Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherrra á málþingi Háskólafélags Suðurlands um rannsóknir á Suðurlandi 25. september 2009

Katrín Jakobsdóttir
katrinjak_25_09_2009

25. september 2009, Fjölbrautaskóli Suðurlands
Ágætu gestir:

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og ávarpa þetta málþing sem tileinkað er rannsóknum á Suðurlandi og um leið gefast tækifæri til að kynnast starfsemi Háskólafélags Suðurlands.

Háskólafélagið er sérstakt samvinnuverkefni og á ekki sinn líka hér á landi en með stofnun þess er gerð tilraun til að efla samvinnu ólíkra aðila sem eru staddir víða í þessum stóra landsfjórðungi. Sveitarfélög hafa ekki áður komið með svo afgerandi hætti að málefnum háskólastigsins, það verður því áhugavert að fylgjast með ykkar störfum í framtíðinni.

Markmið félagsins er að auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með uppbyggingu þekkingarsamfélags. Áhugaverð er sú vinna ykkar sem felst í uppbyggingu rannsóknarklasa þar sem koma að helstu menntastofnanir á háskólastigi á Suðurlandi ásamt fjölda fyrirtækja og stofnana. Þá skilst mér að einn rannsóknaklasinn eigi að fjalla um náttúruvá, sem sannarlega tengist aðstæðum á staðnum í ljósi jarðskjálfta sem hér hafa orðið. Ég er líka mjög ánægð með fyrsta átaksverkefni  sem Háskólafélagið hefur hrundið af stað sem felst í því að efla háskólastarfsemi á svæðinu frá Skógum að Kirkjubæjarklaustri. Þetta er stórt landsvæði sem hefur að ákveðnu marki orðið útundan í uppbyggingu háskólastarfsemi á landsbyggðinni á undanförnum árum. 

Það er ljóst að til að starfsemi eins og sú sem Háskólafélagið rekur þarf ákveðna umgjörð til að ná markmiðum sínum. Þess vegna hefur, af hálfu menntamálaráðuneytis, verið lögð áhersla á að nýta upplýsingatækni til að auka fjölbreytni og tækifæri í menntun, menningu og vísindum á landbyggðinni.  Mikil þróun hefur átt sér stað í fjarnámi þar sem stuðst er við nútíma tækni og hefur  ráðuneytið unnið markvisst að þeirri uppbyggingu og hafa þannig skapast tæknilegar forsendur fyrir öflugu fjarnámi og því að stunda öfluga rannsóknarstarfsemi víða um landið. En það gefur augaleið að uppbygging rannsókna og menntunar um allt land verður ekki gerð nema í öflugu samstarfi við fulltrúa hvers landshluta. Háskólafélag Suðurlands er skýrt dæmi um slíkt frumkvæði.

Opinberar rannsóknarstofnanir eru margar með útibú og aðra starfsemi á landsbyggðinni og háskólar í landinu hafa verið að auka þjónustu sína út á landi. Með stofnun fræða- og þekkingarsetra hefur verið skapaður vettvangur til þess að ólík starfsemi, sem þó öll beinist að viðkomandi stað, geti sameinað krafta sína á þeim sviðum sem þeir hafa hag að. Með aðild og öflugu samstarfi rannsóknarstofnana og háskóla að uppbyggingu þekkingasetra eru tryggð ákveðin staðfesta með starfseminni. Þá myndast tengsl  við starfsemi viðkomandi stofnana á landsvísu og  á alþjóðlegum vettvangi en einnig við það sem fram fer í héraði. Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi er gott dæmi um slíkt.

Á tímum, þegar einsýnt er að þjóðin verður öll að leggjast á eitt um að hagræða og horfa í útgjöld er nauðsynlegt að skapa grundvöll fyrir aukinni samvinnu skyldra hagsmunaaðila sem allir stefna að sama marki. Ekki má gleyma að Suðurland á sér lengri sögu skólahalds en um getur annars staðar á Íslandi og hýsti um 700 ára skeið helstu menntastofnun landsins. Sé litið nær nútímanum má minna á þátt Laugarvatns sem lengi vel var ein helsta menntamiðstöð landsins og hýsir enn hluta Háskóla Íslands. Þá hefur rannsóknar- og vísindastarfsemi staðið í blóma í Gunnarsholti og síðar á Selfossi svo dæmi sé tekið. Samstarf þeirra aðila sem koma að Háskólafélagi Suðurlands mun efalítið vega þungt í uppbyggingu mennta og vísinda hér á Suðurlandi og stuðla að uppbyggingu þekkingarsamfélags á breiðum grundvelli og efla allt mannlíf.  

Ég óska ykkur til hamingju með þetta fyrsta málþing Háskólafélagsins um rannsóknir og megið þið eiga ánægjulegan dag.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum