Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

30. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur afmæliskveðju á 25 ára afmælishátíð Fjölbrautaskólans í Garðabæ 16. október

Katrin Jakobsdottir F.G. 25. ára
Katrin_Jakobsdottir_F.G_25._ara

Það er kunnugra en frá þurfi að segja að íslenskt þjóðfélag hefur tekið stakkaskiptum á skemmri tíma en flest önnur samfélög í Evrópu. Sem dæmi má nefna að Danir komu á almenningsskóla 1814, Norðmenn fyrir 1870, en hérlendis var skólaskylda ekki lögleidd fyrr en 1907. En síðan hafa breytingarnar verið ansi hraðfara hvort sem er í menntun, atvinnulífi eða afþreyingu, svo einhver dæmi séu nefnd. Um aldamótin 1900 ýttu menn árabát á flot og veiddu lítið, nú getur fiskveiðiflotinn veitt meira en stofnarnir þola. Árið 1900 var hvert heimili sjálfu sér nægt um afþreyingu að mestu leyti. Nú eru menn áskrifendur að dagblöðum eða fá þau ókeypis og velja úr sjónvarps- og útvarpsstöðvum. Um aldamótin 1900 fór innan við 1% af hverjum árgangi í framhaldsskóla, í vor innrituðum við um 96% árgangsins.

Þessar breytingar sjást einkar glögglega hér í Garðabæ. Fyrr á tíð náði Álftaneshreppur yfir þetta landsvæði og þar var um skeið rekinn eini framhaldsskóli landsins, Bessastaðaskóli sem brautskráði marga höfuðsnillinga og var síðar fluttur til Reykjavíkur. Prófasturinn í Görðum á Álftanesi, Árni Helgason, útskrifaði líka stúdenta eftir heimakennslu sína, líklega ekki færri en 30 pilta. Kunnastir þeirra eru Baldvin Einarsson útgefandi Ármanns á alþingi, Sveinbjörn Egilsson rektor og þýðandi og Grímur Thomsen skáld. Sr. Árni lét þess sérstaklega getið í sóknarlýsingu sinni frá því laust fyrir miðja 19. öld að almennt væri fólk bæði læst og skrifandi og meira að segja gætu sumir almúgamenn skrifað betur en embættismenn!

Þar kom 1878 að Álftaneshreppi var skipt og stofnað til nýs sveitarfélags sem var kennt við prestsetrið í Görðum, Garðahreppur varð til og var líklega lengi einn fjölmennasti hreppur landsins uns menn breyttu nafni sveitarfélagsins í Garðabær.

Ég held að fullyrða megi að bæjarfélagið hefur blómstrað og hér býðst öll sú þjónusta sem menn leita eftir.

Skólahald stendur hér líka á gömlum merg. Hér var stofnaður barnaskóli fyrir aldamótin 1800, og hér var Fjölbrautaskóli Garðabæjar stofnaður 1. ágúst 1984 upp úr framhaldsdeildum sem reknar voru í tengslum við Garðaskóla. Einhverjir höfðu á orði, að ekki væri grundvöllur fyrir rekstri framhaldsskóla í bænum, en þær raddir þögnuðu strax. Skólinn hefur vaxið og dafnað síðan ýtt var úr vör og nú stunda hér nám meira en 700 ungmenni og skólinn hefur þjónað vel þeim markmiðum sem honum voru sett í upphafi, sem sé að veita ungmennum trausta og staðgóða menntun við hæfi hvers og eins. Gömlu skólarnir voru einungis fyrir pilta, og Árni prófastur brautskráði líka einungis stráka. Nú er öldin önnur og stúlkur eru í meirihluta þeirra sem stunda nám í framhaldsskóla og miklu fleiri stúlkur en strákar ljúka nú stúdentsprófi .

En hvað er þá góð menntun? Því má vafalaust svara á ótal vegu, en mér finnst eiga vel við vísa eftir Stephan G. Stephansson skáld, en ungur fluttist hann vestur um haf. Hann naut engrar skólagöngu en samt var hann menntaður maður. Hann vann hörðum höndum fyrir sér og sínum og lýsir því í kveðskap:

Löngum var ég læknir minn
lögfræðingur, prestur,
smiður, kóngur, kennarinn,
kerra, plógur, hestur.

Þetta er í raun líka lýsing á högum þorra manna hérlendis fram yfir aldamótin 1900. Þeir höfðu ekkert að reiða sig á nema sjálfa sig. Félagslegt öryggisnet var ekki til í nútímaskilningi orðsins og lífsbaráttan var öllum þorra manna býsna erfið. En Stephan G. lýsir menntun á þessa lund:

Þitt er menntað afl og önd eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.

Það dugir sem sé ekki að hafa hvassan skilning og haga hönd ef hjartavitið brestur, það sem skilur milli feigs og ófeigs. En hafi menn hvassan skilning, haga hönd og hjartað á réttum stað, þá eru þeim allir vegir færir. Ég sagði í upphafi að þjóðfélagið hefði tekið stakkaskiptum frá aldamótum 1900. Það má líka færa fyrir því rök að samfélag okkar hafi tekið stakkaskiptum síðan í fyrra eða kollsteypu. Kannski er það vegna þess að hjartavitið var ekki með í för, kannski skorti eitthvað á skilninginn. Því er jafnvel haldið fram að orðið lífsbarátta hafi aftur fengið þá merkingu sem það hafði. Hvað sem um það má segja mun menntunin vega þungt í því endurreisnarstarfi sem nú er unnið. Verið er að leggja lokahönd á nýjar námskrár sem vonandi styrkja þá menntastefnu sem í raun felst í vísunni hans Stephans G. Það skiptir miklu máli að vel takist til um útfærslu hennar. Með þeim orðum vil ég óska starfsfólki Fjölbrautaskólans í Garðabæ og öllum Garðbæingum til hamingju með aldarfjórðungsstarf skólans og ég árna honum allra heilla til framtíðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum