9-9:15

Kæru gestir, kennarar, fræðimenn, fræðikonur og aðrir þeir sem láta sig jafnréttisfræðslu varða!

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin hingað til Reykjavíkur á þessa norrænu jafnréttisráðstefnu.

Á rúmum 150 árum, eða allt frá upphafi kvenréttindabaráttunnar hafa fjölmargar og jákvæðar breytingar á stöðu kvenna á Íslandi átt sér stað og smám saman hefur dregið úr ójöfnuði sem viðgengist hafði í aldanna rás. Kvenréttindakonur ásamt karlkyns stuðningsmönnum sínum háðu langvinna baráttu við öfl sem lögðust gegn róttækum breytingum á samfélaginu. Breytingarnar komust á í áföngum en ekki átakalaust.

Nú eru tæplega 100 ár síðan konur fengu jafnan rétt á við karla til skólagöngu, aðeins styttra síðan konur fengu kosningarétt (árið 1920) og einungis rúm 30 ár síðan sett voru lög um kynjajafnrétti (1976). Allt fram til 1911 voru skólar á Íslandi, fyrir utan hefðbundna kvennaskóla og héraðsskóla, lokaðir stúlkum og hlutverk kvennaskóla var ekki að efla þær á opinberum vettvangi heldur að undirbúa þær undir húsmóðurhlutverkið.

Sagan kennir okkur einnig að stofnanir okkar og hið opinbera kerfi var einungis mótað af körlum og fyrir karla. Þessi karllægi arfur mótar enn okkar skólastarf þrátt fyrir að konur séu í meirihluta starfsfólks í skólum og fjölmennari á háskólastigi. Markmið skólans þegar hann var stofnaður var að mennta efristéttardrengi til stjórnsýslu- og fræðistarfa. Síðar var skólinn opnaður fyrir öllum stéttum og báðum kynjum án þess að inntaki námsins væri breytt að neinu marki. Margir hafa því gagnrýnt nútíma skóla fyrir að bjóða ekki nemendum upp á jafnrétti til náms, halda uppi gildum og þekkingu ráðandi stétta, þagga niður í jaðarhópum og horfa fram hjá menningarbundinni þekkingu. Inn í þetta fléttast hin forna áhersla á hið opinbera líf á kostnað þess að undirbúa bæði kyn undir einkalíf eða fjölskyldulíf.

Þrátt fyrir að lengi hafi verið ákvæði í Aðalnámskrám og lögum um að skólar eigi að undirbúa bæði kynin jafnt undir opinbert líf og fjölskyldulíf hefur því ekki verið fylgt markvisst eftir. Við höfum enn ekki komið okkur upp kennslu/námsgreinum í umönnun (care) eins og sumar aðrar þjóðir þar sem áhersla er lögð á uppeldi, umönnun og að læra að taka ábyrgð á sjálfum sér, öðrum og sínu nánasta umhverfi. Margar greinar, s.s. heimilisfræði, stærðfræði og upplýsinga- og tæknimennt bera með sér kynhlutlaust yfirbragð þrátt fyrir að vitað sé að viðhorf og leikni í þessum greinum séu býsna kynjuð. Samkvæmt íslenskum rannsóknum þurfa drengir síður að taka að sér ábyrgðarhlutverk á heimilum varðandi heimilisstörf eða umönnun yngri systkina og sinna síður skyldum varðandi skólann (s.s. heimanám). Stelpur hafa neikvæðari viðhorf og minni þjálfun til að fást við tækni og tölvur. Ljóst er að til að skólinn fullnægi jafngildismarkmiðum í lögum og námskrám þarf bæði að efla jafnréttisfræðslu drengja og stúlkna.

Orðræða síðustu ára um jafnrétti í skólum bæði hér heima og erlendis hefur beinst í mjög einhæfan farveg þar sem staða kynjanna er einungis skoðuð út frá frammistöðu þeirra í örfáum greinum út frá mjög þröngum mælikvörðum. Ávallt er mikilvægt að skoða kynin sem margleitan hóp og hafa í huga að mikill fjölbreytileiki er innan sama kyns. Sjálfsmyndarsköpun mótast af fleiri þáttum, s.s. stétt og uppruna. Á sama tíma og umræðan um vanda drengja í skólum var hvað háværust hér á landi var stéttamunur að aukast og var í raun allan tímann meiri en kynjamunur. Drengir og stúlkur úr milli- og efristéttum hafa lengi náð svipuðum árangri, alla vega er munurinn ekki teljandi. Sá hópur sem virðist hvað síst njóta sín í skólanum, ef marka má tölur um líðan, einkunnir og brottfall, eru drengir úr lægri millistétt og verkamannastéttum á meðan stúlkur úr þessum hópum virðast ná betri árangri. Þetta mynstur er þekkt víðast hvar á Vesturlöndum. Eins og áður sagði var skólinn í upphafi einungis fyrir hvíta efristéttardrengi þannig að hann var ekki einungis lokaður stúlkum heldur einnig drengjum úr lægri stéttum. Þegar kemur að skólaþróun næstu ára verður því sérstaklega hugað að þessum hópi og hvernig skólakerfið getur betur komið til móts við hann.

Það er aldrei of oft minnt á það að frammistaða í einstökum prófum getur ekki verið eini mælikvarðinn á hvernig skólanum tekst til við að rækta hlutverk sitt og hvernig reynsla nemenda er í heild sinni. Það er oft sagt að við séum það sem við borðum en við erum einnig það sem við sjáum og það sem við lærum. Börn í nútímanum alast upp við það að karlar eru fleiri í helstu áhrifastöðum landsins, bæði innan opinbera- og einkageirans og kynbundið launamisrétti er enn landlægt svo dæmi séu tekin. Börn eiga til að læra það sem fyrir þeim er haft og því er mikilvægt að þetta breytist á komandi árum.

Eins þurfum við að huga að því að móta skólasamfélagið á lýðræðislegan hátt og efla virkni allra. Það er eftirtektarvert að þrátt fyrir að stelpur séu fleiri í framhaldsskólum eru þær mun síður sýnilegar í opinberu félagslífi skólanna. Skv. Gróflegri athugun frá 2004 hafa stelpur verið innan við 15% formanna nemendafélaga frá upphafi veljast stelpur síður sem formenn nemendafélaga, í vinsælum spurningaþætti í sjónvarpi (Gettu betur) sem er fyrirferðamikill þáttur í ásýnd skólanna hafa stelpur verið 5% keppenda í úrslitaliðum frá upphafi. Það sama er hægt að segja um MORFÍS ræðukeppni framhaldsskólanema. Í gegnum félagslífið eru nemendur að þroska sig sem virka þegna í lýðræðisþjóðfélagi. Þrátt fyrir að stelpur hafi fyrir löngu fengið aðgang að skólastofnunum hafa þær ekki náð að verða jafn virkir þátttakendur á sviði hins opinbera lífs, hvort heldur innan skólanna eða utan. Mikilvægt er að skólarnir vinni að því að allir hópar skólasamfélagsins fái markvissa þjálfun á þessum sviðum, hvort sem er í gegnum námið eða félagslífið.

Með aukinni alþjóðavæðingu hefur fjölbreytileiki nemendahópsins aldrei verið meiri. Sjálfsmyndarsköpun hefur orðið flóknari og mikilvægt að í skólanum sé gert ráð fyrir að vinna þurfi með nemendum að því að rækta sjálfsskilning og umburðarlyndi. Kynferði er einna fyrirferðamesti þátturinn í sjálfsmyndarsköpun einstaklings. Nemendur þurfa að fá að læra um mismunandi ímyndir um karlmennsku og kvenleika í sögulegu og samtímalegu samhengi, út frá ólíkum menningarheimum og í gegnum ólíka miðla. Mikilvægt er að þessar ímyndir séu brotnar upp og skoðaðar í gagnrýnu ljósi. Þau þurfa að fá að læra um stöðu kynjanna í samhengi við aðrar mismunabreytur og hvernig baráttu fyrir jafnrétti í fortíð og nútíð hefur verið háttað þannig að þau viti að réttindi eru og verða aldrei sjálfgefin og að þær skyldur sem samfélagið leggur þeim á herðar eiga að dreifast jafnt á þegnana. Vinna verður að því að virkni, val á viðfangsefnum og þekkingarleit drengja og stúlkna séu ekki heft af ráðandi hugmyndum um karlmennsku og kvenleika sem geta verið mismunandi eftir félags- og menningarumhverfi og eftir tímabilum. Mikilvægt er að námsframboð skólans og starfshættir ýti undir þau markmið - ekki síst á þeim tímum þar sem valfrelsi í skólum hefur verið aukið. Nú reynir því meira á en áður að jafnréttissýn skóla sé skýr.

Eina leiðin til að tryggja skýra jafnréttissýn í skólum er í fyrsta lagi að jafnrétti sé einn af lykilþáttum (key competence) í nýrri námskrá sem kveður á um að jafnréttisfræðslu og -hugsun sé fléttað (mainstreamed) inn í allt skólastarfið. Í öðru lagi að skilningi og þekkingu á mikilvægi jafnréttismála séu gerð skil í kennaramenntun og fest í sessi í kjarnagreinum kennaranámsins. Grundvallarbreytingar verða gerðar á kennaramenntuninni á næstu árum. Með lögum var ákveðið að kennarar í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum skuli ljúka meistaranámi sem miðar að faglegum undirbúningi undir kennarastörf og því mikilvægt tækifæri til breytinga.

Lokaorð

Þessi ójafna staða er einmitt ástæðan fyrir því að við komum saman hér í dag og skiptumst á hugmyndum um hvernig við getum ræktað frekari jafnréttishugsun í öllu skólastarfi, bæði drengjum og stúlkum til farsældar. Ég er viss um að við munum fara héðan í dag ögn ríkari af slíkum hugmyndum sem við munum geta nýtt okkur og okkar stofnunum til framdráttar.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum