Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra á ráðstefnu á vegum Samtaka sjálfstæðra skóla 29. september 2009

Ágætu ráðstefnugestir

Forsenda farsæls skólastarfs er góð líðan nemenda. Meginhlutverk skóla er að skapa umhverfi og aðstöðu til uppeldis, þroska og menntunar þar sem hlúð er að líkamlegri og andlegri vellíðan og velferð barna og unglinga. Ný leik-, grunn- og framhaldsskólalög, sem samþykkt voru á Alþingi 2008, voru spor í átt til heildstæðara skólakerfis með aukna áherslu á fjölbreytni og sveigjanleika til að gera það betur í stakk búið til að mæta þörfum ólíkra einstaklinga. Fjölbreytni í skólastarfi er mikilvægt markmið þar sem það leiðir til grósku, fólk prófar sig áfram, fer ólíkar leiðir og þannig skapast umræða og framþróun. Einkareknir skólar tryggja rekstrarlega fjölbreytni en geta verið misjafnir eins og opinberir skólar varðandi framsækni eða nýbreytni í skólastarfi. Innra starf markast af skólastefnunni og hvernig stjórnendum og starfsfólki hvers skóla tekst að fylgja eftir þeirri sýn sem á að móta skólastarfið.

Sjálfstætt reknir skólar eiga sér langa hefð á Íslandi og hafa skipað mikilvægan sess í okkar skólakerfi. Í því sambandi má nefna Ísaksskóla og Landakotsskóla. Einnig má nefna aukið val foreldra með þeim tveimur Waldorf grunnskólum sem nú starfa í samræmi við stefnu slíkra skóla erlendis. Á síðustu árum hefur sókn Hjallastefnunnar inn í grunnskólakerfið verið markviss og náð mikilli útbreiðslu á stuttum tíma og skapað áhugaverðar umræður um mikilvægi kynjasjónarmiða í stefnumótun skóla. Waldorfsskólarnir og hjallastefnan eru dæmi um skólastefnur þar sem námskrá og áherslur eru framsæknar og stuðla að aukinni hugmyndafræðilegri fjölbreytni í skólakerfinu.

Á árinu 2008 voru alls 9 sjálfstætt reknir grunnskólar starfandi hér á landi með tæplega 2% af heildarfjölda grunnskólanemenda á landinu. Á leikskólastiginu hefur þetta rekstrarform hins vegar náð meiri fótfestu. Lagaleg staða þessara skóla hefur verið óskýr til langs tíma, ekki síst þegar kom að fjárhagslega þættinum, en breyting varð þar á nýlega með grunnskólalögum.

Ný menntastefna – lagaákvæði - rammar
Með nýjum leik- og grunnskólalögum er aukin áhersla á sjálfstæði sveitarfélaga og skóla og aukna þátttöku foreldra í mótun skólastarfs. Ákvæði um sjálfstætt starfandi skóla eru gerð skýrari, þar með talið mat og eftirlit með starfsemi skóla til að tryggja réttindi nemenda.

Ábyrgð á rekstri og kostnaði grunnskóla er á forræði sveitarfélaga. Það er jafnframt í höndum einstakra sveitarfélaga að taka ákvörðun um það hvort þau vilja heimila öðrum að stofna og reka grunnskóla. Lögin kveða á um að ef sveitarfélag samþykki rekstur sjálfstætt rekins skóla eigi sá skóli jafnframt rétt á ákveðnum lágmarksframlögum úr sveitarsjóði.

Í leikskólalögum er sérstakur kafli sem fjallar um stofnun og rekstur leikskóla þ.m.t. ákvæði um heimild til byggingar og reksturs leikskóla á vegum sjálfstætt starfandi aðila. Sjálfstætt reknum leikskólum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár. Það hefur um leið kallað á að leikskólalöggjöfin kveði með skýrari hætti á um fyrirkomulag einkareksturs á skólastofnunum.

Í grunnskólalögum er nokkurn veginn óbreytt ákvæði og voru í eldri lögum. Gert er ráð fyrir því að ákvæði grunnskólalaga taki til skóla sem hlotið hafa viðurkenningu menntamálaráðherra eftir því sem við á. Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að gera ráð fyrir því að einstök ákvæði laganna geti að öllu leyti átt við um skóla sem hlotið hafa viðurkenningu menntamálaráðherra. Verður þá m.a. að horfa til þess hvernig til skólagöngu barns er stofnað í viðurkenndum skólum og gefa verður slíkum skólum ákveðið svigrúm en að sjálfsögðu í samræmi við markmið og tilgang grunnskólalaga. Menntamálaráðherra er falið að kveða nánar á um viðurkenningu skóla og starfrækslu þeirra í reglugerð og er vinna við gerð reglugerðarinnar á lokastigi þar sem haft hefur verið víðtækt samráð við hagsmunaaðila, m.a. Samtök sjálfstæðra skóla.

Ég legg áherslu á að vandað verði til vinnu við reglugerðina þannig að ráðuneytið, sveitarfélög og umsækjendur um sjálfstætt rekna grunnskóla geti unnið faglega í öllu umsóknar- og viðurkenningarferlinu. Mikilvægt er að vanda vel til viðurkenningar og fara ítarlega yfir ýmsa þætti skólastarfsins og fyrirhugaðrar skólastefnu til þess að auka líkur á því að skólinn fullnægi kröfum laga, reglugerða og aðalnámskrár. Það er engum greiði gerður með því að hraða um of umsóknarferlinu þannig að málið verði unnið undir of miklum þrýstingi frá tilteknum hagsmunaaðilum. Vanda skal það sem lengi á að standa á vel við í þessu samhengi.

Í framhaldsskólalögum er m.a. það nýmæli að finna að safnað er á einn stað ýmsu sem varðar aðra skóla en opinbera og skilgreind skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá viðurkenningu sem framhaldsskólar þannig að nám í þeim sé matshæft í alla skóla, eftir því sem við á.
Í viðurkenningu þessara skóla felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi skóla uppfylli, á þeim tíma sem viðurkenning er veitt, almenn skilyrði laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim.
Í lögunum felast mikil nýmæli, réttarheimildir og óhætt að segja að réttarstaða þessara skóla sé skýrð. Lögin skýra þannig með hvaða hætti mismunandi rekstrarform skóla getur verið á þessum þremur fyrstu skólastigum.
Með auknu sjálfstæði sveitarfélaga og skóla, þ.m.t. sjálfstætt rekinna skóla, auknu svigrúmi þeirra til að móta skólahald og aukinni ábyrgð nemenda og foreldra er nauðsynlegt að stjórnvöld standi vörð um gæði menntunar með virku mati og eftirliti. Bent hefur verið á að ábyrgð sveitarfélaga varðandi mat og eftirlit með gæðum grunnskólastarfs hafi ekki verið nægjanlega skýrt, ekki síst hvað varðar mat og eftirlit sveitarfélaga með starfsemi sjálfstætt rekinna skóla.
Ég tel að sjálfstætt reknir leik- og grunnskólar á Íslandi geti verið mikilvæg viðbót við skólaflóruna á Íslandi en gera verður þá kröfu til allra slíkra skóla að þeir starfi innan ramma laga og reglugerða í samræmi við aðalnámskrá leik- og grunnskóla, með skilgreindu svigrúmi til að móta áherslur í samræmi við tilteknar skólastefnur.

NÝ MENNTASTEFNA
Á undanförnum árum og áratugum hafa orðið gagngerar breytingar á samfélagi okkar, samsetningu, atvinnuháttum og menningu. Við höfum unnið að nýrri stefnumörkun í menntamálum sem við trúum að séu í takt við þessar breytingar á þjóðfélagi okkar og menningu.

Í nýrri menntastefnu á Íslandi ráða fagleg gildi ferðinni þar sem kerfið lagar sig að ólíkum einstaklingum, þar sem fjölbreytileiki nemendahópsins er fjársjóður til að vinna með í skólastarfinu og þar sem menntun allra nemenda er talin jafngild að mikilvægi. Það er mikilvægt að þessari almennu stefnu sé einnig framfylgt innan sjálfstætt rekinna skóla og að allir nemendur sem óska eftir skólavist finni sig þar velkomna.

Í nýjum námskrám er gert ráð fyrir aukinni áherslu á lýðræði, jafnrétti og menntun til sjálfbærni. Lýðræði og jafnrétti hafa átt sér sess í grunnskólalögum í áratugi án þess að allir skólar hafi sérstaklega fléttað þessa þætti inn í allt skólastarfið. Gagnrýnin hugsun, sem er í raun grunnur að lýðræðishæfni, er vinsælt hugtak í námskrám og hátíðarræðum en misjafnt er hversu mikið nám miðar að því að efla gagnrýna hugsun. Varðandi áherslu á menntun til sjálfbærni finnst mér varla þurfa að rökstyðja mikilvægi þess að nemendur læri að mæta eigin þörfum án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Sjálfbærni þarf að skoðast út frá hagrænu, félagslegu og pólitísku sjónarhorni. Til að fylgja eftir þessum mikilvægu samfélagsáherslum er gert ráð fyrir því að mat á sjálfu skólastarfinu verði margþættara og nái bæði til akademískra, kennslu- og félagslegra þátta í skólastarfinu.

Það er von mín að skólastarf í landinu mótist meir en áður af þessum mikilvægu þáttum og að þeir sem koma að ákvarðanatöku í sveitarfélögum veiti framsæknu og fjölbreyttu skólastarfi aukin tækifæri, ekki síst í almennum leik- og grunnskólum sem reknir eru á vegum sveitarfélaga. Ég tel að skólar sem starfa innan ykkar vébanda hafi sýnt að þeir eru tilbúnir til þess að takast á við að byggja upp öflugt skólasamfélag sem einkennist af metnaði, alúð og þrautseigju.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum