Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

02. júní 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur opnunarávarp þingsins Byggt á styrkum stoðum 27. maí 2010

27. maí 2010, Grand hótel Byggt á styrkum stoðum

Kæru gestir.

Yfirskrift þessa þings, Byggt á styrkum stoðum, vísar til stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2010-2012 og þau leiðarljós sem fram koma í henni, en þau eru samvinna og samnýting, gæði og ávinningur og alþjóðleg vísindi og nýsköpun.

Þessi stefna var samþykkt á haustdögum fyrir ári síðan. Í henni er kveðið á um mikilvægi þess að halda áfram að hlúa að og efla þær stoðir sem rannsóknir og nýsköpun byggja á hér á landi og nota þekkingarsköpunina sem viðspyrnu til nýrrar sóknar í atvinnulífi og samfélagi.

Eins og við vitum þá er það eitt að skapa stefnu, annað að fylgja henni eftir. Reynslan hefur kennt okkur að efndirnar eru ekki alltaf í samræmi við væntingar og stundum hefði betur verið heima setið. Í dag, eftir níu mánaða meðgöngutíma er því kjörið tækifæri til að líta yfir farinn veg og sjá hverju við höfum áorkað í að koma stefnu Vísinda- og tækniráðs á legg.

Ekki verður annað séð en að afkvæmið dafnist vel. Ég þarf vart að taka það fram að á þessum tímum aðhalds og niðurskurðar, þar sem barnið vex en brókin ekki, er það lífspursmál fyrir rannsóknir og nýsköpun að henni séu tryggð næring og lífsviðurværi. Miklu grettistaki var lyft með því að leiða samkeppnissjóði þá sem heyra undir Vísinda og tækniráð frá niðurskurðarhnífnum og tryggja þeim óbreytt fjármagn. Við munum áfram hlúa að þeim eins og hægt er þó að enn liggi ekki fyrir endanlegir rammar og engu hægt að lofa á þessum tímapunkti.

Undanfarið hefur mikið verið rætt um íslenska háskólakerfið, stærð þess og margbreytileika. Í fjölmiðlum hafa kinnroðalausir sérfræðingar breytt grænum engjum vísindanna í blóðvöll hjaðningavíga þar sem hver háskólinn af öðrum hefur fallið í valinn. Það er varla launungarmál að hver einasta hugmynd sem birst hefur í fjölmiðlum hefur verið rýnd til þrautar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og starfsnefndum Vísinda- og tækniráðs síðasta árið.

Vandamálið er einfalt: Við viljum ekki eiga á hættu að fórna því sem vel er gert á altari niðurskurðarins. Samþætting háskóla og rannsóknastofnana þarf að skoða út frá fræðasviðum ekki síður en stofnanastrúktur. Það er vandasamt verkefni sem krefst þolinmæði. Það er krafa lýðræðissamfélagsins að samþættingin fari fram í fyllsta samráði við helstu hagsmunaaðila og ég get fullvissað ykkur um að það hefur verið gert. Hér ber einnig að nefna víðtæka kortlagningu á þekkingarsetrum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur staðið fyrir og birt verður á næstu dögum. Í þessari kortlagningu er fjallað um öll þekkingarsetur hér á landi, hvort sem þau heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið eða önnur ráðuneyti. Við fáum skýra yfirsýn yfir þá þekkingarstarfsemi sem stunduð er á öllu landinu til að geta styrkt hana með auknu samstarfi innan svæða og milli landshluta. Það er ljóst að störf af þessu tagi eru byggðalögum mikil lyftistöng, þau laða til sín vel menntað ungt fólk og eru oft drifkraftur í atvinnuuppbyggingu.  Markmiðið með þessari vinnu er að skoða aukið samstarf til að auka skilvirkni og viðhalda gæðum. 

Í stefnu vísinda og tækniráðs er einmitt fjallað sérstaklega um gæði og mikilvægi þess að efla gæðamat hér á landi. Við mat á gæðum vísindastarfsemi, kennslu og rannsóknum skiptir trúverðugleiki öllu og að matið sé í höndum óháðra sérfræðinga og byggi á alþjóðlegum stöðlum.
Í stefnunni góðu er lagt til að komið verði á gæðaráði skipuðu erlendum sérfræðingum sem beri ábyrgð á gæðaeftirliti með kennslu og rannsóknum við háskóla. Í vetur hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið unnið hörðum höndum að þessu málefni og ég get hér með upplýst að í næsta mánuði mun þetta gæðaráð líta dagsins ljós.
Til að tryggja hlutleysi og trúverðugleika verður gæðaráðið eingöngu skipað erlendum sérfræðingum með víðtæka reynslu og þekkingu. Sér til aðstoðar mun það hafa starfslið og ráðgefandi nefnd hagsmunaaðila til að tryggja að gæðaeftirlitið uppfylli hlutverk sitt til fullnustu; að bæta og tryggja gæði kennslu og rannsókna við íslenska háskóla á sambærilegan máta og tíðkast í alþjóðsamfélaginu.

Alþjóðlegt samstarf skiptir sköpum fyrir uppbyggingu rannsókna og nýsköpunar hér á landi og það ber að efla og gera markvissara, eins og kveðið er á um í stefnu vísinda- og tækniráðs.

Undir forystu mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur farið fram umfangsmikil vinna við að efla samkeppnisfærni íslenska vísindasamfélagsins og gera það markvissara.  Þessi vinna hefur ekki síst snúið að því hvernig við getum nýtt núverandi stuðningsþjónustu við alþjóðlegt samstarf til að bæta möguleika okkar á þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og sækja styrki til rannsókna og nýsköpunar í alþjóðlega sjóði. Hér á landi er stoðþjónustukerfi alþjóðlegs rannsókna- og nýsköpunarstarfs á hendi margra aðila. Með sameiningu og samþættingu þessarar þjónustu mál telja öruggt að möguleikar íslensks rannsókna- og nýsköpunarsamfélags til sóknar í alþjóðlega rannsóknasjóði muni stóreflast.  Á síðasta fundi vísinda- og tækniráðs var samþykkt að fylgja eftir þeirri grunnvinnu sem framkvæmd hefur verið og vinnur mennta- og menningarmálaráðuneytið nú að því að leggja lokahönd á tillögur um umbótamiðaða samþættingu alþjóðlegs rannsókna- og nýsköpunarstarfs.
Ég hef áður minnst á mikilvægi þess að vernda samkeppnissjóði þá sem heyra undir vísinda- og tækniráð og nýta þá fremur til uppbyggingar samfélagsins.  Sú vinna, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur staðið fyrir í vetur hefur ekki aðeins snúist um það heldur einnig að efla stoðþjónustu við umsækjendur, nýliðun og faglegu umfjöllun um umsóknir og úthlutun.

Ég vil nota tækifærið til að óska Rannsóknasjóði og Rannís til hamingju með þann veglega styrk sem stofnunin hefur fengið til að efla rannsóknir nýdoktora. Er sýnt að þessi styrkur mun efla mjög nýliðun í vísindum og nýsköpun, eins og einmitt er kveðið á um að stefna beri að í stefnu vísinda og tækniráðs sem hér er til umfjöllunar. Stundum er eins og það sé nóg að segja „verði ljós“ til að birti.
Að lokum langar mig til að gera að umtalsefni þann kafla stefnunnar sem snýr að því að efla opið aðgengi að rannsóknarniðurstöðum.

Opið aðgengi að birtum vísindagreinum hefur á undanförnum árum verið að ryðja sér til rúms erlendis. Algengt er að sett sé sú krafa að birtar vísindagreinar sem eru afrakstur rannsókna sem fjármagnaðar eru af hinu opinbera sé með opið aðgengi. Opið aðgengi að vísindagreinum felur í sér að greinar sem vísindamenn birta í tímaritum eru aðgengilegar á rafrænu formi án endurgjalds. Einstakir háskólar, svo sem Harvard, gera þessa kröfu en einnig National Institutes for Health (NIH), svo dæmi séu tekin.

Í stefnu vísinda- og tækniráðs er hvatt til þess að gerðar verði kröfur um að niðurstöður rannsókna sem njóti opinberra styrkja verði birtar í opnum aðgangi og mótuð verði opinber stefna þar að lútandi.  Stefna ber að því að nýtingarréttur að niðurstöðum rannsókna sem eru unnar við opinberar stofnanir eða í samstarfi opinberra stofnana og fyrirtækja verði skilgreindur og að efnt verði til almennrar vitundarvakningar innan vísinda- og nýsköpunarsamfélagsins um mikilvægi opins aðgangs að rannsóknaniðurstöðum.

Með þetta í huga get ég upplýst að á næsta fundi vísinda- og tækniráðs mun ég leggja til að ráðið undirriti svokallaða Berlínaryfirlýsingu. Berlínaryfirlýsingin er sá sáttmáli sem er útbreiddastur varðandi opið aðgengi. Frá því að hann var fyrst undirritaður árið 2003 hafa 274 aðilar staðfest hann. Honum er ætlað að hvetja vísindamenn til að gefa greinar sínar út í opnu aðgengi og ná þar með til fleiri aðila. Opið aðgengi er ekki aðeins leið til að breiða út fagnaðarerindi vísindanna; opið aðgengi felur í sér að allir fá aðgang að þekkingu sem kostuð er af almannafé og er um leið aðferð til að koma íslenskum rannsóknum á framfæri á ódýran máta með nútímalegum aðferðum. Rannsóknir benda til að með þessu megi spara umtalsvert fé, ekki aðeins með lægri kostnaði við kaup á tímaritum og bókum heldur einnig í betri nýtingu rannsóknaniðurstaðna fyrir samfélag og atvinnulíf.

Góðir gestir

Þessi yfirferð hefur sýnt okkur að miklu má áorka sé viljinn fyrir hendi. Á aðeins níu mánuðum hefur grettistaki verið lyft í að gera rannsókna- og nýsköpunarsamfélag Íslands kraftmeira og betur í stakk búið að beita sér í þágu þjóðarinnar. Við erum rétt að byrja en sem betur fer eru nokkur ár til stefnu og við erum sko alls ekki hætt. Á næstu mánuðum mun mennta- og menningarmálaráðuneytið kynna fleiri úrlausnir stefnumála vísinda- og tækniráðs sem ætlað er að efla rannsóknar- og nýsköpunarsamfélagið. Ráðuneytið mun ekki skorast undan forystuhlutverki sínu við aukna samþættingu háskóla, bætt skilyrði alþjóðasóknar og eflingu nýsköpunar. Við munum hlýða með athygli á það sem hér mun fara fram á þessi kærkomna rannsóknaþingi og nota niðurstöður þess sem gott veganesti inn í vinnu komandi mánaða.

Verið velkomin og góða skemmtun.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum