Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

14. maí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur opnunarávarp á Vísindi á vordögum 2010 4. maí 2010

Vísindi á vordögum

Ágætu gestir.

Það er ánægjulegt að fá að vera með ykkur hér í dag á opnun á Vísindum á vordögum. Þetta er í annað skipti sem ég kem hingað af þessu tilefni, og ég er nú, líkt og ég var í fyrra afar imponeruð yfir þessu mikla og víðtæka vísindastarfi sem fer fram á Landspítala.

Ég nota nú hvert tækifæri sem mér gefst til að kynna og minna á vísinda- og tæknistefnu okkar til næstu þriggja ára, sem kom nýverið út undir heitinu Byggt á styrkum stoðum. Heiti stefnunnar vísar til þess að á Íslandi hafi vissulega margt verið vel gert á sviði vísindi og tækni sem byggja má á og nota í uppbyggingu íslensks samfélags.  Lagður hefur verið mikilvægur grunnur að vísindum og nýsköpun og við eigum vissulega mikinn auð í vel menntuðu og framsæknu fólki. Þetta á ekki síst við í heilbrigðisvísindum.

Íslendingar hafa undanfarin ár varið tiltölulega háu hlutfalli af vergri landsframleiðslu til rannsókna og þróunar eða nær 3%. Þar af er stærstum hluta, eða nær þriðjungi, varið til rannsókna á sviði heilbrigðismála. (Árið 2007 voru þetta um 13 milljarðar króna.) Þetta er því fyrirferðarmikill hluti af rannsókna og þróunarstarfi hér á landi, en afraksturinn er góður sé litið til mælikvarða eins og fjölda birtra vísindagreina á alþjóðavettvangi, en þar eru um helmingur þeirra í heilbrigðisvísindum. Áhrif greinaskrifa, mælt sem tilvitnanir í greinar þeirra, setja greinar í lækna- og heilbrigðisvísindum í efsta sæti OECD ríkja. Þar eiga starfsmenn Landspítala góðan skerf, og þetta er vissulega eftirtektarverður og aðdáunarverður árangur.

Í stefnunni eru þrjú atriði eða leiðarljós sem stefnan gengur út frá. Hið fyrsta  er Samvinna og samnýting, þar sem bent er á að við núverandi aðstæður þurfi að nýta sem best þá krafta sem fyrir eru og þá aðstöðu sem byggð hefur verið upp víðsvegar um landið.  Þó samstarf hafi aukist mikið á undanförnum árum þá verði að leita leiða til að efla það enn frekar.  Ég vil þó sérstaklega nefna að þegar rætt er um þetta atriði og mikilvægi samvinnu, þá hef ég einmitt gjarnan nefnt samstarf og samvinnu Landspítala og Háskóla Íslands sem fyrirmynd í þeim efnum. Þetta er samvinna sem ég veit að hefur gengið mjög vel. Þó koma hér að tvö ráðuneyti, og því fyrirmynd í því að hér sé unnið þvert á ráðuneyti.

Annað leiðarljósið er Gæði og ávinningur, þar sem minnt er á mikilvægi þess að vísinda- og nýsköpunarstarf á Íslandi verði að standast alþjóðlegar gæðakröfur svo árangur náist og raunveruleg og viðvarandi verðmæti skapist.   Í þessu samhengi má nefna að unnið er að því í ráðuneytinu að koma á gæðaráði skipuðu erlendum sérfræðingum sem munu bera ábyrgð á gæðaeftirliti með kennslu og rannsóknum við háskóla, og mun það að öllum líkindum taka til starfa í haust.

Í þriðja leiðarljósinu Alþjóðleg vísindi og nýsköpun er fjallað um tækifæri sem felast í samstarfi við aðrar þjóðir og sókn í erlenda sjóði og áætlanir, og hvernig gera megi alþjóðasamstarf og sókn í alþjóðlegar áætlanir markvissari og líklegri til ávinnings.  Innan vísinda- og tækniráðs er í gangi vinna við hvernig efla megi stuðningsþjónustu við íslenska umsækjendur í erlenda samstarfssjóði. Vísindamenn í heilbrigðisvísindum hafa staðið sig langsamlega best í þessum efnum, en?.. vissulega eru enn ónýtt tækifæri og gera má enn betur. Annað áhyggjuefni sem bent hefur verið á er hversu lítil nýliðun er á þessu sviði, og því mikilvægt að virkja enn betur yngra fólk til sóknar.   Nú þegar við stöndum frammi fyrir samdrætti í ríkisfjármálum er brýnt að róa enn fastar á mið alþjóðlegrar fjármögnunar á rannsóknum.

Í stefnunni er kafli um Opið aðgengi,  en það er mál sem ég hef sérstakan áhuga á.  Landspítalinn hefur vissulega verið í forystuhlutverki á því sviði og þegar byggt upp eigið varðveislusafn, Hirsluna,  og hvatt starfsmenn til að birta vísindagreinar jafnharðan í opnu aðgengi.  Ég mun beita mér fyrir því að stefnt verði að því sú krafa verði gerð að allar niðurstöður vísinda sem styrktar eru af almannafé verði aðengilegar í opnu aðgengi, og að mótuð verði opinber stefna þar að lútandi.

Ég get nú ekki látið hjá líða að minnast á nýja spítalann sem er í undirbúningi. Þar vona ég að vel takist til að tengja saman klínískar rannsóknir og grunnrannsóknir og áframhaldandi góðu samstarfi við Háskóla Íslands.

Ég vænti þess að stefna Vísinda- og tækniráðs verði ykkur leiðarljós í skipulagningu og áætlunum á næstu árum

Framundan er örugglega skemmtilegur dagur, með áhugaverðum erindum og veggspjöldum.

Ég óska ykkur góðs gengis í dag.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum