Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

20. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra opnar nýjan manntalsvef Þjóðskjalasafns á árlegum norrænum skjaladegi 14. nóvember 2009

Kartín Jakobsdóttir á norrænum skjaladegi 14. nóv. 2009
Katrin_Jakobsdottir_a_norranum_skjaladegi


Öllum viðstöddum er ljóst mikilvægi skjala af öllu tagi sem heimilda um sögu lands og þjóðar; án slíkra heimilda væri þjóðarsagan aðeins skugginn af sjálfri sér. Manntöl eru hluti af þeim skjölum sem veita okkur þá innsýn, sem nauðsynleg er til að þroskast, og hjálpa okkur við að svara spurningum um hvaðan við komum. Spurningin “Hvernig verður þjóð til?” og hugtakið “menningararfur” eru einmitt tvær hliðar á sama peningnum. Til að skilja hver við erum verðum við að vita hvaðan við komum.

Orðið menningararfur er okkur tungutamt í dag. En það er ekki gamalt í málinu. Mér er sagt að það hafi fyrst birst á prenti árið 1923. Það er skemmtilegt og lýsandi að það var blaðið Lögberg, sem Vestur-Íslendingar gáfu út í Kanada – og gefa reyndar enn út, sem færði okkur þetta orð. Á þeim tíma var það Íslendingum, sem flust höfðu búferlum til Vesturheims og niðjum þeirra, mjög ofarlega í huga hverjir þeir væru í raun og veru, hvernig arfinum að heiman, tungu, bókmenntum og sögu, mundi vegna í nýja heiminum.

Rafræn miðlun menningararfsins er dæmi um mikilvæga aðferð til að auka aðgengi almennings og fræðimanna að honum. Á undanförnum árum hefur verið gert átak í að efla rafræna miðlun meningarefnis á öllum sviðum, og þar hafa verið unnin ýmis stórvirki á undanförnum árum.

En við erum hér saman komin af tveimur ástæðum, sem tengjast þessari þróun; annars vegar til að fagna árlegum norrænum skjaladegi, og hins vegar til að opna nýjan manntalsvef, þar sem verður að finna manntöl sem Þjóðskjalasafnið hefur undanfarin tvö ár unnið við að færa í stafrænan búning. Þessi vinna hefur að miklu leyti farið fram í fjarvinnslustöðvum á landsbyggðinni, og er gott dæmi um hvernig hægt er að sinna ýmsum verkefnum miðlægra menningarstofnana með skipulegum hætti á stöðum, þar sem slík atvinna er ef til vill ekki í boði að öðrum kosti.

Túlkun og útlegging menningararfsins er í sífelldri þróun og sköpun, þar sem takast á hefð og endurskoðun, gömul og ný þekking og fastheldni og endurmat. Með þessum vef opnast fræðimönnum hér á landi sem um allan heim aðgangur að upplýsingum, sem hingað til hefur þurft að hafa meira fyrir að nálgast, og hver veit hvert túlkun fræðimanna leiðir okkur næst. Hver kynslóð, hvert tímaskeið, sér söguna og menningararfinn með sínum augum. Í því felst lifandi gildi menningararfsins, sem við eru hér til að fagna.

Ég opna hér með manntalsvef Þjóðskjalasafns Íslands, og óska öllum viðstöddum til hamingju með daginn.

Takk fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum