Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

08. mars 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á Málþingi um íþróttir í framhaldsskólum í Háskólanum í Reykjavík 3. mars 2010

Ágætu málþingsgestir
Sumum krökkum fannst leikfimi skemmtilegasta fagið í skólanum á meðan aðrir þoldu ekki þessa tíma, iðulega vegna þess að færni þeirra var ekki sú sem gerðar voru kröfur um. Með öðrum orðum; nemendum var ekki mætt í samræmi við getu í upphafi og oftar en ekki gerðist það að ákveðinn hópur nemenda varð afhuga greininni. Oft var það líka þannig að séníunum leiddust íþróttir og fannst þær draga sig niður í meðaleinkunn en þeir sem æfðu aftur á móti íþróttir dagsdaglega nutu sín til fulls.  Það má lengi deila um áherslur í íþróttakennslu í skólum og um útfærslu þeirrar kennslu en eitt er víst að íþróttir og sú hreyfing sem þeim fylgir er nauðsynleg vilji einstaklingurinn öðlast „heilbrigða sál í hraustum líkama“, sem hlýtur að teljast eftirsóknarvert markmið.  Umræða um lýðheilsu hefur verið talsverð undanfarin ár og fléttast þar saman hugmyndir um aukna hreyfingu og heilbrigðari lífsstíl einstaklinga.

Markmið íþróttakennslu á framhaldsskólastigi er augljóst.  Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að fá nemendur til að hreyfa sig og uppfræða þá um gildi heilbrigðs lífernis og mikilvægi reglulegrar hreyfingar í því samhengi.  Regluleg hreyfing hefur áhrif á líkamlega heilsu og andlega og félagslega líðan.  Í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 1999 segir réttilega að íþróttakennslan byggist á því að styrkja sjálfsmynd nemanda og auka vellíðan hans.  Markmið íþrótta falla því vel að almennum markmiðum skólastarfs.  Í hlutverka- og markmiðsgreinum laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2008, er lögð áhersla á að skólastigin stuðli að alhliða þroska og velferð einstaklingsins.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sett fram fimm grunnþætti sem einkenna eiga allt skólastarf. Þeir byggja á markmiðsgreinum laga um leik-, grunn-, og framhaldsskóla og eru læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Enn fremur eru settir fram lykilhæfniþættir sem byggja á grunnþáttum menntunar og hlutverkagreinum laga.
Ráðuneytið hefur unnið að nánari skilgreiningu á því hlutverki framhaldsskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Í tengslum við það hefur verið skilgreind sú grunnhæfni sem hver og einn þarf að búa yfir til að viðkomandi geti lifað og unnið í sátt við sjálfan sig, hafi möguleika á að þróast í og með umhverfi sínu, og eigi möguleika á að bæta lífsskilyrði sín með því m.a. að geta tekið meðvitaðar ákvarðanir og haldið áfram námi. Þar sem góð heilsa er mikilvæg fyrir einstaklinginn, fjölskyldu hans og félagslegt umhverfi telst eigin ábyrgð og skilningur á því að heilbrigður lífstíll stuðli að almennri vellíðan, til þeirrar grunnhæfni sem hver og einn þarf að búa yfir.
Með það í huga setur ráðuneytið fram þær kröfur til skólakerfisins að það vinni að því að nemendur við 18 ára aldur búi yfir þeirri hæfni að taka ábyrga afstöðu til eigin velferðar, líkamlegrar og andlegrar. Hver og einn þarf að taka ábyrgð á eigin heilsu og líðan og tileinka sér lífsvenjur sem eru uppbyggilegar fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði.

Fyrir rúmum tveimur árum undirrituðu mennta- og menningarmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Lýðheilsustöð og félög framhaldsskólanema,  SÍF og HÍF, tímamótasamning um verkefnið Heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum (HOFF).  Markmið samningsins eru eftirfarandi:

  • Að stuðla að bættri og almennri líðan og heilsu framhaldsskólanemenda.
  • Að efla forvarnir gegn vímuefnum í framhaldsskólum.
  • Að bæta og efla ráðgjöf við nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra.
  • Að hvetja nemendur til að taka ábyrgð á eigin heilsu og stuðla að heilbrigðum lífsháttum.

Þessu þriggja ára verkefni lýkur í haust en á þessum tíma hefur heilmargt áunnist.
Sett var á laggirnar tóbaksvarnarverkefni í framhaldsskólum þar sem megintilgangurinn er að nemendur skrifi undir samning þar sem þeir samþykkja að hætta að reykja og því er síðan fylgt eftir af forvarnarfulltrúa viðkomandi skóla. 
Næringarverkefni hefur verið í undirbúningi og næsta vetur verða sendar næringarmöppur í mötuneyti framhaldsskólanna, sem næringarfræðingar Lýðheilsustöðvar hafa unnið að í samræmi við almenn manneldismarkmið.  Þessu verður síðan fylgt eftir með fræðslu í skólunum.

FreD goes net er evrópskt vímu- og áfengisvarnarverkefni sem styrkt hefur verið af HOFF og felst m.a. í því að bjóða framhaldsskólanemendum sem eiga í áfengis- og vímuefnavanda upp á fagleg viðtöl í forvarnarskyni.  Rúmlega 100 framhaldsskólanemendur var boðið upp á þetta úrræði á síðasta ári.
Geðræktarverkefni var sett af stað í tilraunaskyni við Fjölbrautarskólann í Breiðholti eftir áramótin, en fulltrúar nemenda í HOFF samstarfinu höfðu kallað eftir því að lögð yrði áhersla á bætta geðheilsu unglinga sem hluta forvarna enda vitað að slæm geðheilsu hefur áhrif á marga þætti í lífi nemenda og leiðir oft á tíðum til meiri áfengis- og vímuefnaneyslu, minni hreyfingar, lélegri námsárangurs, brottfalli úr skóla og svo mætti lengi telja.
Ekki er hægt að ljúka þessari upptalningu án þess að nefna Íþróttavakningu framhaldsskólanna, sem hóf göngu sína haustið 2008 og var fyrsta formlega verkefni HOFF hópsins.  Jóhanna María Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri átaksins fyrir hönd ráðuneytisins mun kynna það betur hér á eftir, en í stuttu máli er meginmarkmið átaksins að auka hreyfingu þeirra nemenda sem stunda ekki reglulega hreyfingu.  Það er skemmst frá því að segja að Íþróttavakningunni hefur verið mjög vel tekið á meðal íþróttakennara, nemenda, skólameistara og annarra í framhaldsskólum.  Í fyrra tóku rúmlega 8000 framhaldsskólanemendur í rúmlega tuttugu skólum víðs vegar um landið þátt í átakinu.  Titilinn Íþróttaskóli ársins 2009 hlaut Menntaskólinn á Laugarvatni, sem hlaut flest stig þegar samanlagður árangur allra skólanna í átakinu var lagður saman.  Íþróttavakningin er komin til að vera og hófst í ár í lok janúar og lýkur með lokahátíð, þann 19. mars næstkomandi og án efa eiga margir skólar eftir að berjast um titilinn Íþróttaskóli ársins.

Að þessu framansögðu vil ég ítreka að mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem er einnig ráðuneyti íþrótta, leggur mikla áherslu á að auka vægi íþrótta í skólastarfi og væntir góðrar samvinnu við ykkur íþróttakennara í þeim efnum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum