Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. febrúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur 6. febrúar 2010

Hátíð nýsveina

Forseti Íslands, iðnaðarráðherra, veislustjóri, félagar í Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur, heiðruðu nýsveinar og aðrir góðir gestir

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag þegar verðlauna á þá nýsveina sem náð hafa framúrskarandi árangri á sveinsprófum. Það var einmitt eitt af mínum fyrstu embættisverkum að ávarpa hátíð nýsveina sem haldin var hér fyrir nánast réttu ári. Mér finnst það merkilegt framtak hjá Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík að efna til þessarar hátíðar. Það sýnir metnað og ræktarsemi við iðnmenntunina sem á sér langa og merka sögu og er svo mikilvægur þáttur í atvinnulífi okkar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur umsjón með þeirri menntun sem iðnnemar hljóta áður en að því kemur að þeir þreyta sveinspróf. Það próf sker einmitt úr um hvort nemarnir fái starfsréttindi í sinni grein eða verði að undirbúa sig betur og reyna aftur. Sveinspróf hafa um margt merkilega stöðu í menntakerfinu hér á landi. Þau hafa lengi verið einu raunverulegu samræmdu prófin sem haldin eru við lok náms í framhaldsskóla.

Í námskrám sem ráðuneytið gefur út er kveðið á um fyrirkomulag iðnnámsins og þá kunnáttu sem nemar í ólíkum greinum þurfa að tileinka sér. Tillögur að námskrám hafa komið frá svokölluðum starfsgreinaráðum sem skipuð eru fulltrúum hinna ýmsu aðila úr atvinnulífinu. Skólarnir sjá svo um að kenna það sem námskrárnar krefjast og fyrirtækin annast starfsþjálfunina. Að henni lokinni sækja nemarnir um sveinspróf hjá fræðslustofnunum sem atvinnulífið hefur komið á laggirnar í samstarfi við samtök atvinnurekenda og launþega. Ráðuneytið hefur nú í um áratug falið þessum fræðslustofnunum framkvæmd hinna ýmsu verkefna sem tengjast iðngreinunum. Þar fara fremst í flokki Iðan, fræðslusetur, og fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins. Á þessum fræðslusetrum fer fram margvísleg þjónusta við iðnnema, svo sem ráðgjöf, gerð námssamninga, eftirlit með vinnustaðanámi, skráning í sveinsprófin og síðast en ekki síst skipulagning og prófahaldið sjálft í samstarfi við sveinsprófsnefndir í einstökum iðngreinum. Ég nefni þetta sem dæmi um víðtækt og merkilegt samstarf sem á sér stað milli aðila í atvinnulífinu, framhaldsskólanna og fræðsluyfirvalda.

Atvinnuhættir á Íslandi tóku fyrst umtalsverðum breytingum þegar farið var að tengja saman atvinnustarfsemi og menntun. Um aldir hafði ungt fólk lært störfin með því að líkja eftir verkum hinna eldri. Þannig hélst atvinnulífið lítt breytt kynslóð fram af kynslóð. Menntun iðnaðarmanna var framan af mjög ólík því sem tíðkast nú og lengi vel var eingöngu kennt á kvöldin. Nemendur komu til náms að loknum löngum vinnudegi en voru tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir meiri og betri menntun í sínu fagi. Metnaðurinn var strax til staðar. Vitundin fyrir mikilægi menntunar er að mörgu leyti samofin sögu iðnaðamannafélaga á Íslandi en upphaf iðnfræðslunnar hér á landi má rekja til fræðslustarfs sem félög iðnaðarmanna efndu til á síðari hluta 19. aldar. Félögin stóðu fyrir bóklegri fræðslu fyrir iðnaðarmenn og fór hún gjarnan fram við frumstæðar aðstæður á mælikvarða okkar tíma.

Þegar við virðum fyrir okkur það viðamikla starf sem fer nú fram í iðnmenntaskólunum á Íslandi er ljóst að stórvirki hefur unnist í menntunarmálum iðnaðarmanna. Iðnmenntun er einn af hornsteinum hins almenna skólakerfis og leiðir eru nú greiðar til frekara framhaldsnáms fyrir þá sem ljúka iðnnámi. Í skólunum er að finna fullkomin verkstæði, vel menntaða kennara og aðstæður til náms sem vart nokkur gat látið sig dreyma um á upphafsárum iðnfræðslunnar á Íslandi. Afrakstur þessarar þróunar sjáum við hér í dag. Iðnmenntun hér virðist á háu stigi þegar kunnátta iðnaðarmannanna okkar er borin saman við þekkingu kollega þeirra erlendis. Þá hafa íslenskir iðnnemar náð eftirtektarverðum árangri í alþjóðlegum nemakeppnum á undanförnum árum.

Staða hinna löggiltu iðngreina hefur um margt verið að styrkjast. Þetta má meðal annars sjá í fjölgun sveinsprófstaka á undanförnum árum en í fyrra luku alls 646 iðnnemar sveinsprófum. Við vitum hins vegar að margar þessara greina eru mjög viðkvæmar fyrir sveiflum á vinnumarkaði. Þess fer fljótlega að gæta þegar hallar undan fæti að erfiðara verður að komast í starfþjálfum á vinnustöðum og aðsókn að náminu dregst saman.

Nú er nýbúið að skipa í fyrsta sinn starfgreinaráð á grundvelli laga um framhaldsskóla frá 2008. Þeirra bíður það verkefni að móta grundvöll námsbrauta í starfsmenntun í samstarfi við framhaldsskólana. Nú eiga fulltrúar framhaldsskóla og samtaka kennara í fyrsta sinn sæti í öllum starfsgreinaráðum og tel ég það framfaraskref. Það er viðvarandi verkefni ráðanna að laga starfsmenntunina að breytilegum kröfum atvinnulífsins. Þar eru aðstæður talsvert mikið breyttar frá því fyrir fáeinum misserum. Við horfum nú í fyrsta sinn í langan tíma upp á atvinnuleysi ungs fólks. Það er staða sem við getum ekki umborðið. Hvernig má bregðast við henni? Svör við þeirri spurningu eru ekki einföld. Fjölbreyttari starfmenntun er án efa eitt af því sem við verðum að horfa til jafnframt því sem við tryggjum grunn þess náms sem nú er í boði. Ég hef átt viðræður við fulltrúa Samtaka iðnaðarins sem leggja áherslu á nauðsyn þess að styrkja vinnustaðanámið, til að mynda með því að koma á laggirnar sjóði, sem styrkt geti fyrirtæki til að taka nema í starfsþjálfun. Ég er sammála áherslu samtakanna og tel að við verðum að stefna ákveðið að þessu marki þótt tímabundið sé erfitt í ári.

En aftur að hinu bjarta tilefni dagsins. Ég vil endurtaka hrós mitt til Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík fyrir þann stórhug sem félagið sýnir með þessari verðlaunahátíð. Ég tel að hún sé vel fallin til að efla áhuga ungs fólks á þeim góða lífsundirbúningi sem felst í iðnmenntuninni. Við ykkur nýsveina vil ég segja að þið megið vera stolt af þeim árangri sem þið hafið náð og þeim verðlaunum sem þið fáið nú því til staðfestingar. Þessum árangri hefðuð þið ekki náð nema með því að leggja ykkur fram við námið og sinna störfum ykkar af alúð. Verkið lofar meistarann. Haldið áfram á þessari braut, verið stolt af menntun ykkar og nýtið ykkur hana til góðra verka. Til hamingju með árangurinn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum