Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

28. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp ráðherra á lokaathöfn „Nótunnar“, uppskeruhátíð tónlistarskóla 27. mars 2010

27. mars 2010, Langholtskirkja

Lokaathöfn „Nótunnar“, uppskeruhátíð tónlistarskóla

Það er fátt ánægjulegra í starfi mínu sem ráðherra mennta- og menningarmála en að fá að kynnast sköpunarkrafti ungu kynslóðarinnar líkt og við höfum fengið að njóta hér í dag á „Nótunni“.

Á þessari glæsilegu uppskeruhátíð tónlistarskólanna hefur lífsorka og æskuþrek ungra tónlistarnema streymt fram í tónum og skilur svo sannarlega engan eftir ósnortinn. Hér hafa nemendur á öllum aldri boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega efnisskrá sem endurspeglar árangur mikillar vinnu og fagmennsku í tónlistarskólum vítt og breitt um landið.– uppskeruhátíð tónlistarskóla er samstarfsverkefni Félags tónli

Hér á landi fer fram metnaðarfullt skólastarf allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Víða er unnið að áhugaverðum sprotaverkefnum sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Skapandi starf er t.d. í hávegum haft í leikskólum og víða er blómleg listmenntun í grunnskólum, oft í tengslum við félagsstarf nemenda og nánu samstarfi við tónlistarskóla og menningarstofnanir. „Nótan“ er ný og skemmtileg vídd í starfsemi tónlistarskólanna. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með þessa nýju uppskeruhátíð og það mikilvæga tækifæri sem gefst til að kynna fjölbreytta starfsemi tónlistarskólanna rækilega fyrir nærsamfélagi þeirra.

Á undanförnum áratugum hefur byggst upp öflugt tónlistarlíf hér á landi sem hefur borið hróður Íslands víða og verið mikilvægur menningarauki fyrir þjóðina alla. Velgengni íslenskrar tónlistar og tónlistarmanna hefur sprottið upp úr jarðvegi sívaxandi menntunar og færni sem ber öflugu starfi tónlistarskólanna fagurt vitni. Lengi býr að fyrstu gerð og mikilvægi tónlistarkennslu verður seint ofmetið.

„Nótan“ er afraksturinn af metnaðarfullri tónlistarkennslu og farsælu samstarfi tónlistarskóla um allt land. Vil ég færa öllum sem koma að þessu mikilvæga mennta- og menningarstarfi innilegar árnaðaróskir, sér í lagi öllu hinu unga og efnilega tónlistarfólki sem hér kemur fram. Tónlistarlíf og annað menningarstarf er ómetanlegt fyrir sjálfmynd þjóðarinnar. Því þurfum við öll að taka höndum saman og vernda það fjöregg sem felst í öflugu starfi tónlistarskólanna.
 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum