Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra setur málþing um Barnvænt samfélag 10. nóvember 2009

Ágætu málþingsgestir
Það er mér mikil ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag.

Ég fagna frumkvæði og samvinnu Félags leikskólakennara, Heimilis og skóla og Samtaka atvinnulífsins að halda málþing um stöðu barna í íslensku samfélagi.

Umræðuefnið „Barnvænt samfélag“ er þarft. Full ástæða er til að staldra við og skoða þessi mál hérlendis í samhengi og greina með hvaða hætti unnt sé að gera betur. Hér er um að ræða mál sem snertir okkur öll - einstaklinga sem stofnanir, samtök og fyrirtæki.

Við lifum á umbrotatímum og það er kannski ein af ástæðum þess að við erum hér samankomin í dag. Nú eru viss tækifæri til að skoða með gagnrýnum hætti núverandi stöðu. Sú gagnrýni felur ekki eingöngu í sér að leita leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum aðstæðna heldur einnig að laða fram hugmyndir og skapandi lausnir og nálgast viðfangsefni á nýjan hátt. Þetta er m.a. markmið þessa málþings.

Í þessu samhengi er eðlilegt að spurt sé „Er Ísland barnvænt samfélag?“ Ef ekki, hvað þarf að breytast til að svo megi verða? Þarf að koma til stefnubreyting í mótun málefna barna? Forgangsraða á annan hátt og leita leiða m.a. til að stuðla að annars konar atvinnuumhverfi þar sem vinnudagur foreldra er sniðinn betur að þörfum barna og fjölskyldna þeirra?

Nauðsynlegt er að velta fyrir sér hvernig unnt er að koma á betri og meiri samvinnu og samþættingu starfsemi ólíkra aðila sem fást við skólamál, atvinnumál, fjölskyldumál, íþrótta- og æskulýðsmál eða félagsleg málefni barna.

Það er ánægjulegt á þessum vettvangi að geta þess að 20. nóvember nk. eru 20 ár síðan Barnasáttmálinn var samþykktur af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn var fullgiltur hér á landi árið 1992 og til stendur að lögfesta hann hérlendis samkvæmt þingsályktunartillögu allsherjarnefndar Alþingis frá mars sl.

Boðskapur Barnasáttmálans er m.a sá að rödd barnsins er mikilvæg og börn eiga að fá tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Að þessu þarf að huga í menntakerfinu sem annars staðar. Hlutverk menntakerfisins er meðal annars að stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna og ungmenna. Skólar eiga að vera griðastaður barna þar sem þau finna til öryggis, fá tækifæri til að þroskast, nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar.

Rétt er að vekja athygli á þingsályktun sem samþykkt var í júní 2007 um aðgerðaráætlun til ársins 2011 til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra. Aðgerðirnir lúta m.a. að almennum aðgerðum og samráði til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og fjölskyldna hér á landi. Þá er einnig gert ráð fyrir að á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Í tengslum við aðgerðaráætlunina er í fjárlögum fyrir árið 2009 gert ráð fyrir sérstöku framlagi til að koma betur til móts við langveik börn og börn með athyglisbrest og ofvirkni.

Góðir áheyrendur!

Samvinna margra ólíkra aðila er lykillinn að barnvænu samfélagi. Það er ekki síst á þeim tímum sem við nú lifum að mikilvægt er að opinská og hreinskiptin samræða fari fram milli þeirra aðila sem koma að mótun samfélagsins. Það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að gera Ísland að betra samfélagi í þágu barna en það er.
Um leið og ég segi þetta málþing sett – óska ég ykkur góðs gengis hér í dag.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum