Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. nóvember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra setur alþjóðlega ráðstefnu í tilefni af því að 200 ár eru frá byltingu Jörundar hundadagakonungs í Háskóla Íslands 21. nóvember 2009

Ágætu ráðstefnugestir.
Árið 1809 var ár mikillar ólgu í sögu Norðurálfu. Napóleon Frakkakeisari var þá á hátindi ferils síns og átti í stríði við nágranna sína í austri og vestri. Norðurlöndin fóru ekki varhluta af þessum átökum sem stóðu í mörg ár. Árið 1801 kyrrsettu Englendingar danska flotann og árið 1807 gerðu þeir gerðu árás á Kaupmannahöfn með fallbyssum og rakettum. (Það er haft fyrir satt að það hafi verið í fyrsta skipti sem ráðist var á almenna borgara í stríðsátökum eða það sem við í dag köllum hryðjuverkaárás). Árið 1809 urðu stórveldisdraumar Svíþjóðar að engu með því að Finnland hvarf undan þeirra stjórn og varð að stórfurstadæmi undir Rússakeisara. Hefur þess verið minnst í ár í báðum löndum að 200 ár eru liðin síðan þetta gerðist.

Bylgjur frá þessum átökum í Evrópu skullu einnig á Íslands ströndum því þetta sumar skolaði hér á land Jörgen Jörgensen, dönskum ævintýramanni á mála hjá Englendingum. Vegna styrjaldanna var erfitt fyrir Dani að halda uppi siglingum til Íslands og voru skip þeirra hertekin af Englendingum. Þetta varð til þess að Englendingar fóru að stunda hér verslun á næstu árum, gerðu um það samning við umboðsmann konungs, Trampe greifa stiftamtmann og hétu friði í staðinn.  Stóð í miklu þófi um þetta þegar Jörgen eða Jörundur kom hingað í júní 1809. Hann lét sig ekki muna um það að fremja hér byltingu og taka völdin í „höfuðborginni“ sem hann kallar svo og taka yfir stjórn landsins.  Trampe greifi var handtekinn og færður út í skip og dönskum yfirráðum varpað fyrir róða.

Eins og Jörundur segir sjálfur frá í ævisögu sinni þá mun engin þjóð hafa upplifað byltingu, sem var svo haganlega framkvæmd, svo saklaus og fullkomin eins og þessi. Enda hafi hann verið svo heppinn að Trampe greifi hafði sleppt því að fara í kirkju með öðru heimilisfólki þennan dag og því hefði verið hægt að koma honum á óvart og handtaka hann án vandkvæða. Jörundur tekur fram að hefði Trampe verið guðrækinn og frómur maður og farið í kirkju eins og kristnum manni ber, þá hefði ef til vill farið öðru vísi með byltinguna.  Jörundur, sem titlaði sig „alls Íslands verndara og hæstráðanda til sjós og lands“,  fór síðan um landið eins og hvítur stormsveipur, ef trúa má hans eigin lýsingu, lagði drög að ýmsum endurbótum landslýð til hagsbóta og fékk menn til hlýðni ýmist með blíðmælgi, sporslum eða hótunum. 

Það var nú kannski ekki svo erfitt að taka völdin hér á landi, ef maður hugsar til þess hvernig sá staður var, sem Jörundur yfirtók. Reykjavík, sem hafði haft kaupstaðarréttindi í rúman áratug þegar þetta var, gat varla talist nema stórt þorp. Húsin voru lítil timburhús eða torfbæir og reisulegasta byggingin og sú eina sem var úr steini var fangelsið, sem stóð utan við aðalbyggðina fyrir austan læk.  Eini „framhaldsskóli“ landsins, Hólavallaskóli, hafði nokkrum árum áður orðið að hrökklast úr hripleku húsi uppi á Landakotshæð suður í Bessastaði. Í bænum bjuggu aðallega fátækir tómthúsmenn og verslunarmenn meðan embættismanna- og yfirstéttin raðaði sér á stórbýlin í kring: landlæknir í Nesi, stiftamtmaður á Bessastöðum, landfógeti úti í Viðey og biskupinn í Laugarnesi. 

En hver var hann þessi ágæti maður? Ef trúa skal lýsingu hans sjálfs þá fékkst hann við ýmislegt um ævina. Hann var skipstjóri, byltingarmaður, njósnari, konungur Íslands, rithöfundur, leikritaskáld, prestur, fangi, fjárhættuspilari, sjúkraliði, landkönnuður, ritstjóri, útgefandi, útlagi og lögreglumaður. 

Hvort sem þessi lýsing er nú sönn eða ekki þá var hann a.m.k. bæði drátthagur og hafði auga fyrir hinu skoplega eins og myndir hans frá Íslandsdvölinni sýna.

Jörgen Jörgensen átti sér æði fjölbreytta ævi og persónan er að mörgu leyti ráðgáta. Hann hefur verið mönnum yrkisefni í gegnum tíðina og heil kynslóð Íslendinga þekkir Jörund hundadagakonung aðallega í gegnum leikrit Jónasar Árnasonar „Þið munið hann Jörund“ . Þar var nú dregin upp heldur skopleg mynd af honum og reyndar þjóðinni allri. 

Það er við hæfi að minnast Jörundar Hundadagakonungs og byltingarinnar 1809. Ég er ekki í vafa um að þeir fyrirlestrar, sem fluttir verða hér í dag munu varpa skýrara ljósi á persónuna Jörgen Jörgensen og hvað raunverulega gerðist hér á landi Hundadagana 1809.  Að svo mæltu segi ég ráðstefnuna setta.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum