Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

02. júní 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flutti ávarp við opnun sýninganna Áfangar, Ónefnd kvikmyndaskot og Edvard Munch 15. maí 2010

Kæru gestir

Listahátíð í Reykjavík 2010 var sett á miðvikudag með pomp og prakt, og á síðustu þremur dögum hafa sýningar verið opnaðar, tónleikar hafa farið af stað með miklum krafti, leiksýningar verið frumsýndar og hafið er brúðuleikhús undir beru lofti og allt hefur þetta skapað ómælda gleði. Í dag og næstu daga hefjast fjölmörg fleiri verkefni á listasviðinu, og mun sprengikraftur menningarlífsins þannig halda áfram að bjóða landsmönnum tækifæri til að auðga andann og njóta margs af því besta sem innlendir listamenn og fjölmargir erlendir gestir hafa fram að færa næstu daga og vikur.

Við erum stödd hér í Listasafni Íslands í dag til að fagna opnun þriggja sýninga sem eru framlag safnsins á Listahátíð í ár.

Má fyrst nefna sýninguna „Áfangar“ þar sem getur að líta úrval verka úr í eigu safnsins frá 20. og 21. öld, og er ætlað að verða föst sýning í sölum safnsins næstu misserin. Er fagnaðarefni að slíkt yfirlit er loks komið til að vera, og má vænta þess að ferðamenn jafnt sem landsmenn allir, sérstaklega skólafólk, eigi eftir að njóta þess að hafa aðgang að slíku föstu yfirliti yfir íslenska myndlistarsögu í sölum Listasafnsins.

Önnur sýningin er einnig úr fórum Listasafns Íslands, en þar er um að ræða grafíkverk eftir norska listamanninn Edvard Munch. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um stöðu hans í listasögunni, því þar fer eflaust frægast norræna nafnið í vestrænni listasögu. Færri þekkja nafn Christian Gierløff, góðvinar listamannsins, sem færði Listasafni Íslands þessi verk að gjöf árið 1947; íslensk söfn hafa löngum notið velvildar fjölmargra vina af þessu tagi, sem hafa átt sinn þátt í því að Íslendingar hafa, þrátt fyrir smæð sína og fjarlægð frá iðu hins alþjóðlega listalífs, fengið notið margs af því besta sem listin hefur fram að færa. Meðal verka í sýningunni eru perlur úr hendi Edvard Munch, sem hér gefst einstakt tækifæri til að skoða í návígi.

Þriðja sýningin sem hér opnar í dag er af einni þekktustu myndaröð bandarísku listakonunnar Cindy Sherman, „Ónefnd Kvikmyndaskot“ sem hún skapaði 1977-1980. Í þessum 69 svart-hvítu ljósmyndum stillir listakonan sér upp sem leikkonu í anda ótilgreindra kvikmynda, og tekst þannig á við ímynd hinnar lostafullu en óþekktu leikkonu í ólíkum tegundum kvikmynda. Þessi myndaröð hefur frá upphafi notið mikillar athygli og tryggt stöðu listakonunnar í myndlistarheiminum. Museum of Modern Art í New York eignaðist eintak af myndaröðinni 1995 og hélt meðal annars stóra sýningu helgaða henni tveim árum síðar, fyrir tilstilli veglegs stuðnings frá annarri listakonu, söngkonunni Madonnu.

Dear guests,

It is an honour to have among us today the American artist Cindy Sherman, creator of the renowned series „Untitled Film Stills“, which is one of the exhibitions that we are opening here in the National Gallery of Iceland today as part of the Reykjavík Art Festival 2010. Ms. Sherman has distinguished herself by using her own image as the medium of her work – although always emphasizing that she is not making self-portraits, but independent works of art. The „Genius Award“, as the MacArthur Fellowship that Ms. Sherman received in 1995 is called, tells us how well she is regarded in the art world, and the retrospective of Ms. Sherman‘s work in the Jeu de Paume in Paris in 2006 was the one of the latest confirmation of her status as one of the most interesting artists of our time.

Again, we are honoured to have Ms. Sherman with us here today, and hope that you, along with all other foreign guests, enjoy your stay in Iceland at this culturally active time. We also hope that our currently belligerent forces of nature will not cause you or other guests too much concern – „c‘est la vie as the French would say.

Góðir gestir,

Ég lýsi hér með sýningar Listasafns Íslands á Listahátíð 2010 opnar.

Njótið vel.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum