Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. desember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á ráðstefnunni Úrræði til árangurs 26. nóvember 2009

Úrræði til árangurs
Ráðstefna um menntun á vinnumarkaði í nútíð og framtíð

Góðir ráðstefnugestir

Það gleður mig að fá tækifæri til að ávarpa þessa ráðstefnu um úrræði til árangurs – menntun á vinnumarkaði í nútíð og framtíð.

Á síðustu árum hefur mikil uppbygging átt sér stað í menntun á vinnumarkaði og til dæmis hafa opinber framlög til málaflokksins aukist verulega. Til að greiða fyrir samkomulagi ASÍ og SA um framlengingu kjarasamninga hefur ríkisstjórnin ítrekað samþykkt aukin framlög. Samkvæmt fjárlögum ársins 2009 renna rúmlega 428 m.kr. til grunnreksturs símenntunarmiðstöðva, 88,5 m.kr. til grunnþjónustu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og 635,1 m.kr. til námskeiðahalds, raunfærnimats ásamt náms- og starfsráðgjöf símenntunarmiðstöðva. Ríkisstjórnin lýsti því yfir í tengslum við framlengingu kjarasamninga í febrúar árið 2008 að framlög til framhaldsfræðslu myndu aukast í þrepum á næstu árum. Þetta var staðfest við gerð stöðugleikasáttmálans í júní 2009.

Frumvarp um framhaldsfræðslu

Frumvarp um framhaldsfræðslu hefur verið í undirbúningi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu um nokkurt skeið. Frumvarpið hefur nú verið samþykkt í ríkisstjórn og í þingflokkum ríkisstjórnarinnar og verður lagt fram á Alþingi einhvern næstu daga.

Frumvarpið sem ég nú legg fram er lítillega endurskoðuð útgáfa af frumvarpi sama efnis sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi fyrir ári síðan. Við breytingar á frumvarpinu hefur m.a. verið tekið tillit til ábendinga sem fram komu við meðferð menntamálanefndar Alþingis eftir fyrstu umræðu.

Segja má að ef nýtt frumvarp um framhaldsfræðslu verður samþykkt á Alþingi hafi verið formlega skilgreint nýtt skólastig sem skarast við almenna skólakerfið. Þetta skólastig er opið öllum fullorðnum, fötluðum og ófötluðum, óháð stéttarfélagsaðild. Framhaldsfræðsla er með öðrum orðum hugsuð fyrir fullorðna sem „vilja ekki“ eða „eiga erfitt með“ að nýta sér almenna skólakerfið en vilja styrkja sig og mennta. Fullorðinsfræðsla er því hugsuð með hagsmuni einstaklings, samfélags og efnahagskerfisins í huga. Frumvarpinu er ætlað að brúa bilið á milli reynslu og menntunar einstaklinga á vinnumarkaði án framhaldsmenntunar og hins formlega framhaldsskóla- og háskólakerfis. Þetta á ekki bara við um þá sem eru þegar í stéttarfélögum heldur einnig þá sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra.

Miklar bollaleggingar hafa verið um skilgreiningar á hugtakinu en niðurstaðan var sú að hafa hana opna og einfalda. Með framhaldsfræðslu er átt við „hvers konar nám, úrræði og menntun sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla og háskóla”. Hér er verið að vísa til menntunar í víðum skilningi sem færir fólki þroska og lífsfyllingu en ekki eingöngu kunnáttu og tæki.

Lagt er til að framhaldsfræðsla verði lögfest sem viðurkenndur hluti af íslensku menntakerfi. Það er í samræmi við það sem gerist hjá nágrannaþjóðunum. .

Í frumvarpinu eru skilgreindar kröfur sem gerðar eru til fræðsluaðila, þ.e. þeirra félaga og stofnana sem öðlast geta viðurkenningu ráðherra sem slíkar. Mælt er fyrir um gerð og vottun námskráa og námslýsinga fræðsluaðila. Samhliða er lagt til að hluti þeirra fjárveitinga sem fram til þessa hefur runnið til framhaldsfræðslu og símenntunar renni í Fræðslusjóð, þar sem sitja fulltrúar launþega og launagreiðenda á almennum og opinberum vinnumarkaði, sem standa mun straum að framlögum til fræðsluaðila til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald, framlögum til að mæta kostnaði við raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf og styrkveitingar til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu.

Gildandi lög um framhaldsfræðslu eða starfsmenntun í atvinnulífinu eins og viðfangsefnið nefndist áður eru lög um starfsmenntun í atvinnulífinu nr. 19/1992. Þar er ábyrgð og umsjón með fullorðinsfræðslu óþægilega dreifð, sem getur skapað ýmsa hnökra í skipulagi og rekstri fullorðinsfræðslukerfisins. Samkvæmt 4. gr. þeirra laga heyrir starfsmenntun í atvinnulífinu undir félagsmálaráðuneytið en starfsfræðsla í fiskvinnslu fellur undir sjávarútvegsráðuneytið. Á grundvelli gildandi laga hefur starfsmenntasjóður úthlutað styrkjum allt að 60 m.kr. árlega síðustu árin til ýmissa þróunarverkefna í fullorðinsfræðslu og starfsmenntun. Verði frumvarpið að lögum mun það koma í stað laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Falla þá einnig úr gildi ákvæði þeirra laga um starfsfræðslu í fiskvinnslu á vegum sjávarútvegsráðuneytis.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2009 renna rúmlega 428 millj. kr. til grunnreksturs símenntunarmiðstöðva, 88,5 millj. kr. til grunnþjónustu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og 635,1 millj. kr. til námskeiðahalds ásamt náms- og starfsráðgjöf símenntunarmiðstöðva. Engar breytingar eru ráðgerðar á þeirri skipan að FA annist áfram margvísleg verkefni samkvæmt þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið, enda hefur samstarf stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins á þeim vettvangi verið farsælt.

Eins er mikilvægt að aðilar sem sinna framhaldsfræðslu séu í góðu samstarfi við önnur skólastig í landinu. Stefnan er að auka samlegð og samstarf á öllum stigum menntakerfisins.

Tvær mikilvægar viðbætur voru settar inn í markmiðskafla frumvarpsins. Í fyrsta lagi var sett sem fyrsta markmið að veita einstaklingum með stutta skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Með því er verið að leggja áherslu að framhaldsfræðsla verði ekki eingöngu útfærð út frá þörfum atvinnulífsins heldur samfélagsins í heild sinni. Ég tel mikilvægt að sú menntun sem í boði er geri einstaklinga hæfari lýðræðisþegna og virkari til að móta samfélag sitt á uppbyggilegan hátt og að þeir finni einnig eigin markmiðum farveg inn í kerfinu. Í öðru lagi er nú markmið í frumvarpinu sem kveður á um að veita skuli framhaldsfræðslu til einstaklinga sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku og að þá sé tekið mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfni. Mjög mikilvægt er að í framhaldsfræðslukerfinu eins og öðrum skólastigum í okkar menntakerfi finni allir eitthvað við sitt hæfi.

Þrátt fyrir þessi nýju markmið er alveg ljóst að fólk á vinnumarkaði verður langstærsti hópur þeirra sem sækja sér framhaldsfræðslu.

Til þess að tryggja aðild opinberra starfsmanna að framhaldsfræðslunni og hlúa frekar að stærsta hópnum sem sækir framhaldsfræðslu er gert ráð fyrir því að fjárframlög vegna starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum hækki í áföngum á næstu þremur árum. Verði 70 m.kr. á árinu 2010, 90 m.kr. á árinu 2011 og 110 m.kr. á árinu 2012. Er við það miðað að aðild að FA verði breytt verði frumvarpið að lögum, þannig að aðilar á hinum opinbera vinnumarkaði öðlist aðild að FA.

Aðgerðir gegn atvinnuleysi

Atvinnuleysið sem nú blasir við er eitt af brýnustu úrlausnarefnum okkar þessi misserin. Atvinnuleysi er hlutfallslega mest meðal fólks undir þrítugu og nærrri 80% atvinnulauss fólks á þessum aldri er aðeins með grunnskólapróf.

Í september 2009 ákváðum við sameiginlega, ég og Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra að setja á fót vinnuhóp til að fara yfir aðgerðir til að hvetja atvinnulausa til frekara náms og uppbyggilegrar virkni og gera tillögur um úrbætur. Hópurinn hefur nú lokið störfum og má nálgast skýrsluna á heimasíðu ráðuneytanna. Hlutverk framhaldsfræðslu skiptir hér miklu máli og væntum við góðs samstarfs um þessi málefni við ykkur.

Dagskrá ráðstefnunnar er fjölbreytt og lýsir vel þeim almennu markmiðum sem eiga að einkenna fullorðinsfræðslu. Menntun á vinnumarkaði skiptir miklu og það er aldrei eins mikilvægt og nú að finna leiðir til að auka virkni og atvinnuþátttöku. Að lokum vil ég þakka Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins fyrir gott samstarf við mennta- og menningarmálaráðuneytið um framtíðaruppbyggingu framhaldsfræðslunnar.





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum