Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

17. nóvember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp ráðherra Katrínar Jakobsdóttur á ráðstefnu um innleiðingu laga um framhaldsfræðslu

 

17. nóvember 2010, Hótel Saga

Ráðstefna um innleiðingu laga um framhaldsfræðslu - samstarf og samstaða um framhaldsfræðslu

Góðir ráðstefnugestir

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á þessa ráðstefnu um innleiðingu laga um framhaldsfræðslu.

Við höfum kosið að gefa ráðstefnunni yfirskriftina Samstarf og samstaða um framhaldsfræðslu. Ný lög um framhaldsfræðslu voru samþykkt á Alþingi 22. mars sl. og öðluðust þau gildi 1. október. sl. Þessi lög marka tímamót og við innleiðingu þeirra er mikilvægt að tryggja eftir bestu getu sameiginlegan skilning mismunandi aðila sem að málinu koma.

Í nýrri menntastefnu hefur verið lögð áhersla á fimm grunnþætti. Þeir eru læsi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi starf. Þeir tengjast allir innbyrðis og er ætlað að fléttast inn í allt fræðslu- og skólastarf með markvissum hætti. Grunnþættirnir snúast um skilning á samfélagi, umhverfi og náttúru á líðandi stund þannig að einstaklingar læri að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um að ungir sem aldnir öðlist þekkingu, getu og vilja til að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt.

Sams konar markmið má finna í nýjum lögum um framhaldsfræðslu (nr. 27/2010) þar sem veita á einstaklingum með stutta skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Í greinargerð með frumvarpi er talið að vinna við þetta markmið náist t.d. með þverfaglegri fræðslu. Grunnþættir eins og þeir hafa verið skilgreindir eru þverfaglegir og gætu því nýst vel til að vinna að þessu markmiði.

Í nýju lögunum leggjum við áherslu á að fræðslustarf hafi í senn hagræna en einnig menningarlega og samfélagslega skírskotun. Því var lögð á það þung áhersla að ný lög um framhaldsfræðslu næðu einnig til fólks sem stæði utan vinnumarkaðar og að sköpuð væru námstækifæri sem efldu einstaklinga sem gagnrýna og virka samfélagsþegna. Grunnþættirnir í nýrri menntastefnu eru eins konar leiðarljós í þeim efnum.

Á vegum ráðuneytisins hefur verið unnið markvisst að innleiðingu laganna síðustu mánuðina og verður farið nákvæmar yfir það hér á eftir. Hins vegar eru ýmsir þættir sem vinna þarf nánar og mikilvægt fyrir ráðuneytið, og alla aðra sem tengjast framhaldsfræðslunni, að staldra við, skiptast á skoðunum og draga saman efni og hugmyndir til að hafa sem veganesti í áframhaldandi vinnu við innleiðinguna.

Þetta ætlum við að ræða hér í dag Við munum spyrja spurninga og velta fyrir okkur ýmsum framkvæmdaatriðum. En við ætlum einnig að leyfa okkur að ræða stærri línur og varpa fram þeim spurningum hvort framhaldsfræðslulögin kalli á einhverjar róttækar breytingar. Til þess höfum við m.a. fengið prófessor Jón Torfa Jónasson sem ætlar að fjalla um ævimenntun, framhaldsfræðslu og skólakerfið. Hvað þarf að hugsa upp á nýtt? Ég er sannfærð um að aðrir fyrirlesarar munu einnig varpa fram hugmyndum sem verða munu kveikja að líflegum og hreinskiptum umræðum hér í dag.

Góðir gestir

Vöxtur þess fræðslukerfis sem dafnað hefur við hlið hins formlega skólakerfis undanfarin 10-15 ár hefur verið með miklum ágætum. Margir hafa þar lagt hönd á plóg. Samtök launafólks og atvinnurekenda hafa verið mikill drifkraftur, eins ýmis sveitarfélög og einstök fyrirtæki. Í heildina má segja að mikið og kröftugt hæfileikafólk hafi verið í fararbroddi og helgað sig uppbyggingu óformlega kerfisins. E.t.v. má segja að það hafi verið þessari starfsemi til góðs að hún hefur ekki verið fjötruð í lög, reglugerðir og líkön til þessa, heldur fengið að njóta frumkvæðis og krafts þeirra sem þar hafa starfað.

Símenntunarmiðstöðvarnar hafa t.d. verið fljótar að bregðast við nýjum aðstæðum og lagað fjölbreytt námsúrræði að námsþörfum atvinnuleitenda með skömmum fyrirvara. Sama má segja um raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf þar sem aðferðafræðin hefur verið þróuð á síðustu árum í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Þessir mikilvægu þættir hafa nú verið festir í lög. Að mínu mati var það löngu tímabært að setja lög um fullorðinsfræðslu og símenntun. Ákveðið kerfi hafði mótast og fjárveitingar aukist. Hins vegar vantaði lagastoð fyrir ýmsar skilgreiningar og hugtök er varða réttindi einstaklinga og stofnanna og það sem mestu máli skiptir réttindi einstaklinga og stofnana. Lagalegur rammi um fyrirkomulag fjárveitinga var heldur ekki fyrir hendi en er nú markaður í nýjum lögum.

Atvinnurekendur og launþegar hafa unnið afar mikilvægt frumkvöðlastarf í að þróa fullorðinsfræðslu hér á landi. Fullorðinsfræðslan sem slík er hins vegar ekki aðeins hagsmunamál þeirra heldur samfélagslegt verkefni, hluti af okkar samábyrga velferðarsamfélagi. Að sjálfsögðu munum við áfram treysta á náið samstarf við þá aðila sem hafa staðið fyrir þessu öfluga framhaldsfræðslustarfi hér á undanförnum árum þó sameiginleg ábyrgð og fjármögnum verði nú sterkari þáttur í þessum málaflokki.

Á vettvangi menntamála hafa orðið talsverðar breytingar undanfarin ár. Öll meginsvið menntakerfisins hafa verið tekin til endurskoðunar og ný löggjöf verið sett á öllum stigum kerfisins, þau síðustu ný lög um framhaldsfræðslu.

Við innleiðingu laga um framhaldsfræðslu geri ég mér vonir um að samstaða náist við hina ýmsu hagsmunaaðila, aðstandendur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, símenntunarmiðstöðvar, framhaldsskóla o.fl. um aukið samstarf til að hækka menntunarstig íslensku þjóðarinnar til aukinnar virkni í atvinnulífi og samfélaginu í heild. Jafnframt verði tryggt að menntun og færni sem verður til innan framhaldsfræðslunnar verði viðurkennd í framhaldsskólum og þeir sem þess óska geti bætt við menntun sína þar án hindrana. Til þess þarf að byggja upp og efla gagnkvæman skilning, virðingu og traust  og skapa samstarfi þessara aðila raunhæf skilyrði. Dæmi um hindranir sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir er fjárskortur í framhaldsskólum sem gerir það að verkum að nemendur, sem farið hafa í gegnum raunfærnimat, fá ekki tækifæri til að ljúka námi á námsbrautum framhaldsskóla. Þetta er samfélagslegt vandamál sem ráða verður bót á.

Ég tel mikilvægt að við störfum saman að því meginmarkmiði að veita fólki á vinnumarkaði með stutta formlega menntun, fólki sem horfið hefur frá námi án þess að ljúka námi á framhaldsskólastigi, innflytjendum og öðrum sambærilegum hópum tækifæri til að afla sér menntunar, bæta stöðu sína á vinnumarkaði og í samfélaginu sem heild. Þá þarf framhaldsfræðslan að greiða leið þeirra sem þurfa vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði á nýrri þekkingu og færni að halda. Með öflugri framhaldsfræðslu leita ég þannig eftir samstarfi við sem flesta um aukna lýðræðislega þátttöku í samfélaginu.

Ágætu ráðstefnugestir

Eins og ég nefndi í upphafi eru ýmsir þættir í innleiðingu laga umframhaldsfræðslu sem vinna þarf nánar og mikilvægt að staldra við, skiptast á skoðunum og draga saman efni og hugmyndir til að hafa sem veganesti í áframhaldandi vinnu við innleiðinguna. Ég vona að umræðurnar verði frjóar og ánægjulegar.

Sjáumst seinni partinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum