Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

23. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Samstarfsnefndarfundur með skólameisturum á Hótel Sögu 7. apríl 2010

Ágætu skólameistarar

Ég býð ykkur öll velkomin til þessa fundar samstarfsnefndar ráðuneytisins og skólameistara. Mér er til efs að nokkurn tíma áður hafi verið jafn mikið undir í málefnum framhaldsskóla og nú er í langri sögu þessara funda. Skólar endurspegla það samfélag sem þeir eru hluti af og því fer ekki hjá því að það umrót sem nú er í efnahagsmálum og þjóðmálum almennt hafi áhrif á starfsumhverfi og aðstæður í framhaldsskólum. En framhaldsskólar eru líka gerendur og hafa tekið þátt í að móta viðbrögð og nýjar leiðir fyrir íslenskt samfélag til að takast á við ögrandi viðfangsefni. Þrátt fyrir umrót og efnahagsörðugleika hafa íslensk ungmenni sótt sér menntun í framhaldsskólum og skólarnir veitt þeim traustan grunn til að sækja fram í frekara námi og vinnu.

Framhaldsskólar hafa sýnt lofsvert frumkvæði og ábyrgð í að takast á við nýjar skyldur og verkefni á sama tíma og dregið er úr fjárveitingum. Kann ég ykkur skólameisturum bestu þakkir fyrir ykkar framlag til að viðhalda og efla starfsemi framhaldsskóla við þessar krefjandi aðstæður. Það krefst aga og útsjónarsemi að innrita fjölda nemenda, gera þeim kleift að stunda nám og þróa ný námsúrræði á sama tíma og dregið er úr fjárveitingum. Þar hafið þið og annað starfsfólk skólanna sýnt mikinn styrk. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að ráðuneytið og framhaldsskólar hafi virkt samráð til að ráða fram úr þeim flóknu viðfangsefnum sem framundan eru og þar gegna fundir sem þessir mikilvægu hlutverki.

Eins og dagskrá fundarins ber með sér er margt sem þarf að ræða og upplýsa um. Áður en ég kem inn á helstu áhersluatriði vil ég venju samkvæmt fara yfir helstu breytingar sem orðið hafa í hópi skólameistara og á skrifstofu menntamála í ráðuneytinu.

Nýr framhaldsskóli, Menntaskólinn á Tröllaskaga, mun hefja göngu sína næsta haust og hefur Lára Stefánsdóttir verið ráðinn skólameistari hans. Einnig hefur Jón Eggert Bragason, aðstoðarskólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ,  verið ráðinn skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði næsta ár í leyfi Skúlínu Kjartansdóttur. Ég býð þessi tvö velkomin til starfa og óska þeim velfarnaðar.  Þorsteinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, hefur sagt starfi sínu lausu og mun nýr skólameistari við skólann verða skipaður á næstu dögum.  Þorsteinn hefur starfað lengi sem skólameistari með farsælum hætti og einnig verið framarlega í samtökum skólameistara og kann ég honum bestu þakkir fyrir vel unnin störf og óska honum velfarnaðar . Þá hefur Ólafur Sigurðsson, skólameistari Borgarholtsskóla, sagt starfi sínu lausu sem skólameistari. Ólafur hefur eins og þið vitið starfað undanfarið ár í ráðuneytinu, aðallega við gerð skólasamninga,  og vænti ég þess að ráðuneytið muni njóta krafta hans næstu ár. Staða skólameistara við Borgarholtsskóla mun verða auglýst til umsóknar á næstunni.  Ég þakka Ólafi farsæl störf sem skólameistari.

Sölvi Sveinsson hefur undanfarið ár starfað á skrifstofu menntamála að ýmsum verkefnum.  Hann mun láta af störfum í lok júní og taka við skólastjórastöðu við Landakotsskóla. Ég þakka Sölva fyrir samveruna í ráðuneytinu og óska honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
Vík ég þá að því helsta sem nú er uppi í málefnum framhaldsskóla.

Innleiðing nýrra laga

Þegar ný lög um framhaldsskóla voru sett vorið 2008 voru miklar væntingar um uppbyggingu á þessu skólastigi sem áætlað var að myndi leiða til kostnaðarauka. Stór hluti þess kostnaðarauka var vegna nýrrar fræðsluskyldu og fjölbreyttara námsframboðs en einnig var gert ráð fyrir kostnaði vegna þróunarvinnu og innleiðingar nýrrar námskrár. Ekki þarf að fjölyrða um það sem gerst hefur frá vorinu 2008 en afleiðingarnar birtast í því að á næsta árum er fyrirhugaður niðurskurður í framlögum til framhaldsskóla sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á framkvæmd nýrra laga.

Ég hef nú lagt fram nýtt frumvarp til breytinga á lögum um framhaldsskóla. Í frumvarpinu er brugðist við atriðum í gildandi lögum sem hafa í för með í sér kostnaðarauka fyrir framhaldsskóla. Þannig er gert ráð fyrir að ákvæði um fjölgun vinnudaga nemenda úr 175 í 180 verði fellt úr gildi og einnig er hægt á upptöku nýrra námsbrauta með því að fresta fullri gildistöku nýrrar námsskrár til ársins 2015. Einnig er létt af skólum skyldu um að bera ábyrgð á vinnustaðanámi.

Með þessum breytingum er ekki verið að draga úr innleiðingu nýrra laga heldur er ætlunin að gefa skólum rýmri tíma til að vinna að henni. Ráðuneytið stefnir áfram að því að gefa út almennan kafla nýrrar aðalnámskrár næsta vetur og mun vinna með skólum að þróunarverkefnum eftir því sem svigrúm gefst.

Nú er verið að setja kraft í gerð almenns hluta aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ritnefndir skólastiganna eru að hefja störf og hafa bæst í þær fulltrúar frá hagsmunaaðilum.  Sigurjón Mýrdal sér eins og áður um samhæfingu þeirra. Fyrir liggja drög um aðalnámskrá framhaldsskóla frá vorinu 2008 og mun verkefni ritnefndar fyrir aðalnámskrá framhaldsskóla vera að fara yfir þau drög, uppfæra og lagfæra út frá nýjum áherslum. Stefnt er að því að birta drögin til umsagnar í sumar eða haust.

Formaður ritnefndarinnar er Guðrún Geirsdóttir frá Háskóla Íslands, fulltrúar Kennarasambands Íslands eru Anna María Gunnarsdóttir og Ingibergur Elíasson og fulltrúi skólameistara er Magnús Þorkelsson. Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru Björg Pétursdóttir, Kristrún Ísaksdóttir og Sölvi Sveinsson.
Framundan er tími umsagnar og endurskoðunar og er stefnt að útgáfu næsta vetur.
Núna í maí stefnir ráðuneytið að því, í samvinnu við skólameistara, að skapa vettvang þar sem starfsfólk framhaldsskólanna hittist og ber saman bækur sínar varðandi ólíkar leiðir sem hafa verið þróaðar í skólum til að innleiða nýja námskrá. Þar mun gefast tækifæri til að skiptast á skoðunum og læra hvert af öðru.

Innritun

Í næstu viku hefst forinnritun í alla  framhaldsskóla í fyrsta sinn. Þá gefst nemendum í 10. bekk kostur á að velja sér námsbraut og skóla fyrir komandi skólaár. Upplýsingar sem þá fást verða notaðar til að glöggva sig á hvernig umsóknir dreifast á námsbrautir og skóla og til hvaða aðgerða þarf að grípa til þess að umsækjendur fái þá úrlausn sem best hentar. Þórir Ólafsson mun gera nánari grein fyrir innrituninni hér á eftir.

Ákvæði framhaldsskólalaga frá 2008 um rétt ólögráða nemenda til skólavistar gerir auknar kröfur til skólanna. Skýrsla starfshóps um breytt fyrirkomulag innritunar til að mæta þessum kröfum var kynnt hér á fundi samstarfsnefndar í október síðastliðnum. Þar eru m.a. tillögur um forinnritunina og forgang umsækjenda úr 10. bekk að tilteknum framhaldsskólum. Mér er ljóst að í hópi ykkar skólameistara eru nokkuð skiptar skoðanir um svæðistengdan forgang. Ég tel þó eðlilegt að láta á hann reyna nú eins og hann er útfærður.

Krafan um að allir skuli fá nám við hæfi tengist innrituninni beint og kallar einnig á nýjar leiðir. Hvernig verður best komið til móts við mjög breiðan hóp umsækjenda? Það er áberandi hve framboð bóknáms er fyrirferðmikið í námstilboðum framhaldsskólanna, sérstaklega þó hér í Reykjavík þar sem um  80% nýnemaplássa framhaldsskólanna eru á bóknámsbrautum. Við höfum sett okkur það markmið að fjölbreyttara námsframboð líti dagsins ljós fyrir haustið 2011. Mikilvægt er allir skólar taki þátt í þeirri viðleitni og vonast ég til að þess sjáist merki í þeim skólasamningum sem nú eru í burðarliðnum.  Mun Ólafur Sigurðsson fara yfir stöðu skólasamninga hér á eftir.

Það er ljóst að þröngt er í skólunum og því hæpið að við leysum allan vandann við innritun nemenda á einu bretti. Ég legg hins vegar á það áherslu að við leggjumst öll á eitt við að leysa málin með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Ég veit að í ykkar hópi eru mismunandi sjónarmið í þessum efnum en vil þakka fyrir gott samstarf og veit að svo verður áfram.

Innritun á starfsbrautir fyrir fatlaða hefur einnig verið breytt og fór hún nú fram fyrr en áður. Það er gert til að skapa aukið svigrúm fyrir skólana til að vinna úr umsóknum til hagsbóta fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra. Fyrir liggur að fjölga þarf plássum fyrir fatlaða nemendur á komandi skólaári. Þá er unnið að því að kortleggja betur þörfina fyrir pláss á starfsbrautum á komandi árum. 

Velferðarmál

Menntakerfið gegnir mikilvægu hlutverki í endurreisn samfélagsins þar sem við byggjum traustan grunn til framtíðar. Ég leyfi mér að fullyrða að fyrir þjóð sem þarf að byggja sig upp er fátt jafn mikilvægt og öflugt menntakerfi. Árangur í uppbyggingu samfélagsins byggist ekki síst á samstöðu og fagmennsku þeirra sem starfa í skólunum í góðu samstarfi við grenndarsamfélagið. Ég tel að vitundarvakning hafi orðið í samfélaginu í kjölfar efnahagshrunsins um mikilvægi þess að allir aðilar vinni saman að velferðarmálum í skólum til að sem bestur árangur náist.

Velferðarhópur er starfandi í ráðuneytinu en hann hefur fylgst náið með þróun mála á öllum skólastigum frá efnahagshruni. Hópurinn hefur m.a. staðið fyrir könnunum sem þið þekkið um líðan og virkni nemenda í framhaldsskólunum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka ykkur fyrir greinargóð svör við þessum könnunum. Niðurstöður úr þeirri nýjustu liggja ekki fyrir en þær verða sendar ykkur mjög fljótlega.

Velferðarhópurinn hafði einnig umsjón með sérstakri málstofu um velferð í skólum á menntaþinginu sem haldið var 5. mars sl. Rauði þráðurinn í umræðum um velferð á menntaþinginu var að heilt samfélag þurfi til að ala upp barn og að samvinna allra aðila sem byggist á gagnkvæmum samskiptum og gagnkvæmri virðingu sé lykillinn að árangri. Niðurstöður menntaþingsins verða sérstaklega kynntar á næstunni.

Einnig hefur ráðuneytið tekið þátt í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, Lýðheilsustöð og samtök nemenda um heilsueflingu og forvarnir. Hefur það samstarf m.a. skilað sér í íþróttavakningu framhaldsskóla og geðræktarverkefni.

Ég vil hvetja ykkur öll til að taka höndum saman um að hlúa sem best að velferð nemenda og starfsfólks framhaldsskólanna.

Lög um framhaldsfræðslu

Ný lög um framhaldsfræðslu voru samþykkt á Alþingi skömmu fyrir páska.

Lögunum er ætlað að styrkja formlegan grundvöll framhaldsfræðslu hér á landi og gera hana að fimmtu grunnstoð íslensks menntakerfis. Stuðla lögin þannig að vexti almenns menntunarstigs þar sem einstaklingar með stutta formlega skólagöngu afli sér frekari menntunar. Með lögunum er lagður grunnur að heildstæðu kerfi framhaldsfræðslu þar sem einstaklingum er veittur stuðningur óháð stéttarfélagsaðild. Ég ætla ekki að rekja markmið eða innihald þessara laga en hvet ykkur til að kynna ykkur þau.

Lög um framhaldsfræðslu öðlast gildi 1. október 2010. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um starfsmenntun í atvinnulífinu, nr. 19/1992. Fram að gildistökunni mun mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa samráð við hagsmunaaðila um innleiðingu laganna og setningu ýmissa reglna á grundvelli þeirra.

Ég legg ríka áherslu á að náið og gott samstarf þróist milli framhaldsfræðslugeirans og framhaldsskólanna í landinu og treysti á ykkur í þeim efnum.

Fjármál

Eins og ég nefndi í upphafi eru mjög krefjandi viðfangsefni framundan í fjárlagagerð fyrir næsta ár, 2011, og væntanlega tvö ár þar á eftir. Í raun má segja að þetta ferli hafi hafist á þessu ári og hafa framhaldsskólar þegar brugðist við minni fjárveitingum með ýmsum aðgerðum. Ráðuneytið hefur undanfarna mánuði unnið að mótun og útfærslu leiða til að takast á við kröfur um sparnað og átt um það gott samstarf við fulltrúa skólameistara. Þegar við er að etja niðurskurð um allt að 10% á einu ári og frekari samdrátt í framhaldinu er ljóst að ráðuneytið þarf að þróa leiðir miðlægt og eiga náið samráð við skólameistara og kennara við útfærslu þeirra.

Þær tillögur sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur mótað verða kynntar hér á eftir. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að hér er um hugmyndir að ræða sem ekki hafa verið teknar endanlegar ákvarðanir um. Ráðuneytið hefur hins vegar metið það sem svo að nauðsynlegt sé að hefja nú þegar vinnu við útfærslu þeirra til að meta áhrif mögulegra aðgerða á skólastarf og hversu raunhæfar tillögurnar eru. 

Tillögurnar snúa annars vegar að breytingum á skipulagi þjónustu sem eru til þess fallnar að efla gæði og tryggja námsframboð, s.s. með fjarkennslu og samstarfi skóla, og hins vegar að beinum tillögum um leiðir til að ná sparnaði. Ein leið til að ná fram sparnaði er að dregið verði úr kennslu og þjónustu við nemendur sem stunda nám í efri áföngum framhaldsskóla. Ljóst er að aðgerð sem þessi mun mæta andstöðu en við þær aðstæður sem nú eru uppi verður ekki undan því vikist að skoða hana alvarlega.  Hefur ráðuneytið leitað til skólameistara um að meta áhrif aðgerða og munu fulltrúar þeirra kynna þá vinnu hér á eftir.

Ég legg áherslu á að við útfærslu tillagna um sparnað geri menn sér grein fyrir alvarleika þeirra afleiðinga sem niðurskurður kann að hafa. Undanfarin ár hefur mikil hagræðing átt sér stað í framhaldsskólum. Niðurskurður á þessu ári leiddi til þess að synja þurfti tæplega 500 nemendum um skólavist í janúar síðastliðnum.

Að öðru óbreyttu mun frekari niðurskurður í fjárveitingum til framhaldsskóla mögulega leiða til verri þjónustu skólanna, aukins brottfalls nemenda, minna námsframboðs, hættu á að nemendur tefjist í námi og að neita þurfi fleirum um skólavist. Þessar mögulegar afleiðingar niðurskurðar er nauðsynlegt að hafa í huga.

Vegna þeirra aðstæðna sem nú er uppi í rekstri framhaldsskóla hyggst ráðuneytið kalla skólameistara framhaldsskóla aftur til fundar eftir þrjár til fjórar vikur. Þá munu væntanlega liggja fyrir upplýsingar um ramma fjárlaga næsta árs og möguleika í útfærslu þeirra tillagna sem settar hafa verið fram. Þangað til verður áfram haft samráð við fulltrúa félaga skólameistara um þessi mál.

Þrátt fyrir þær krefjandi aðstæður í efnahagsmálum sem við búum nú við er mikilvægt að missa ekki sjónar af því sem mestu skiptir í starfi framhaldsskóla sem er að mennta ungt fólk og undirbúa það fyrir frekara nám og störf. Framhaldsskólar hafa að undanförnu nýtt sér þau tækifæri sem gefast með nýjum lögum til þess að móta nýjar leiðir að þessum stefnumiðum. Miðað við þann kraft og útsjónarsemi sem birst hefur í starfi skólanna að undanförnu hljótum við að vera bjartsýn á framtíð menntunar á framhaldsskólastigi hér landi.

Ég vona að umræður hér í dag verði opinskáar og uppbyggilegar og mun svara fyrirspurnum ykkar hér á eftir.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum