Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

24. febrúar 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur erindi við afhendingu Eyrarrósarinnar

Eyrarrósin
Eyrarrosin

Bessastöðum 15. febrúar 2010

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, frú Dorrit Moussaieff, góðir gestir.

Það vill brenna við að menntamál, menningarmál og fleiri greinar samfélagsins séu ekki taldar með þegar rætt er um atvinnumál, en þó er talið að um fjórðungur starfa í landinu falli innan þess, sem kallað er skapandi greinar. Mér er ljóst að það getur verið tvíbent að ræða um menningarmál á þessum nótum því menningarstarf hefur einnig eigið gildi, sem er ekki síður mikilvægt samfélaginu. Hvað sem því líður eigum við að geta talað um listir og menningarmál sem hluta af atvinnuvegum okkar, án þess að rýra nokkuð gildi þeirra. Umræða, sem tekur tillit til þessa tvöfalda hlutverks menningarmálanna, getur auðveldað okkur að takast á við þær aðstæður sem við búum við um þessar mundir. Aðstæður sem kalla á skapandi hugsun, kjark og frumkvæði. Aðstæður sem krefjast þess að tekið sé hraustlega til hendinni og öll tækifæri séu nýtt til að fjölga störfum og auka fjölbreytni í atvinnumálum okkar.

Listamenn hafa ekki einkaleyfi á sköpunarkraftinum en þeir kunna að nota hann og þá kunnáttu verðum við að nýta á öllum sviðum samfélagsins. Um þessar mundir eru haldnir þjóðfundir á vegum Sóknaráætlunar um allt land og markmið þeirra er m.a. að virkja sköpunarkraftinn og draga fram hugmyndir sem geta orðið til þess að efla viðkomandi landshluta. Í þessu efni má enginn liggja á liði sínu og mér kæmi ekki á óvart að niðurstöður þessara funda verði að flest tækifæri til verðmætasköpunar, nýrra starfa og fjölbreyttara mannlífs séu á menningarsviðinu, með einum eða öðrum hætti.

Góðir gestir. Eyrarrósin eru verðlaun fyrir afburða menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Þau eru ótalmörg og ekki alltaf í sviðsljósi fjölmiðla en eru mikilvæg samfélaginu, hvert með sínum hætti. Við uppbyggingu á menningarstarfsemi ættu menn alltaf að hafa í huga að það sem er gert af alúð, þolir fræðilega skoðun og við getum kynnt börnum okkar og komandi kynslóðum sem hluta af okkar menningu – það höfðar einnig til ferðamanna og getur orðið hluti af þjónustu við þá. Gæðin felast ekki síst í trúnaði við sögu okkar og menningu.

Ég hygg að þau verkefni, sem hér verða kynnt standist þessa skoðun og óska aðstandendum Eyrarrósarinnar og þeirra verkefna sem valin hafa verið úr hópi umsækjenda, innilega til hamingju.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum