Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

20. september 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur STÖÐVUM EINELTI – STRAX einelti og ungt fólk, netið og ábyrgð samfélagsins

Ég vil byrja á því að þakka Heimili og skóla – landssamtökum foreldra fyrir að hafa frumkvæði að borgarafundum víða um land í haust til að efla vitund samfélagsins um einelti og ræða nauðsynlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir einelti sem á hvergi að líðast.

14. september 2010, Sunnulækjarskóli Selfossi
Góðir áheyrendur

Ég vil byrja á því að þakka Heimili og skóla – landssamtökum foreldra fyrir að hafa frumkvæði að borgarafundum víða um land í haust til að efla vitund samfélagsins um einelti og ræða nauðsynlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir einelti sem á hvergi að líðast. Ánægjulegt er að ýmsir aðilar standa með Heimili og skóla að þessum borgarafundum þ. á m., Liðsmenn Jerico, Olweusaráætlunin gegn einelti, Samband íslenskra sveítarfélaga, fræðsluyfirvöld og Ungmennaráð SAFT í samstarfi við Símann. Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að ávarpa fyrsta borgarafundinn af 11 og þar með taka þátt í að hrinda verkefninu af stað. Þegar hringnum verður svo lokað í nóvember ættu að liggja fyrir fjölmargar ábendingar um hvað má betur fara í aðgerðum gegn einelti og það verður ögrandi verkefni fyrir alla að vinna úr þeim niðurstöðum, en ég lít svo á að þessir borgarafundir um eineltismál séu mikilvægir til að varða leiðina til framtíðar. Einelti getur aldrei orðið átaksmál í þeim skilingi að verkinu ljúki, það þarf stöðugt að vera á varðbergi, vinna markvisst að aðgerðaáætlunum gegn einelti á öllum stöðum, í skólum, á vinnustöðum og alls staðar í samfélaginu. Sérstaklega er áhugavert að á þessum borgarafundum sé sjónum beint að ungu fólki og einelti, rafrænum hættum á netinu og ábyrgð samfélagsins.

Í störfum mínum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hef ég sérstaklega tekið eftir því að til mín leitar fólk eða mér berast til eyrna mál sem tengjast alvarlegum eineltismálum í skólum og oftar en ekki virðist fólkið ekki hafa fengið markvissa eða skilvirka úrlausn sinna mála. Hér verður ekki farið nánar út í einstök mál en það er ákaflega sárt að heyra sögur fólksins. Ég get hins vegar sagt að starfsmenn ráðuneytisins reyna eftir fremsta megni að aðstoða við að koma málum í farveg. Því er þó ekki að leyna að æskilegast væri að mál fengju úrlausn í nærsamfélagi hvers skóla með viðeigandi sérfræðiþjónustu. Mér er fullkunnugt um að margir skólar og sveitarfélög hafa tekið myndarlega á eineltismálum og víða eru skólar með vandaðar aðgerðaáætlanir. Mikilvægt er að allir skólar hafi virkar og markvissar áætlanir gegn einelti og að allt skólasamfélagið taki þátt í því starfi. 

Í nýju menntalögunum frá 2008 er lögð mikil áhersla á almenna velferð nemenda í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, á farsælt skólastarf og öryggi. Reglugerðum sem settar hafa verið í kjölfar laganna er m.a. ætlað að stuðla að auknu öryggi í skólum og jákvæðum skólabrag, festa í sessi fjölbreytta sérfræðiþjónustu og skapa betri leiðir til að allir nemendur fái notið skólavistar námslega og félagslega með jafnrétti til náms og virka þátttöku að leiðarljósi.

Hvað varðar sérfræðiþjónustuna í leik- og grunnskólum er í bígerð sú áherslubreyting að lagt er meira en áður upp úr því að kennarar geti fengið stuðning og ráðgjöf til að bregðast við erfiðleikum sem koma upp í kennslustofunni hvort sem þeir tengjast einstaklingum eða hópum. Þessir erfiðleikar geta verið af ýmsum toga, s.s. einelti og fordómar, eða þættir sem kalla á kennslufræðilega ráðgjöf til að skapa öflugra námssamfélag, meiri vinnugleði eða jákvæðara starfsumhverfi nemenda og kennara. Mikilvægt er að kennarar finni fyrir miklum stuðningi frá stoðkerfinu og öllum þeim sem taka þátt í skólastarfinu til að ná sem bestum árangri og líða vel í starfi. Þegar allt kemur til alls er það kennarinn í skólastofunni, líðan hans, áhugi og fagmennska sem skiptir sköpum um gæði skólastarfsins. Góður kennari getur gert kraftaverk. Hann er kjölfestan í menntakerfi okkar ásamt öðru starfsfólki skólanna. Ekki má svo gleyma mikilvægu hlutverki foreldra og stuðningi þeirra til að byggja öflugt skólasamfélag, fylgja eftir velferð nemenda og styðja við faglegt starf í skólum og foreldrar leggja mikið af mörkum í því að halda utan um nemendahópa með margvíslegu foreldrastarfi og aðstoð við félagsstarf.

Þessu til viðbótar má nefna að sérstakur velferðarhópur er starfandi í ráðuneytinu sem hefur fylgst náið með þróun mála. Hópurinn hafði umsjón með sérstakri málstofu um velferð í skólum á menntaþingi sem ráðuneytið hélt í mars. Rauði þráðurinn í umræðum á þinginu var að heilt samfélag þurfi til að ala upp barn og að samvinna allra aðila sem byggist á gagnkvæmum samskiptum og gagnkvæmri virðingu sé lykillinn að árangri. Mikill samhljómur var um mikilvægi þess að hlúa að starfsanda í skólum, viðhalda vinnugleði og virkja foreldra betur til samstarfs við skóla á öllum skólastigum og að kraftur foreldra væru víða vannýtt auðlind í því skyni. Einnig kom fram mjög áhugaverð ósk um að skólar yrðu í ríkari mæli hjartað í hverju samfélagi, nokkurs konar mannlífstorg.

Kæru gestir.

Það er mér sérstök ánægja að kynna lauslega niðurstöður starfshóps um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum en starfshópurinn hefur starfað í u.þ.b. eitt ár á vegum þriggja ráðuneyta, þ.e. mennta- og menningarmálaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.  Í skýrslu starfshópsins eru um 30 tillögur að samhæfðum aðgerðum gegn einelti. Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að styðja sérstaklega við aðgerðirnar með því að veita 9 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu en gert er ráð fyrir sambærilegu framlagi á fjárlögum á næstu árum til að fylgja þessu mikilvæga máli eftir.

Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að sérstakur dagur verði árlega helgaður baráttunni gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvaða dagur verður fyrir valinu og áhugavert er að heyra hugmyndir frá borgarafundunum um heppilegar dagsetningar. Meginmarkmiðið með slíkum degi er að skapa umræður í samfélaginu um mikilvægi þess að móta samfélag þar sem einelti fái ekki þrifist og kynna vel heppnaðar aðgerðir í því skyni. Þá er einnig lagt til að komið verði á fót fagráði sem almennir vinnustaðir, skólar eða foreldrar geti leitað til þegar koma upp erfið og illleysanleg eineltismál. Á næstunni verður skipuð verkefnisstjórn til þriggja ára með fulltrúum ráðuneyta sem fær það verkefni að fylgja tillögum starfshópsins eftir en gert er ráð fyrir að leitað verði til fjölmargra samstarfsaðila um útfærslu á einstökum tillögum og vænta stjórnvöld mikils af því samstarfi.

Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á tillögu í skýrslu starfshópsins um að mennta- og menningarmálaráðuneytið undirbúi skuldbindandi yfirlýsingu ýmissa aðila um aðgerðir gegn mismunun, fordómum og einelti í skólum og umhverfi barna og ungmenna. Gert er ráð fyrir að nokkur önnur ráðuneyti standi að yfirlýsingunni sem og Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Félags íslenskra framhaldsskóla, Heimili og skóli, Lýðheilsustöð, ÍSÍ og mögulega fleiri aðilar sem tengjast skóla- og æskulýðsstarfi. Markmiðið er að skapa heilbrigð uppeldisskilyrði og jákvæðan skólabrag og berjast gegn einelti, öðru ofbeldi og misrétti. Lagt er til að forsætisráðherra verði verndari þessa verkefnis. Þegar er hafinn undirbúningur í ráðuneytinu til að hrinda þessu samstarfsverkefni í framkvæmd og m.a. verður samantekt af borgarafundunum höfð til hliðsjónar við frágang málsins. Mikilvægt er að leggja mat á hvernig til tekst með þessa tilraun til samhæfingar að nokkrum árum liðnum, en skilaboðin út í samfélagið eru skýr. Einelti á aldrei að líðast og saman erum við sterk.

Ég vil nota tækifærið og óska eftir því að fá samantekt um mikilvægustu aðgerðirnar þannig að verkefnisstjórnin fái ákveðna leiðsögn um forgangsröðun verkefna. Í þeim efnum biðla ég sérstaklega til ungs fólks að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í þeim efnum, ekki síst hvað varða rafrænt einelti og hættur sem leynast í netheimum, sem eldri kynslóðir hafa oft takmarkaða yfirsýn yfir.

Hlutverk sveitarfélaga er að tryggja öllum leik- og grunnskólum öfluga sérfræðiþjónustu. Nýlega tók gildi reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla þar sem lögð er meiri áhersla en áður á aðstoð við starfsfólk skóla og foreldra við að móta jákvætt námssamfélag í skólunum ásamt eftirfylgni og mati. Starfsfólk skóla ætti því að geta í auknum mæli leitað til sérfræðinga um starfshætti, kennsluhætti, betra námsumhverfi og samfélag inn í skóla og meðal annars fengið aðstoð vegna þeirra eineltis- og samskiptamála sem upp kunna að koma. Einnig er í reglugerðinni ákvæði um starf nemendaverndarráða í grunnskólum en með nýjum lögum urðu slík ráð lögbundin. Gert er ráð fyrir að nemendaverndarráð geti tekið ýmis erfið mál til úrlausnar, meðal annars sem tengjast einelti. Þannig verður betur hægt að vinna að markmiðum í aðalnámskrá um jafnrétti, lýðræði og velferð í skólum og slík vinna gæti haft ótvírætt forvarnargildi.

Að lokum vil ég vekja athygli á því að ný reglugerð um ábyrgð nemenda í grunnskólum er í vinnslu í ráðuneytinu (en miklar vonir eru bundnar við nýja reglugerð). Samkvæmt lögum um grunnskóla skulu nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Samkvæmt 14. gr. laganna ber nemendum að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Mennta- og menningarmála­ráðuneytið skal mæla fyrir um útfærslu þessarar greinar í reglugerð. Í gildi er reglugerð um skólareglur og aga sem er í endurskoðun í ljósi nýrra laga. Við endurskoðunina hefur  sérstaklega verið tekið á meðferð eineltismála, sett verða ákvæði um forvarnarstarf skóla til að vinna gegn einelti með markvissum hætti og viðeigandi viðbragðsáætlunum. Í þeim drögum að reglugerðinni sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að sett verði nýtt ákvæði um sérstakt fagráð sem hægt verði að vísa til erfiðustu eineltismálunum sem ekki tekst að leysa á vettvangi viðkomandi skóla eða sveitarfélags. Með þessu móti er stefnt að því að koma til móts við kröfur um markvissari umgjörð um meðferð eineltismála í grunnskólum með heildarhagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Vinna við endurskoðun þessarar reglugerðar stendur nú yfir í ráðuneytinu í samstarfi við hagsmunaaðila og stefnt er að því að endurskoðuð reglugerð geti tekið gildi fyrir árslok 2010.  Kjörið er að nýta borgarafundina til að safna saman hugmyndum um þessa mikilvægu reglugerð.

Góðir áheyrendur

Ég vil í lokin ítreka ánægju mína með frumkvæði Heimilis og skóla að þessum borgarafundum um land allt um eineltismál og velferð nemenda og einnig hversu margir styrktar- og samstarfsaðilar koma að þessum fundum. Það er von mín að umræður á þessum fundum verði uppbyggilegar þar sem fólk hefur heildarhagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi, og sé tilbúið að leggja sitt af mörkum í eigin nærsamfélagi til að skapa heilbrigðan skólabrag og öruggt umhverfi fyrir bæði nemendur og starfsfólk skóla þar sem einelti fær ekki þrifist.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum