Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. febrúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp ráðherra á fyrsta fundi nýrra starfsgreinaráða 15. febrúar 2010

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur á fyrsta fundi nýrra starfsgreinaráða sem fram fór á Grand hótel Reykjavík 15. febrúar 2010.

Ágætu starfsgreinaráðsfulltrúar!
Ég býð ykkur öll velkomin til þessa fundar aðalmanna nýskipaðra starfsgreinaráða. Þau ráð sem nú hefja göngu sína eru þau fyrstu sem skipuð eru á grundvelli laga um framhaldsskóla frá 2008. Reglugerð um ráðin var sett í fyrra og samkvæmt henni eru ráðin alls 12, skipuð 88 aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Tilgangur þessa fundar er að hefja starfið með formlegum hætti og fara yfir nokkur hagnýt atriði er varða starfsemi ráðanna.

Hlutverk starfsgreinaráða taka ekki stórvægilegum breytingum með nýjum lögum þótt ýmsar áherslur séu breyttar. Mestu varðar að námskrár verða ekki með sama hætti miðlægar og var samkvæmt lögum um framhaldsskóla frá 1996. Framhaldsskólar eiga að semja sínar námskrár sem taka þó fyrst gildi er ráðuneytið hefur staðfest þær. Með því verða þær hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla. Starfsgreinaráðin gegna áfram lykilhlutverki við að skilgreina þarfir, kunnáttu og hæfni sem námsbrautarlýsingar fyrir viðkomandi starfsgreinar eiga að byggjast á. Ráðin eiga einnig að gera tillögur um lokamarkmið starfsnáms og tillögur að námsbrautalýsingum sem framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar. Þá er starfsgreinaráðum ætlað að gera tilögur um uppbyggingu og inntak lokaprófa í starfsnámi á sínu sviði. Ráðin skulu einnig halda skrá yfir fyrirtæki og vinnustaði sem uppfylla skilyrði til vinnustaðanáms. Af þessari upptalningu, sem þó er ekki tæmandi, má sjá að starfsgreinaráð hafa veigamiklu hlutverki að gegna við mótun og framkvæmd starfsmenntunar. Mikilvægi samstarfs atvinnulífs og skóla er að mörgu leyti undirstrikað með afgerandi hætti í umgjörð starfsmenntunarinnar í lögunum. Nú eiga fulltrúar framhaldsskóla og samtaka kennara í fyrsta sinn sæti í öllum starfsgreinaráðum og tel ég það framfaraskref.

Það nýmæli er í lögunum frá 2008 að formenn hinna nýju starfsgreinaráða munu mynda svokallaða starfsgreinanefnd undir formennsku fulltrúa ráðherra. Starfsgreinanefndin á að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í starfsnámi og framkvæmd þess. Hún á einnig að vera vettvangur samráðs og samræmingar milli starfsgreinaráða. Þar á að verða til vettvangur sem getur látið sig varða þróun starfsmenntunarinnar í heild, óháð starfsgrein og skipulagi menntunar á hinum ýmsu sviðum. Ég bind vonir við að starfsgreinanefndin eigi eftir að veita okkur mikilvæga ráðgjöf um heildarskipulag starfsmenntunar á landinu og styrkja þannig sameiginlegar undirstöður hennar.

Við tilnefningar í starfsgreinaráð var sérstaklega brýnt fyrir tilnefningaraðilum að fylgja ákvæðum laga um jafna stöðu karla og kvenna. Samkvæmt þeim skal þess gætt að við skipun í ráð og nefndir á vegum ríkisins sé hlutfall kynjanna sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þessu til áréttingar var haldinn fundur í ráðuneytinu með fulltrúum stærstu tilnefningaraðila þar sem ákvæði laganna voru skýrð og ræddar leiðir til að uppfylla ákvæði þeirra. Með því var mikilvægi og áhersla ráðuneytisins á málið undirstrikuð. Það urðu mér því mikil vonbrigði að þegar til kastanna kom reyndust tilnefningar í nokkur ráðanna langt frá því að uppfylla kröfur laganna. Meira að segja eru tvö þeirra eingöngu skipuð körlum, eitt eingöngu konum og enn einhver með mjög skekkt hlutfall kynjanna. Fram kom í rökstuðningi með tilnefningum þar sem ekki tókst að gæta lögbundinna hlutfalla kynja að við ramman reip væri að draga vegna langvarandi kynbundins starfsvals. Einnig var tilgreint að kröfur reglugerðarinnar um faglegar kröfur til fulltrúa í starfsgreinaráðum þrengi valkosti til tilnefninga. Ég get að vissu leyti fallist á kjarna þessara raka en tel mig þó geta fullyrt að meiri jöfnuði hefði mátt ná með viðráðanlegum hætti. Ég vil þó fagna yfirlýsingu ASÍ um stuðning við sameiginlegt átak til að efla áhuga ungs fólks á starfsmenntun og vinna gegn kynbundnu námsvali. Ég mun leita til tilnefningaraðila um leiðir til að jafna hlutföll kynjanna í þeim ráðanna þar sem misvægi er mest. Ég bið ykkur, ágætu fulltrúar, að huga að stöðu þessara mála í ykkar greinum og vonast ég til að við getum tekið þennan þráð upp síðar.

Við blasir að fjárveitingar til framhaldsskóla verða skornar niður nokkur næstu ár. Það mun óhjákvæmilega setja svip sinn á starfsemi þeirra. Mikilvægt er mæta breyttum aðstæðum með því að blása til sóknar undir nýjum formerkjum. Til þess kunnum við að þurfa að endurmeta aðstæður og ákveða nýja forgangsröðun. Þróttmikil starfsmenntun er mikilvæg forsenda þess að þjóðin komist út úr efnahagslegri lægð. Atvinnulíf sem lagar sig greiðlega að breyttum aðstæðum og nýtir ný tækifæri til verðmætasköpunar þarf á starfsmenntun að halda sem getur brugðist við nýjum þörfum fyrir þekkingu, leikni og hæfni.

Hér á eftir ætla starfsmenn ráðuneytisins að fara yfir helstu upplýsingar er varða upphaf starfa í nýjum starfsgreinaráðum. Ég bind miklar vonir við störf ykkar og vænti góðs af samstarfi við ykkur um mótun starfsmenntunar til nýrra tíma.

Arnór Guðmundsson, skrifstofustjóra skrifstofu menntamála, mun nú taka við stjórn fundarins.

Eigið góðan fund og gangi ykkur allt í haginn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum