Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

23. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp við opnun Fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra 23. apríl 2010

Ágætu gestir

Það er mér sönn ánægja að vera hér viðstödd opnun Fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Vísinda- og tækniráð samþykkti nýlega stefnu fyrir árin 2010 og til og með ársins 2012 undir yfirskriftinni „Byggt á sterkum stoðum.“ Þar er vísað til þess að þó hér hafi orðið efnahagshrun sem kalli á endurskoðun og endurmat á ýmsum hlutum, þá hafi hér margt gott verið gert á sviði rannsókna og nýsköpunar sem hægt er að byggja á og nota til sóknar í uppbyggingu þjóðfélagsins. Meginstef stefnunnar er sett fram í þremur leiðarljósum. Þar segir meðal annars að „Við núverandi aðstæður þarf að nýta sem best þá krafta sem fyrir eru og þá aðstöðu sem byggð hefur verið upp víðs vegar í landinu.“

Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum komið á fót fræða- og rannsóknarsetrum víðs vegar um landið. Opnun fræðasetursins hér á Skagaströnd markar tvenn tímamót í þessu starfi háskólans við að byggja upp þekkingarsetur á landinu; nú er hringnum lokað og fræðasetur starfa nú í öllum landshlutum. En það sem merkara má telja er að þetta fræðasetur sem nú er opnað er hið fyrsta sem er á sviði hugvísinda með áherslu á sagnfræði. Þessi tímamót verða ekki síst merkari ef haft er í huga að hér erum við í fyrsta sinn að upplifa að komið sé á fót sjálfstæðri rannsóknastofnun utan Háskóla Íslands sem vinnur að rannsóknum á fortíðinni.

Þýski heimspekingurinn Georg Friedrich Hegel hélt því einhverju sinni fram að það eina sem við gætum lært af sögunni er að við lærum aldrei af sögunni. Í þessum tvíræðu orðum Hegels felst boðskapur sem vert er að hafa í huga á þeim tímamótum sem íslenska þjóðin stendur á. Getum við lært af sögunni? Og verðum við ekki að læra af henni – hvað sem Hegel segir? Til að geta valið okkur verðuga framtíð verðum við að líta til fortíðarinnar. Það verður aðeins gert með gleraugum vísindalegrar sagnfræði. Það liggur því í eðli málsins að til þess að beina íslensku þjóðfélagi inn á réttar brautir verður að hlúa að sagnfræðirannsóknum; að hlúa að rannsóknasamfélagi sem gefur okkur tækifæri til að greina á fræðilegan máta hvað fór úrskeiðis, ekki aðeins út frá hagræðum sjónarmiðum, heldur með tilliti til menningar, menntunar og félagslegra þátta íslensks samfélags í heild sinni og sem hluti af þeim hnattræna heimi sem við lifum í.

Á morgun verður haldið hér málþing um pólitísk samskipti Íslands við erlend ríki í sögulegu ljósi. Það er því ekki úr vegi að rifja upp orð Carls Emil Bardenfleth, fyrsta dómsmálaráðherra Danaveldis sem mótaði mjög stjórnmálasögu Íslands á 19. öld, í ríkisráðinu árið 1851. „Íslendingar eiga að hljóta fullt sjálfstæði, um leið og þjóðin er nógu menntuð til að standa á eigin fótum. Ef við veitum þeim sjálfstæði nú mun fámenn fyrirstétt landsins leggja undir sig auð þjóðarinnar, nýta hann í eigin þágu og koma henni á vonarvöl.“ Sýna orð Bardenfleths svo ekki verður um villst að Hegel hafði rétt fyrir sér? Þau sýna í það minnsta hversu nauðsynlegt það er hverri þjóð að sinna sagnfræðirannsóknum af alvöru og festu. Ég er sannfærð um að fræðasetrið hér á Skagaströnd mun verða þungt lóð á vogarskálum sagnfræðirannsókna hér á landi um leið og ég óska þeim sem að því standa hjartanlega til hamingju með þennan merka áfanga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum