Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. febrúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp í Þjóðmenningarhúsi á 60 ára afmæli Félags leikskólakennara 5. febrúar 2010

Mennta-og menningarmálaráðherra Kartrín Jakobsdóttir
Mennta-og menningarmálaráðherra Kartrín Jakobsdóttir

Ágætu gestir
Til hamingju með daginn, - afmælið og dag leikskólans.
Við erum hér samankomin í tilefni þess að Félag leikskólakennara fyllir sjötta tuginn og gleðjast yfir útgáfu þessa glæsilega afmælisrits „Spor í sögu stéttar“ en fátt er lærdómi ríkara en að þekkja söguna og læra af henni til framtíðar.

Þann 6. febrúar árið 1950 stofnuðu tuttugu og tvær stúlkur sem útskrifast höfðu sem fóstrur frá Uppeldisskóla Sumargjafar sín fyrstu formlegu samtök til að standa vörð um málefni sín, kjaraleg sem fagleg. Óhætt er að segja að með stofnun þessara samtaka hafi verið mörkuð ákveðin spor í menntasögu þjóðarinnar. Með samtökunum varð til mikilvægur bandamaður sem reynst hefur leikskóla samtímans ómetanlegur þegar rýnt er í sögu hans. Þökk sé þessum metnaðarfullu frumkvöðlum sem lögðu lóð sín á vogarskálar farsællar þróunar leikskóla.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem hér er viðstaddur hversu miklar og hraðar breytingar íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum síðustu ár og áratugi. Þessar breytingar hafa haft gríðarleg áhrif á leikskólann.

Þróunin frá því að vera eingöngu félagslegt úrræði handa einstæðum mæðrum í það að vera formlegt skólastig í íslenska menntakerfinu er mörkuð ákveðinni baráttu þeirra sem að leikskólamálum hafa komið en jafnframt miklum metnaði og óbilandi kjarki í þágu menntunar, uppeldis og umönnunar leikskólabarna með umhyggju að leiðarljósi og velferð. Leikskólakennarar og fag- og stéttarfélag þeirra þekkja þá vegleið best og óþarfi að ég sé að rekja hana hér.

Ég vil leyfa mér að nefna mikilvæg tímamót sem urðu í sögu leikskólans sem urðu með gildistöku núgildandi laga um leikskóla og laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Ein viðamesta breytingin með lögum um menntun og ráðningu kennara felst í því að til þess að geta fengið leyfisbréf sem leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari þarf próf á meistarastigi frá viðurkenndum háskóla. Þetta hefur af mörgum verið talin ein mikilvægasta og merkasta lagabreyting síðari ára á sviði menntamála.  Með lögunum eru gerðar jafngildar kröfur til menntunar kennara á þremur fyrstu skólastigunum og endurspegla þau viðhorf að góð kennaramenntun er lykillinn að farsælli menntun og uppeldi.

Ég hef heyrt þær raddir um að lenging og breyting leikskólakennaramenntunar sé leikskólanum ekki til framdráttar, sérstaklega í ljósi þess að ekki hefur gengið nógu vel að fjölga leikskólakennaramenntuðu fólki í leikskólum. Þá hefur á það verið bent að lengingin gæti dregið úr aðsókn að leikskólakennaranámi. 

Ég trúi því hins vegar einlæglega að til lengri tíma litið verði þessi löggjöf leikskólanum til hagsbóta og allri menntun í landinu.

Í nýju menntalögunum er gert ráð fyrir að a.m.k. 2/3 hlutar stöðugilda við uppeldi og menntun leikskólabarna tilheyri leikskólakennurum. Undanfarin ár hefur hlutfall leikskólakennara af heildarfjölda starfsfólks í leikskólum, sem sinna uppeldi og menntun, að jafnaði verið um þriðjungur en nokkur sveitarfélög og leikskólar hafa náð 2/3 markmiðinu og vel það. En ljóst er að til að uppfylla lögin þarf að vinna markvisst að því að fjölga leikskólakennaramenntuðu fólki. Að því máli þurfa að koma allir þeir sem málið varðar.

Rétt er í þessu samhengi að greina frá því hér að ég hef ákveðið að skipa samráðsnefnd með helstu hagsmunaaðilum leik- og grunnskólamála. Hlutverk þessa samráðsvettvangs verður að fjalla um fagleg málefni skólastiganna en auk þess geti nefndin, sé þess talin þörf, sett upp verkefnahópa um ákveðin málefni til lengri eða skemmri tíma, t.d. fyrir hvert skólastig sérstaklega.

Lögin hafa einnig sérstaka þýðingu fyrir leikskólakennara að því leyti að nú er starfsheiti þeirra lögverndað í fyrsta sinn. Ég veit að það hefur verið baráttumál leikskólafólks til mjög langs tíma. Í því felst mikilsverð viðurkenning á störfum leikskólakennara og því þýðingarmikla hlutverki að efla alhliða þroska barna og undirbúa þau í upphafi skólagöngunnar. 

Áður en ég lýk máli mínu hér langar mig að lýsa yfir ánægju minni með gott samstarf ráðuneytisins við Félag leikskólakennara undanfarin ár og nefni ég þar sérstaklega samstarfið við að móta nýja löggjöf um leikskólann og samvinnuna um gerð reglugerðanna við lögin. Ég hef væntingar til þess að vinnan við endurskoðun aðalnámskrár leikskóla endurspegli áframhaldandi góða samvinnu. Þá langar mig einnig að fagna frumkvæði Félags leikskólakennara sem fram kom á haustmánuðum 2007 og leiddi saman félagið, ráðuneytið, Heimili og skóla og Samband íslenskra sveitarfélaga í samstarfsverkefni sem gat af sér þennan dag dagur leikskólans. Þetta hefur reynst sérlega skemmtilegt verkefni og  verið mjög gefandi að sjá hversu vel það hefur tekist að ná fram þeim markmiðum að beina sjónum að leikskólanum, hvetja til aukinnar umræðu um leikskólastarf og gera hið gróskumikla og fjölbreytta starf sem fram fer í leikskólum sýnilegra. 

Leikskólar um allt land hafa tekið virkan þátt í þessum degi og halda upp á daginn með alls kyns uppákomum, útgáfu á ýmsu efni tengdu leikskólastarfinu, fyrirlestrum og kynningu fyrir foreldra og aðra sem áhuga hafa á að kynna sér starf leikskólanna.

Ráðuneytið stendur fyrir menntaþingi föstudaginn 5. mars næstkomandi.  Tilgangur þingsins er að efna til opinnar umræðu um menntastefnu sem liggur til grundvallar námskrárgerð fyrir þessi skólastig og hvernig við getum haldið áfram að þróa öflugt menntakerfi á erfiðum tímum. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja leikskólakennara til þátttöku.

Ég vil að lokum ítreka hamingjuóskir mínar til ykkar sem hér eruð og annarra sem að leikskólamálum koma og óska ykkur velfarnaðar í áframhaldandi starfi og stuðningi við þetta mikilvæga skólastig.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum