Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp við þingsetningu Ungmennafélags Íslands 10. október 2009

Þingforsetar, formaður Ungmennafélags Íslands, þingfulltrúar og gestir
Það er mikilvægt að eiga að samtök eins og Ungmennafélag Íslands. Félagsskap sem sinnir fjölbreyttum verkefnum um land allt. Samtökum sem hafa sýnt það og sannað að þau hafa getu, kraft og vilja til að takast á við verkefni og leysa þau.

Stórir viðburðir í starfsemi UMFÍ eru landsmótin. 26. landsmót UMFÍ var haldið á Akureyri dagana 9. til 12. júlí sl. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að vera viðstödd setningarathöfn landsmótsins. Var það bæði hátíðleg og eftirminnileg stund.

Það var djörf ákvörðun hjá UMFÍ að færa unglingalandsmótin yfir á Verslunarmannahelgina. Reynslan hefur sýnt að sú ákvörðun var rétt. 12. unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Sauðárkróki sl. sumar. Unglingalandsmótin eru stærstu íþróttamót sem haldin eru hér á landi. Mótin eru kjörinn vettvangur fyrir alla fjölskylduna til að koma saman og eiga skemmtilega og ánægjulega daga saman. Enda hefur það komið í ljós að Unglingalandsmótunum hefur vaxið fiskur um hrygg með hverju árinu. Mótin eru án vafa ein besta og skemmtilegasta fjölskyldu-, íþrótta- og forvarnarhátíð sem hægt er að hugsa sér. Unglingalandsmótin eru einnig mikilvægt jafnréttis- og byggðamál. Mótin hafa verið haldin víðsvegar um land bæði í stærri og minni sveitarfélögum. Í tengslum við mótin hefur verð bætt aðstaða til íþróttaiðkana og ýmis önnur félagsaðstaða sem kemur íbúunum til góða.

Ungmennafélagshreyfingin hefur látið fjölmörg mál til sín taka sem eftir hefur verið tekið bæði sem tengjast forvarnarstarfi margskonar, menningarmálum, útivist og ræktun lands og lýðs. Þá hafið þið staðið fyrir verkefnum er snúa að aukinni þátttöku ungs fólks í starfinu með öflugu og virku ungmennaráði.

Í æskulýðsrannsóknunum Ungt fólk sem ráðuneytið hefur meðal annarra staðið að hefur það komið í ljós að þau börn og ungmenni sem taka þátt í skipulögðu íþrótta-, félags- og tómstundastarfi eru mun síður líkleg til að leiðast út í neyslu ávana- og fíkniefna. Þá er jafningjahópurinn sterkari sem tekur þátt í slíku skipulögðu æskulýðsstarfi.

Forvarnarstarf hefur ávallt verið ykkur í ungmennafélagshreyfingunni hugleikið. Þar er meðal annars unnið með verkefnið Flott án fíknar í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þá hefur UMFÍ verið aðili að hinum árlega Forvarnardegi Forseta Íslands.

UMFÍ stóð fyrir veglegri ráðstefnu Ungt fólk og lýðræði sem haldin var á Akureyri í byrjun marsmánaðar sl. Þótti mér mjög  ánægulegt að geta verið með ykkur þar.

Einnig standið þið fyrir Ungmenna- og tómstundabúðum að Laugum í Sælingsdal í samvinnu við sveitarfélagið Dalabyggð fyrir nemendur í grunnskólum.
Starfið innan ungmennafélagshreyfingarinnar er mjög fjölbreytt um allt land, og þar fer fram fjölþætt menningarstarfsemi, ljóst er að ungu fólki standa fjölmargir möguleikar til boða með þátttöku í starfi ykkar sem er of langt mál að nefna hér.

Stjórnvöld hafa í gegnum árin leitast við að styðja við starfsemi UMFÍ með fjárframlögum, bæði til reksturs og einstakra verkefna. Má þar nefna að UMFÍ tók að sér fyrir ráðuneytið að sjá um rekstur á Landsskrifstofu fyrir ungmennaáætlunina Evrópa unga fólksins. Erum við afskaplega ánægð með hvernig UMFÍ hefur staðið að því verkefni.

UMFÍ var þátttakandi með ráðuneytinu og fleiri æskulýðssamtökum og sveitarfélögum á viðkomandi stöðum í verkefninu Æskan á óvissutímum. Haldin voru málþing á fimm stöðum á landinu í október og nóvember á síðasta ári. Tilefnið var að bregðast við því ástandi sem hafði skapast í samfélaginu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur átt mjög gott samstarf við UMFÍ til margra ára, bæði stjórn þess og starfsfólk Þjónustumiðstöðvarinnar á Laugavegi. Auk  þess hefur ráðuneytið kappkostað að vera í góðu sambandi við grasrótina um allt land og taka þátt í verkefnum með samtökunum.

Góðir þingfulltrúar. Eins og ég hef talið upp þá er hlutverk Ungmennafélagshreyfingarinnar fjölbreytt. Ég vil þakka sérstaklega það óeigingjarna og mikilvæga starf sem félagar hreyfingarinnar um allt land hafa unnið. Ég vona að þið eigið eftir að eiga hér góðar samræður og taka jákvæðar og góðar ákvarðarnir sem leiða Ungmennafélagið til sóknar fyrir ungt fólk hér á landi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum