Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

12. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á Safnahelgi á Suðurlandi 5. nóvember 2009

Kæru gestir.
Það er mér sérstakt ánægjuefni að vera með ykkur hér þegar Safnahelgi á Suðurlandi, matur og menning úr héraði, er haldin í annað sinn. Þá er einnig rétt að þakka fyrir málþingið sem hefur staðið hér í dag í tilefni af 60 ára afmæli Byggðasafnsins í Skógum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því framsýnt og drífandi fólk tók sig saman og stofnaði safnið árið 1949, aðeins nokkrum mánuðum eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Þetta voru erfiðir tímar í sögu heimsins og kannski hefur okkur, eins og mörgum öðrum þjóðum, þá verið ljósara en oft áður, mikilvægi þess að varðveita sögu okkar og menningu.

Við ykkur sem standið að þessu merka safni langar mig einfaldlega að segja: til hamingju með afmælið. Þá vil ég sérstaklega þakka Þórði Tómassyni fyrir hans miklu elju og óeigingjarna starf í þágu safnsins um áratuga skeið. Án framlags þíns og frumkvæðis, Þórður, hefði Byggðasafnið í Skógum tæpast náð að blómstra jafn ríkulega og raun ber vitni.
Menningararfurinn er lifandi afl í samfélaginu og við höfum tækifæri til að byggja á þeim arfi. Það sjáum við hér í Skógum og það sjáum við líka á þeim fjölda safna, setra, sýninga, gestastofa og garða sem tekið hafa höndum saman í Samtökum safna á Suðurlandi. Á safnahelgi eins og þeirri sem nú hefst er kjörið tækifæri til að vekja athygli á þeim mikla auði sem felst í menningunni, og ekki síður í matarmenningunni, sem er órjúfanlegur hluti af þeirri ríkulegu dagskrá sem nú er framundan.

Af þeirri fjölbreyttu dagskrá sem safnahelgin hefur að geyma er ljóst að Suðurland er vettvangur fjölskrúðugs menningarlífs, allt frá Hala í Suðursveit í austri til Hellisheiðarvirkjunar í vestri, frá Geysisstofu innst í landi til Vestmannaeyja úti fyrir ströndinni. Náttúruunnendur og tækniáhugafólk, bókmenntafólk og skjalagrúskarar, áhugafólk um íslenskt handverk, menningarsinnaðir matgæðingar af öllum stærðum og gerðum og fjölfræðifólk; allir munu finna eitthvað við sitt hæfi meðal þeirra dagskrárliða sem boðið verður upp á. Ég er þess fullviss að mikill straumur fólks mun sækja Suðurland heim um helgina.

Ég vil óska Samtökum safna á Suðurlandi, Matarkistu Suðurlands og Sunnlendingum öllum til hamingju með glæsilega dagskrá og vona að með þessari annarri Safnahelgi á Suðurlandi sé þessi glæsilega uppskeruhátíð Sunnlendinga búin að festa sig í sessi til framtíðar.
Ég lýsi Safnahelgi á Suðurlandi - Matur og menning úr héraði árið 2009 formlega opna.

Takk fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum