Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

30. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á Landsþingi þýðenda og túlka 30. september 2009

Katrin_Jakobsdottir
Katrin_Jakobsdottir

30. september 2009, Þjóðminjasafnið

Þýtt og túlkað á Íslandinu nýja afmælisþing Bandalags þýðenda og túlka

Þýðingar og túlkun verða æ þýðingarmeiri á Íslandi með auknu alþjóðlegu samstarfi á ólíkum sviðum eins og menningu, viðskiptum og auðvitað stjórnmálum. Þýðingar eru afar mikilvægur þáttur ef fram á að geta farið skjót og áreiðanleg miðlun margvíslegra upplýsinga á milli ólíkra menningarheima. Á ráðstefnum, fundum eða fyrir dómstólum skiptir skjótvirk og áreiðanleg túlkun gríðarlega miklu máli. Þetta er flókið samspil og efniviðurinn er svo sannarlega fjölbreyttur og síbreytilegur, allt frá fagurbókmenntum til flókins tæknimáls.

Í Íslenskri málstefnu sem var samþykkt af Alþingi og í ríkisstjórn í vor er mikil áhersla lögð á þýðingar og túlkun sem eina af grunnstoðum í því alþjóðlega samstarfi sem Íslendingar eru svo virkir í. Þörfin fyrir þýðingar, túlkun og menningarmiðlun af ýmsum toga mun þar að auki ugglaust aukast á komandi árum.

Eins og segir í málstefnunni þá er það sjálfsögð krafa okkar Íslendinga að hafa aðgang að margvíslegu efni af erlendum uppruna á íslensku. Lög, reglugerðir, viðskiptasamninga, tæknilega staðla, notkunarleiðbeiningar, fræðileg skrif, fagurbókmenntir og kvikmyndir, svo að fátt eitt sé nefnt, þarf að
þýða á íslensku svo að Íslendingar geti nýtt og notið á móðurmálinu. Íslendingar þurfa enn fremur að geta miðlað efni af íslensku til annarra þjóða. Þá þarf íslenska að vera gjaldgeng hjá alþjóðastofnunum og á alþjóðaráðstefnum þar sem fram fer túlkun á milli ýmissa þjóðtungna.

Margt gott hefur áunnist á undanförnum árum. Árið 2001 kom Háskóli Íslands á fót sérstakri námsbraut í þýðingafræðum. Þýðingafræði þjálfar nemendur í miðlun upplýsinga á milli menningarheima með ýmsum aðferðum sem er auðvitað brýnt til þess að Íslendingar hafi á að skipa öflugri sveit manna með sérþekkingu á þýðingum, túlkun og menningarmiðlun.

Í starfi Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins hefur orðið til gríðarmikið safn hugtaka á sviði laga og stjórnsýslu og einnig fjöldi tæknilegra hugtaka sem notuð eru á hinum fjölmörgu sérsviðum EES samningsins.

Þá má nefna Málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem hefur stutt starf orðanefnda eftir föngum og meðal annars starfrækt rafrænan orðabanka frá árinu 1997. Orðabankinn geymir fjölda sérhæfðra íðorðasafna sem einstaklingar og orðanefndir hafa unnið. Þar má fá yfirsýn yfir íslenskan íðorðaforða og ýmis nýyrði úr almennu máli og um leið veitir hann aðgang að þýðingum á erlendum íðorðum.

Í markmiðum íslenskrar málstefnu um þýðingar og túlkun er lagt til að íslenska standi jafnfætis tungumálum grannþjóðanna í þýðingum og túlkun.

Í því felst að Íslendingar hafi á að skipa stétt vel menntaðra og þjálfaðra sérfræðinga í þýðingum og túlkun sem tryggt geti að Íslendingar eigi ætíð kost á vönduðum íslenskum þýðingum á hvers kyns textum, lögum og reglugerðum, fræðilegum textum, fréttatextum og fagurbókmenntum, og jafnframt túlkun yfir á íslensku í fjölmiðlum, á alþjóðlegum ráðstefnum, fundum og fyrir dómstólum. Enn fremur að Íslendingar verði færir um að veita sams konar þýðingar og túlkun af íslensku á önnur tungumál.

Þetta eru háleit markmið og til þess að vinna að þeim er lagt til að gripið verði meðal annars til eftirfarinna aðgerða:

Að kennsla í þýðingafræðum við íslenska háskóla verði efld.

Að komið verði á fót hagnýtu námi í þýðingum og textavinnu í samvinnu við atvinnulífið þar sem lögð verði áhersla á þýðingar laga- og tæknitexta og meðferð nytjatexta.

Að komið verði á fót skipulegri þjálfun túlka á Íslandi.

Að stutt verði við íðorðastarfsemi, bæði með kennslu í íðorðasmíð, skipulegum stuðningi við orðanefndir og viðurkenningu á íðorðastarfi í háskólum og fræðasamfélaginu almennt.

Að orðabankar á Netinu verði efldir og kynntir.

Að í engu verið hvikað frá þeirri stefnu að þýða á íslensku allar erlendar tilskipanir, reglugerðir, ákvarðanir eða tilmæli sem gildi hafa fyrir Íslendinga.

Að allir íslenskir fjölmiðlar verði hvattir til þess að birta ekki efni á erlendu máli nema því fylgi vönduð íslensk þýðing. Auglýsingar verði þar ekki undanþegnar.

Að hugbúnaðarþýðingar verði stórefldar svo að Íslendingar eigi kost á notendaviðmóti á móðurmáli sínu.

Hér voru upp taldar nokkrar þeirra aðgerða sem lagðar eru til í íslenskri málstefnu, og vonandi verður hægt að vinna að framgangi þeirra. Það er augljóst að ekki verður hægt að hrinda þeim öllum í framkvæmd á næstunni, en góðir hlutir gerast hægt og mikill vilji er hjá öllum aðilum að standa sem best að þessum málaflokki.

Þýðingar hafa ávallt verið stór þáttur í auðgun íslenskrar menningar í viðleitni okkar við að skilja, þýða og tileinka okkur framandi menningu.
Mig langar til að óska Bandalagi þýðenda og túlka innilega til hamingju með fimm ára afmælið og óska þeim góðs gengis í störfum sínum á Íslandinu nýja.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum