Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

25. janúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Opnun klínísks rannsóknaseturs Landspítala og Háskóla Íslands 15.1.2010

Ágætu gestir:
Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag við formlega opnun klínísks rannsóknarseturs Landspítala og Háskóla Íslands.

Vísinda- og tækniráð samþykkti nýlega stefnu fyrir árin 2010 til og með ársins 2012 undir yfirskriftinni „Byggt á styrkum stoðum“. Þar er vísað til þess, að þó hér hafi orðið efnahagshrun sem kalli á endurskoðun og endurmat á ýmsum hlutum, hafi hér margt gott verið gert á sviði rannsókna og nýsköpunar sem hægt er að byggja á og nota til sóknar í uppbyggingu þjóðfélagsins. Í því samhengi þarf varla að minna þennan hóp sem hér er staddur á hversu vel íslenskir vísindamenn, ekki síst á sviði læknis- og heilbrigðisvísinda, standa sig í birtingum og ekki síður í fjölda tilvitnana í birtar vísindagreinar. Íslendingar eru þar í allra fremstu röð meðal OECD ríkja. Þessi árangur svona fámennrar þjóðar er einstakur og eftir honum tekið.

Hins vegar hefur komið fram gagnrýni á það að afrakstur þvílíks fjölda afbragðs vísindagreina innan heilbrigðisvísinda sé minni en ætla mætti. Þetta var t.d. tekið fyrir í skýrslunni „Heilsa og hagsæld með nýsköpun“ sem birt var á síðasta ári. Til dæmis eru umsóknir um einkaleyfi mun færri en rannsóknarframlög og frammistaða Íslendinga í fræðilegum birtingum gefur tilefni til, sé miðað við aðrar þjóðir. Það er brýnt að huga að hagnýtingu rannsóknarniðurstaða, hvernig efla má nýsköpun og stuðla að stofnun sprotafyrirtækja og hvaða leiðir eru færar til að auka verðmætasköpun í þessum geira.

Hin nýsamþykkta stefna Vísinda- og tækniráðs er lögð fram undir þremur svokölluðum leiðarljósum, sem eru gegnumgangandi um alla stefnuna. Það er áhersla á samvinnu og samnýtingu bæði háskóla og stofnana, á gæði rannsókna sem þá standist alþjóðlegar gæðakröfur og síðast en ekki síst á hinn alþjóðlega vinkil, bæði hvað varðar sókn á erlenda markaði en ekki síður í samstarf og sókn í alþjóðasjóði.

Mér sýnist að stofnun þessa rannsóknarseturs falli einmitt vel að þessum áherslum Vísinda- og tækniráðs. Það byggir á gifturíku samstarfi Landspítala og Háskóla Íslands, samstarfi sem styrkir hvorn aðila fyrir sig. Hér eru stundaðar öflugar rannsóknir í samvinnu þessara aðila, rannsóknir sem verða að vera af því kaliberi sem alþjóðlegar gæðakröfur kalla á.

Einn kafli í hinni nýju stefnu Vísinda- og tækniráðs sem mig langar að minnast á fjallar um nýliðun og hvernig hlúa megi að ungu fólki sem vill hasla sér völl hér á landi. Það er mikilvægt að skoða þetta í ljósi nýrra aðstæðna á Íslandi, þar sem hætta er á að ungt og efnilegt fólk, eða bara fólk sem varla telst vera sérlega ungt lengur, flýi land eða snúi ekki heim að loknu námi eða starfsþjálfun erlendis. Þetta á ekki síst við um fólk sem er menntað á sviði heilbrigðisvísinda, því það er staðreynd að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn eru eftirsóttir til vinnu víða um heim. Við megum ekki vakna upp við vondan draum og þurfa að horfast í augu við fólksflótta eins og t.d. átti sér stað í Færeyjum þegar þeir fóru í gegnum erfiða kreppu. Við verðum því að tryggja að fólk geti séð framtíð í því að skapa sér starfsvettvang á Íslandi.

Þó svo að stofnun rannsóknarsetursins geti gefið ágæta umgjörð til að efla rannsóknir á næstu árum má ekki gleyma að núverandi rannsóknarhúsnæði þykir mjög óhentugt. Grunnrannsóknarstofur eru dreifðar á mörgum stöðum í bænum og skerðir það möguleika á nauðsynlegri samvinnu og rýrir möguleika á samnýtingu tækja og tóla. Nú þegar hyllir undir byggingu nýs Landspítala legg ég áherslu á áframhaldandi góða samvinnu Háskóla Íslands og Landspítala. Við uppbyggingu rannsóknarstofa verði þess gætt að rannsóknarstofur Landspítala og lífvísindarannsóknarstofa Háskólans og Keldna verði byggðar með það í huga að sem mest samnýting náist og nálægð rannsóknarhópa verði sem mest. Til þess þarf góða samvinnu yfirvalda menntamála og heilbrigðismála, þar mun ekki standa á mínu ráðuneyti og ég er þess fullviss að sama á við um heilbrigðisráðuneyti.

Ég vona að stofnun þessa rannsóknarseturs komi til með að efla enn frekar rannsóknir bæði á Landspítala og í Háskóla Íslands. Það verður ekki síst áhugavert að fylgjast með því hvaða áhrif það muni hafa til hagnýtingar niðurstaðna og aukinnar verðmætasköpunar.

Ég óska Landspítalanum og Háskóla Íslands innilega til hamingju með daginn.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum