Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. febrúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra heldur ræðu á læsisráðstefnu Samtaka móðurmálskennara 6. febrúar 2010

Góðir ráðstefnugestir

Ég vil byrja á að lýsa ánægju með þetta þarfa framtak Samtaka móðurmálskennara að halda sérstaka ráðstefnu um læsi ætluð kennurum á öllum skólastigum og öðrum áhugasömum. Einnig er ánægjulegt á sjá hversu margir eru hér samankomnir til að hugleiða stöðu læsis og leiðir til úrbóta en læsi í víðum skilningi sem er sannarlega ein meginstoð menntunar.

Við sem störfum að skólamálum þurfum stöðugt að velta fyrir okkur hvernig best verður komið til móts við þarfir nemenda og tryggt að þeir hljóti þá menntun sem þeir eiga rétt á og þurfa á að halda til að geta haldið áfram í námi og haldið af stað út í lífið. Nemendur þurfa nú að vera í stakk búnir til að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun og aðlagast hratt breyttum aðstæðum, tíðaranda og efnahag sem dæmin sanna. Við þurfum á því að halda að horfa fram á veginn og velta fyrir okkur hvað það er sem skiptir mestu máli, hvernig við búum börnin okkar best í haginn til að þau geti staðið á eigin fótum í þessu landi.

Hvernig tryggjum að t.d. að nemendur okkar fari út úr almenna skólakerfinu sem best undirbúnir undir þátttöku í samfélaginu, til starfa í atvinnulífinu og til frekara náms? Hvaða gildi eru það sem skipta máli? Í hverju er raunveruleg menntun fólgin? Getur verið að eitthvað sem skipti máli hafi gleymst? Hvað kemur að mestu gagni? Af hverju skiptir læsi máli? Getum við leitað til foreldra? Hvað getur skólinn gert betur en hann gerir nú þegar? Hvað geta foreldrar gert til að styðja við skólann? Hvað er að vera vel læs? Hvað er að vera læs í víðum skilningi? Hvaða skoðun höfum við á því? Við erum hér til þess að fræðast hvert af öðru og til þess að miðla hvert öðru.

Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. Texti eða annað birtingarform upplýsinga er efniviður í þekkingu sem nýtist ekki einungis einstaklingnum heldur einnig samfélaginu öllu. Forsenda þess að svo verði er að hver og einn sé ekki einungis fær um að tileinka sér þekkingu, heldur einnig að miðla henni til annarra og þekki leiðir sem henta til þess. Hver einstaklingur þarf að læra að gera kröfur fyrir sjálfan sig, gera sér grein fyrir þeim þörfum sem hann hefur fyrir efni sem er honum sjálfum til gagns og gleði.

Á síðustu áratugum hefur þekking á lestrarerfiðleikum aukist mikið og ýmsar hugmyndir og kenningar komið fram þar sem leitast er við að skýra vandann og benda á leiðir til að mæta honum. Í því samhengi hefur m.a. verið bent á að árangursríkt geti verið að líta ekki eingöngu á lestrarerfiðleika sem vandamál heldur viðfangsefni sem krefst nýrra úrræða í skólum og öðruvísi nálgunar. Jafnframt hafa augu manna beinst að því hvaða afleiðingar það hefur fyrir nemandann að eiga í erfiðleikum með lestur. Takmörkuð lestrarfærni getur haft margvísleg neikvæð áhrif, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið, má ljóst vera að bregðast þarf við með markvissum hætti.

Á undanförnum misserum hefur ráðuneytið haft frumkvæði að verkefnum sem miða að því að bæta læsi. Sérstök áhersla hefur verið á lestrarerfiðleika. Sú vinna skilaði t.d. upplýsingum um lestrarkennslu í völdum skólum, lesvef, styrkjum til gerðar lestrar- og lesskimunarprófa, breytingum á samræmdum könnunarprófum, skýrslu um lestrarerfiðleika, stuðningi við Mentor til að byggja upp lestrareiningu, styrkjum til þróunarverkefna úr þróunarsjóðum á vegum ráðuneytisins og styrkjum til námsgagnagerðar. Sérstök áhersla er nú á úthlutun styrkja úr Sprotasjóði og Þróunarsjóði námsgagna vegna verkefna sem tengjast læsi í víðum skilningi.

Innlendar og alþjóðlegar úttektir, s.s. IEA, PISA, PIRLS og nýleg úttekt ráðuneytisins á lestrarkennslu hafa ítrekað leitt í ljós að ástæða er til að hafa áhyggjur af þessum þætti skólastarfs. Lesskilningur íslenskra 15 ára nemenda er ekki ástættanlegur. Samkvæmt niðurstöðum PISA 2006 virðist læsi 15 ára íslenskra unglinga fara versnandi miðað við fyrri mælingar PISA. Það verður áhugavert að skoða stöðuna aftur þegar nýjar niðurstöður úr PISA 2009 verða gerðar opinberar í lok árs.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að gera úttekt á lestrarkennslu í 10 grunnskólum skólaárið 2008-2009. Valdir voru skólar víðsvegar af landinu og var tekið mið af árangri skólanna í lesskilningshluta PISA. Þannig voru í úrtakinu skólar sem fengið höfðu góða, slæma og miðlungs niðurstöðu. Úttektinni var m.a. ætlað að skoða menntun kennara, fyrirkomulag lestrarkennslu í 1.-10. bekk, þjálfun lesskilnings, námsmat, skimanir, vægi læsis í öllum námsgreinum, stuðning við nemendur með lestrarerfiðleika og ráðgjöf til kennara í tengslum við lestrarkennslu.
Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Skipulagðri lestrarkennslu í skólum lýkur of snemma. Lítið skipulögð lestrarkennsla eftir 3. bekk kom sérstaklega illa við nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestur eða lestrarnám. Ekki var hugað nógu vel að finna verkefni við hæfi fyrir þá nemendur sem stóðu vel að vígi.
  • Matstæki skortir til að meta mismunandi tegundir lesturs og lesskilnings. Námsmat í lestri er fábreytt og byggir fyrst og fremst á hraðaprófum.
  • Núverandi skipulag kennaranáms undirbýr aðeins afmarkaðan hóp kennaranema til að kenna lestur í fyrstu bekkjum grunnskólans. Efla þarf endurmenntun  kennara í tengslum við lestrarkennslu fyrir alla aldurshópa. Þar þyrfti að skerpa skilning kennara og skólastjóra á gildi læsis í öllum námsgreinum og námssviðum. Auka þarf samstarf á milli skóla, skólastjórnenda, sérfræðinga, skólaskrifstofa og menntastofnana við að þróa aðferðir til lestrarkennslu.
  • Auka þarf meðvitund um mismunandi bakgrunn, smekk og áhugamál nemenda við lestrarkennslu.

Í kjölfar framangreindrar úttektar var skipaður starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins með ýmsum sérfræðingum og starfsmönnum ráðuneytisins. Hópurinn hefur það hlutverk að fylgja úttektinni eftir og einnig að skilgreina lestur í víðum skilningi og læsi sem eina af grunnstoðum í menntakerfinu. Miklar væntingar eru bundnar við störf hópsins sem ekki hefur lokið störfum. Hópurinn hefur þegar unnið að skilgreiningu á læsi sem hljómar svo. „Í læsi felst að búa yfir þekkingu og leikni til að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla texta í víðum skilningi til að mæta kröfum samfélagsins og einstaklingsins. Með texta er átt við ritmál, myndmál, talmál og önnur kerfi tákna.“ Svipuð skilgreining var t.d. notuð í haust þegar ráðuneytið auglýsti eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði og Þróunarsjóði námsgagna sem vonandi mun skila mörgum áhugaverðum verkefnum sem nýtast leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í umsóknum kom greinilega fram að víða er verið að vinna áhugaverða þróunarvinnu á þessu sviði í skólum.

Með auknum áherslum á skapandi starf í skólum þurfum við sérstaklega að líta til þess hvernig efla megi kennslu í tjáningu (leiklist, kvikmyndagerð, þjálfun í lýðræðislegri virkni og svo framvegis) og svo ritun. Hinn skapandi þáttur móðurmálsins er lykillinn að gagnrýnni virkni í lýðræðissamfélagi.

Meðan læsishugtakið var einkum skilgreint sem skilningur á ritmálstáknum var það fyrst og fremst notað af lestrarfræðingum og kennurum ungra barna. Með breyttum og víðari skilningi á hugtakinu er nauðsynlegt að nálgast það á breiðari forsendum og á þverfaglegan hátt. Samt sem áður mun sjálft lestrarnámið alltaf skipa veigamikinn sess og vera grundvallarforsenda í öllu skólanámi. Því er nauðsynlegt að kennarar á öllum skólastigum hafi þekkingu á þessum mikilvæga þætti sem hefst með máltöku ungra barna og lýkur ekki fyrr en einstaklingurinn er virkur og gagnrýninn lesandi. Í seinni tíð hefur framsetning texta breyst með nýjum birtingarmáta á tölvum, í farsímum og með öðrum rafrænum hætti. Myndir af margvíslegu tagi, hreyfing og hljóð samtvinnast við hið talaða og ritaða orð. Þetta þýðir að textahugtakið hefur verið að breytast og það hefur kallað á víðari skilgreiningu á læsishugtakinu.

Góðir áheyrendur

Í lokin langar mig að greina í stuttu frá vinnu á vegum ráðuneytisins við skilgreiningu á fimm grunnstoðum menntakerfisins sem liggja eiga til grundvallar við endurskoðun aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem nú stendur yfir á vegum ráðuneytisins með aðstoð sérfræðinga.

Fimm grunnstoðir menntunar hafa verið lagðar til grundvallar fyrir öll skólastigin út frá áherslum í markmiðsgreinum laga. Þær eru læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Markmiðsgreinar lagaanna eru nánar útfærðar og skilgreindar í þessum fimm meginstoðum sem þurfa að speglast í öllu skólastarfi.

Þótt grunnþættirnir fimm – lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, læsi, menntun til sjálfbærni og skapandi starf – séu settir fram sem einstakir þættir er gert ráð fyrir að þeir tengist innbyrðis í menntun og skólastarfi. Í reynd eru þeir allir nátengdir og innbyrðir háðir. Lýðræði og jafnrétti eru nátengd hugtök sem hluti af mannréttindum. Menntun til sjálfbærni  tekur til allra þáttanna fimm. Sjálfbærni snýst ekki einungis um umhverfið heldur einnig um ábyrgð, virðingu og lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti gagnvart komandi kynslóðum. Skapandi skólastarf er ekki einungis bundið við kennslu í listgreinum heldur á það við sem skapandi þáttur almennt í allri menntun. Læsi í víðum skilningi höfðar til þess að hver einstaklingur hafi hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt á gagnrýnin hátt. Í því samhengi má t.d. nefna fjölmiðlalæsi, fjármálalæsi, stjórnmálalæsi og hæfni til að vera læs á umhverfið, náttúruna og samfélagið.

Læsi er lykillinn að því að nemendur geti þroskað þekkingu sína og hæfileika til að vera gagnrýnir og virkir þegnar í lýðræðisþjóðfélagi.  Markviss þjálfun í meðferð okkar sameiginlega táknmiðils, íslenskunnar, er lykilforsenda til að öðlast slíka hæfni.

Ég vil að lokum ítreka þakklæti mitt til Samtaka móðurmálskennara fyrir að standa að þessari metnaðarfullu og tímabæru ráðstefnu um læsi og ég vænti þess að ráðstefnunni verði fylgt eftir með markvissum og viðeigandi hætti. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun styðja við bakið á Samtökum móðurmálskennara í þeim efnum eins og framast er unnt til góðra verka og að lokum óska ég samtökunum alls hins besta í mikilvægum störfum sínum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum