Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á 10 ára afmæli Félags kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði 7. nóvember 2009

10 ára afmæli Félags kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði
Trúarbragðafræðsla í skólum - hvert stefnum við?

Ágætu ráðstefnugestir

Ég vil byrja á að óska félagi kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum til hamingju með 10 ára afmæli sitt. Félagið er enn ungt að árum jafnvel þótt kennsla í trúarbragðafræðum eða öllu heldur kristnum fræðum eigi sér langa sögu í menntun hér á landi. Barnafræðsla á Íslandi var lengi vel í höndum kirkjunnar þjóna. Með fræðslulögum 1907 og boðskap bókar Guðmundar Finnbogasonar, Lýðmenntun, var hins vegar bundinn endi á aldagamla hefð kristindómsfræðslu í höndum presta og foreldra á Íslandi. Með lögunum var lagður grunnur að almenningsfræðslu á Íslandi á vegum opinberra yfirvalda. Í Lýðmenntun ritar Guðmundur árið 1903 m.a. um kristindómsfræðslu og veltir því fyrir sér hverjir séu best til þess fallnir að annast slíka kennslu. „Vér komum loks að einhverju hinu alvarlegasta og mikilvægasta viðfangsefni uppeldisfræðinnar og það er: hvernig á að veita æskulýðnum fræðslu í trúarefnum og innræta honum sannan siðgæðisanda. Hér kemur þá fyrst og fremst til greina hverjir eiga að hafa þetta vandaverk á höndum. Eru það heimilin eða prestarnir eða skólarnir eða allir þessir málsaðilar í sameiningu?“ Í Lýðmenntun Guðmundar er síður en svo verið að draga úr mikilvægi kristindómsfræðslu þótt hann bendi líka á þá staðreynd að í ýmsum löndum hafi verið tekist á um þessa hluti og að sumstaðar hafi kristindómsfræðsla verið afnumin í opinberum lýðskólum. „Markmið skólans á, eins og oft hefur verið tekið fram, að vera alefling sálar og líkamskrafta barnanna og skólinn má því ekki ótilneyddur vanrækja neina þá hlið sálarlífsins er mikilvæg er fyrir andlega heilbrigði þeirra.“

Þessar pælingar í „aðalnámskrá“ Guðmundar Finnbogasonar fyrir rúmlega 100 árum rýma á margan hátt við umræður dagsins í dag. Það er því fróðlegt að bera þær saman við það sem fram kemur í gildandi lögum um grunnskóla og aðalnámskrá og umræðuna í samfélaginu.

Í nýjum lögum um grunnskóla frá 2008 var gerð breyting á markmiðsgrein laganna sem hafði verið nánast óbreytt frá setningu fyrstu grunnskólalaganna 1974. Breytingin felst í því hvernig fjallað er um kristilegt siðgæði í menntun. Enn þann dag í dag er tekist á um þessi grunngildi því málið fékk töluverða umræðu á Alþingi. Í stað þess að segja eins og í lögum um grunnskóla frá 1995 að starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi segir í nýjum lögum að starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Í greinargerð með lögunum kemur fram að með þessari breytingu sé lögð áhersla á jafnrétti og ábyrgð. Einnig er kveðið á um að starfshættir skuli mótast af umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi í stað kristilegs siðgæðis í gildandi lögum, en þessi hugtök eru kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði í aðalnámskrá grunnskóla. Því þykir rétt að tilgreina ekki beint kristilegt siðgæði í ljósi breytinga á samfélaginu á undanförnum árum. Þessi breyting er í samræmi við ábendingar frá ýmsum aðilum. Þessara áhrifa hefur svo einnig gætt í aðalnámskrá grunnskóla en í gildandi námskrá sem gefin var út endurskoðuð 2007 er einmitt lögð aukin áhersla á trúarbragðafræðslu.

Hvaða áhrif hefur þessi breyting á kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum? Meginbreyting frá fyrri aðalnámskrá er aukin áhersla á önnur trúarbrögð en kristni. Verður það að teljast eðlilegt í ljósi vaxandi fjölmenningar í landinu og aukinna tengsla á milli ólíkra menningarsvæða í veröldinni. Það er ljóst að inntak greinarinnar hefur breyst á undanförnum árum í þá veru að hlutur siðfræðinnar og trúarbragðafræði hefur aukist á kostnað kristinfræði. Greinin gerir því augljóslega miklar kröfur til kennara. Þeir þurfa að geta tekist á við ýmis álitamál, siðræn viðfangsefni, mismunandi trú og lífsskoðanir og mannleg samskipti. Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun en á það hefur verið deilt opinberlega að slíkt hafi ekki alltaf verið nægilega vel aðgreint. Gagnkvæm virðing þarf að ríkja um mismunandi lífsskoðanir og lífsgildi fólks. Mikilvægt er í því samhengi að greina á milli hlutverks skólans annars vegar og kirkjunnar hins vegar. Þjóðkirkjan hefur fyrir sitt leyti sett fram starfsreglur um samskipti skóla og kirkju sem varða þessi mismunandi hlutverk sem ráðuneytið hefur ekki gert athugasemd við.

Í ráðuneytinu er um þessar mundir unnið að innleiðingu nýrra laga um skólastarf og ennfremur er hafin endurskoðun á aðalnámskrám og nánari útfærslu menntastefnu. Í nýjum aðalnámskrám fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er gert ráð fyrir sameiginlegri túlkun á stefnu og áherslum sem grundvallast á fimm grunnþáttum í menntun sem ég vil líta á sem eins konar rauðan þráð í gegnum allt skólakerfið. Þessir grunnþættir eru: læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Með þessari framsetningu eru gildin sem fram koma í markmiðsgrein grunnskólalaga enn frekar ydduð og áhersla lögð á heildarsýn á samfélagslegan þroska nemenda. Það er trú mín að skólinn gegni á þennan hátt lykilhlutverki í endurreisn samfélagsins í kjölfar efnahagserfiðleika þar sem sérstaklega þarf að rækta siðræn gildi og styrkja gagnrýna hugsun. Stefnt er að því að kynna drög að nýrri menntastefnu á menntaþingi í mars á næsta ári.

Góðir ráðstefnugestir. Það er erfitt að skilja að sögu okkar og menningu og sögu kristinnar kirkju á Íslandi svo nátengd er menning okkar kristni. Ég hóf mál mitt á smá söguskoðun með því að fjalla um stöðu kristindómsfræðslu og siðfræðikennslu fyrir 100 árum. Rétt eins og fyrir 100 árum er velferð barna og þroski hafður að leiðarljósi í menntun og einnig þau gildi sem okkur finnst skipta máli enn þann dag í dag. Hlutverk kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum er í senn vandasamt og mikilvægt og ef til vill sérstaklega mikilvægt með hliðsjón af þeim grunnþáttum sem lagðir verða til grundvallar í skólastarfi með nýrri menntastefnu í ljósi þess fjölbreytilega mannlífs sem þrífst í fjölmenningarsamfélagi nútímans.

Að svo mæltu vil ég ítreka heillaóskir mínar í tilefni afmælisins og óska ykkur góðs gengis í framtíðinni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum