Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. maí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra fyltur ávarp á fyrsta fundi starfsgreinanefndar 4. maí 2010

starfsgreinanefndarfundur 4. maí 2010
starfsgreinanefndarfundur 4. maí 2010

Komið þið sæl,

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa fyrsta fund starfsgreinanefndar. Með skipun nefndarinnar hefur loks verið skapaður formlegur vettvangur fyrir samráð, stefnumótun og framkvæmd starfsnámsins.

Ég hef skipað Jón Sigurðsson formann nefndarinnar og Kristrúnu Ísaksdóttur varaformann. Jón þekkir umhverfi starfsmenntunar beggja megin frá og hefur mikla reynslu bæði af vettvangi atvinnulífs og skóla/menntunar. Hann er reyndur kennari og skólastjórnandi, var m.a. rektor Samvinnuskólans á Bifröst um árabil og breytti þeim skóla úr starfsmenntaskóla á framhalds- og sérskólastigi í fagháskóla. Hann var formaður starfsgreinaráðs sjávarútvegs- og siglingagreina um skeið og kom að sameiningu Vélskóla Íslands og Stýrimannaskólans í Fjöltækniskólann. Þá starfaði hann að starfsmenntamálum á vegum Samtaka atvinnulífsins og varð fyrsti stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Þekkir því vel bæði formlega og óformlega menntakerfið. (Starfar nú sem óháður rekstrarhagfræðingur og lektor í hlutastarfi við Háskólann í Reykjavík).

Kristrúnu Ísaksdóttur þekkið þið flest. Hún hefur um árabil starfað að málefnum starfsmenntunar í þessu ráðuneyti. Vera hennar í nefndinni tryggir mikilvæg tengsl ráðuneytis og starfsgreinanefndar.

Tvö meginverkefni nefndarinnar er

1. Að vera vettvangur samráðs og samræmingar milli starfsgreinaráða.
2. Að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í starfsnámi og framkvæmd starfsnáms.

Bæði þessi hlutverk eru afar mikilvæg. Hið fyrra á að styrkja innra starf starfsgreinaráðanna, auka samræmi í störfum þeirra og gera þau skilvirkari. Hið síðara varðar framtíðarsýn á starfsmenntun í landinu þar sem margir aðilar þurfa að koma að málum, ná niðurstöðu um markmið og leiðir og fylkja sér um framkvæmd.

Starfsgreinaráð hafa nú verið að störfum í 12 ár (3 fjögurra ára tímabil). Þau hafa mótað störf sín hvert með sínum hætti og ekki haft formlegan eða skipulagðan samstarfsvettvang fyrr en nú með skipun starfsgreinanefndar. Mikilvægt er að nefndin nýti sem best þá reynslu sem nefndarmenn búa yfir til að efla og bæta verklag ráðanna og koma umbótatillögum á framfæri við ráðuneytið og aðra sem að málum koma.

Til að afla upplýsinga sem að gagni mættu koma í því starfi sem framundan er lét ráðuneytið fyrr á þessu ári gera úttekt á starfsemi starfsgreinaráða á undanförnum árum og liggur nú fyrir skýrsla um niðurstöður og umbótatillögur. Úttektina gerðu María Kristín Gylfadóttir verkefnisstjóri hjá Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og Elín Thorarensen náms- og starfsráðgjafi. Skýrslan byggir á umfangsmikilli gagnaöflun, bæði skriflegum og munnlegum, m.a. viðtölum við hagsmunaaðila og hefur eflaust verið leitað til sumra ykkar í því efni. Í skýrslunni er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar ásamt tillögum um umbætur. Sumar tillögurnar eru augljóslega til bóta og sjálfsagt að komi sem fyrst til framkvæmda en aðrar þarfnast nánari skoðunar. Skýrslan er til meðferðar í ráðuneytinu og mun hún verða birt innan skamms.

Starfsmenntun á framhaldsskólastigi er sameiginlegt verkefni ríkisins (ráðuneytis og skóla) og aðila atvinnulífsins. Starfsgreinanefndin er einn meginvettvangur þessa samstarfs og samráðs og nauðsynlegt að höfða til ábyrgðar hennar þegar í upphafi starfs.

Í þessu sambandi er eðlilegt að koma lítillega inn á það alvarlega efnahagsástand sem búast má við að vari næstu árin, óumflýjanlegan niðurskurð, m.a. í framhaldsskólum, forgangsröðun, áherslur, úrræði og vanda svo sem

  • áherslu á úrræði við hæfi fyrir yngstu nemendurna sem eru í hvað mestri brottfallshættu
  • erfiðleika við að veita eldri nemendum alla þá þjónustu sem þeir hafa notið hingað til
  • það snúna verkefni að standa vörð um, efla og skýra faglegar kröfur bóknáms, listnáms og starfsnáms við minni fjárveitingar en áður
  • endurskoðun á uppbyggingu, umfangi og skipulagi allra tegunda náms og námsbrauta á framhaldsskólastigi m.a. með hliðsjón af þróun viðmiðaramma um íslenska menntun

Ráðuneytið þarf á aðstoð starfsgreinanefndar að halda við að finna leiðir til að efla starfsnám við þessar aðstæður. Meðal annars er um að ræða samráð og samstarf um

  • að móta heildræna starfsmenntastefnu frá lokum grunnskóla upp á (fag)háskólastig
  • að þróa viðmiðaramma um þekkingu, leikni og hæfni á ýmsum þrepum náms í menntakerfinu sem nýst getur fyrir allar tegundir starfsnámsbrauta
  • hvernig meta megi umsóknir framhaldsskóla og fræðsluaðila um staðfestingu ráðherra á námskrám eða námsbrautarlýsingum starfsnáms með hliðsjón af menntunarþörfum atvinnulífs
  • að efla þátt vinnustaðanáms í starfsnámi á framhaldsskólastigi
  • hvernig gera megi starfsnám á framhaldsskólastigi meira aðlaðandi fyrir nemendur af báðum kynjum, hvernig draga megi úr strangri kynjaskiptingu sumra starfsgreina á vinnumarkaði t.d. með aukinni fræðslu og kynningu um námið og möguleika stráka og stelpna til starfa og áframhaldandi náms að loknu starfsnámi
  • hvernig jafna megi hlutdeild karla og kvenna í starfsgreinaráðum þar sem nú gætir ójafnvægis.

Fyrir skemmstu voru samþykkt á Alþingi lög um framhaldsfræðslu (nr. 27/2010) en þar er mörkuð heildstæð stefna um nám alla ævi. Framhaldsfræðslulögin eru síðasti hlekkurinn í heildarlöggjöf um menntakerfið sem sett hefur verið á seinustu fjórum árum. Mikið starf er framundan við innleiðingu þeirra laga. Margt er sameiginlegt með framhaldsfræðslu og starfsmenntun á framhaldsskólastigi og mikilvægt að efla tengslin þar á milli.

Sérstök deild innan skrifstofu menntamála í ráðuneytinu, framhaldsfræðslu- og starfsmenntadeild, sinnir þessum málaflokkum. Deildarstjóri er Stefán Stefánsson en með honum í deildinni eru þau Kristrún Ísaksdóttir og Ólafur Grétar Kristjánsson. Deildin hefur með höndum almenna stjórnsýslu fyrir framhaldsfræðslu og starfsmenntun, þ.m.t. umsýslu og tengsl við starfsgreinanefnd og starfsgreinaráð.

Það er von mín að samstarf allra þessara fjölmörgu aðila sem koma munu að stefnumótun og framkvæmd starfsnámsins verði gjöfult og farsælt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum