Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. febrúar 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn 2011, 8. febrúar 2011, Hilton hótel Nordica

Ágætu málþingsgestir,
Dear conference guests,
Mig langar til að bjóða ykkur velkomin á fyrsta samráðsmálþingið um Internetið sem haldið er hér á landi.
I would also like to thank Dr. William Drake and Mr. Lee Hibbard for attending this first Icelandic Internet Governance Forum and for taking time from their busy schedules to be keynote speakers at this Conference. We look forward to hear your views on the subject, to get an overview of developments in global Internet governance and the current issues. Welcome to snowy Iceland!
Hugmyndina að baki þessu málþingi er að finna á alþjóðavettvangi þar sem slíkt samráð hefur nú átt sér stað undir hatti Sameinuðu þjóðanna síðastliðin fimm ár undir heitinu „Internet Governance Forum“. Í kjölfarið hafa bæði einstök ríki og heimshlutar séð þörf fyrir slíkan samráðsvettvang í ljósi þess hvað Internetið er nú stór hluti af daglegu lífi okkar, bæði í leik og starfi. Hugmyndin að baki slíkum samráðsvettvangi er að skapa samræðu milli ólíkra hagsmunaaðila, eins og stjórnvalda, einkafyrirtækja, stofnana, fræðimanna, menntakerfisinsog almennra notenda á öllum aldri um framtíð Internetsins, en ljóst er að hugmyndir og framtíðarsýn þessara hópa er ólík, bæði innbyrðis og svæðabundið.

Þó að ráðstefnan sé nú haldin á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis og SAFT, er ætlunin að skapa samræðu á jafnræðisgrunni um brýn mál sem tengjast Internetinu og er það von mín að ólík sjónarmið og uppbyggjandi hugmyndir um framtíð og þróun Internetsins á Íslandi komi fram hér í dag. Jafnframt er það von mín að þessi samræða haldi áfram að ráðstefnunni lokinni, t.d. með því að póstlisti og/eða heimasíða/samskiptavefur verði sett á stofn til að áhugasamir geti áfram rætt þau fjölmörgu og brýnu mál sem tengjast Internetinu og sem sífellt þarf að taka afstöðu til.  
Ástæða þess hversu brýnt var orðið að efna til samráðs um málefni Internetsins, þróun þess og stefnumótun er mikilvægi Internetsins í öllum þáttum daglegs lífs. Fyrirtæki, stjórnvöld og stofnanir treysta á netið til upplýsingagjafar, til að veita þjónustu og til að eiga viðskipti. Netið er orðið einn megin miðillinn til að leita upplýsinga, fá fréttir, nýta tjáningarfrelsi, móta sér skoðanir, sinna áhugamálum, nota bankaþjónustu, eiga samskipti kjósa í rafrænum kosningum og margt fleira. Internetið er því orðið svo stór hluti af daglegu lífi fólks að fæstir gætu án þess verið.  Þó gilda engar alþjóðlegar reglur eða lög um Internetið og ekkert tryggir í raun áframhaldandi tilvist þess. Internetið er net neta. Það byggist upp á mörgum ólíkum fjarskiptanetum sem tengd eru saman, fjarskiptanet, sem flest eru í eigu einkaaðila. Einu reglurnar sem allir þurfa að fara eftir sem tengjast Internetinu er að fylgja þeim stöðlum sem settir hafa verið til að ólík fjarskiptanet og tölvur geti tengst sín á milli. Það er því EKKERT sem tryggir að Internetið muni áfram verða opið og aðgengilegt net í framtíðinni eins og við þekkjum það nú í dag.
Það eru ýmis teikn á lofti sem vekja okkur til umhugsunar um framtíðina. Það var óhugsandi fyrir aðeins nokkrum vikum að stjórnvöld ríkis gripu til þess ráðs að slökkva á Internetinu eins og gerðist í Egyptalandi fyrir skömmu. Hvorki var hægt að nota tölvur né farsíma til að ná netsambandi og þar með lágu nær öll samskipti um Internetið niðri um nokkurra daga skeið. Slík ráðstöfun hefur miklar afleiðingar, á öll þau fyrirtæki sem treysta á Internetið í viðskiptum, á allan almenning sem notar netið til upplýsingaöflunar og til að nýta tjáningarfrelsið, á opinberar stofnanir sem ekki geta veitt borgurum upplýsingar og svo mætti lengi telja.
Við sjáum einnig merki þess lokuðum netum innan Internetsins fjölgar óðfluga og aðeins þeir sem skrá sig, eins og t.d. Fésbókarnotendur fá aðgang að lokuðu neti sem hálfur milljarður manna um allan heim hefur þó aðgang að. Það sama á við um ýmsan hug og vélbúnað, þar sem efni er aðeins aðgengilegt þeim sem kaupa slíkan hug- og/eða vélbúnað. Nú er svo komið að margir velta því fyrir sér hvort og þá með hvaða hætti Internetið muni verða opið og aðgengilegt öllum netnotendum um allan heim í náinni framtíð?
Að sama skapi er sífelldur aukinn þrýstingur á stjórnvöld að bregðast við ólöglegu efni á netinu og að vernda almannahagsmuni. Lokun á síðum og síun vefsíðna fyrir notendur innan tiltekinnar lögsögu er því orðin algeng um allan heim. Þar reyna vestræn stjórnvöld að vega og meta hvaða leiðir eru færar til að vernda almannahagsmuni auk ólíkra stjórnarskrárvarinna réttinda eins og friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi, frelsi til upplýsinga, eignarrétt og atvinnufrelsi, svo eitthvað sé nefnt. En reynslan sýnir að stjórnvöld ríkja fara afar ólíkar leiðir við að útfæra þessi réttindi þegar Internetið er annars vegar. Svo er t.d í Kína stór hluti af Internetinu er alls ekki aðgengilegur kínverskum Internetnotendum þar sem búið er að loka svo mörgum síðum.
Til að sýna þann vanda sem stjórnvöld í ríkjum okkar heimshluta standa frammi fyrir hvað varðar aðgengi og stefnumótun má nefna tvö ólík dæmi. Þessi dæmi sýna jafnframt að erfitt er að staðsetja alla stefnumótun um Internetið miðlægt, t.d. í einu ráðuneyti sem færi með málaflokkinn Internetið, því stefnumótunin varðar á einn eða annan hátt flest ráðuneyti og fjölmargar stofnanir á vegum hins opinbera.
Ýmiskonar höfundarvarið efni er aðeins aðgengilegt netnotendum í tiltekinni lögsögu og heimilar ekki aðgang að efninu í öðrum löndum. Þetta fyrirkomulag getur gert notendum sem eru á ferðalögum erlendis eða sem dveljast tímabundið í öðru ríki erfitt fyrir að nálgast efni heima fyrir, efni sem kemur frá tilteknu menningarsvæði og er e.t.v. móðurmáli notandans. Í þessu tilviki togast á réttindi notenda annars vegar sem vilja fá aðgang að efni án tillits til landamæra og hagsmunir höfunda sem byggja viðskiptamódel sín á því að selja efni innan tiltekinnar lögsögu.
Annað dæmi tekur til almannahagsmuna og lýðheilsusjónarmiða. Í Noregi hafa stjórnvöld farið þá leið að loka fyrir greiðslur kreditkorta á netsíðum þar sem boðið er upp á happdrætti og fjárhættuspil sem ekki hafa leyfi norskra stjórnvalda. Reynslan þar sýnir að gríðarlegur kostnaður leggst á norska ríkið við að aðstoða spilafíkla sem notað hafa slíkar síður ótæpilega. Kostnaður ríkisins er talinn margfalt meiri en af þeirri happdrættisstarfsemi sem er háð verulegum takmörkunum og sem hefur fengið leyfi heimafyrir. Auk þess sem tekjurnar renna til ákveðinnar starfsemi, t.d menningar- eða íþróttastarfs og er því í raun óbeinn ríkisstyrkur í mörgum löndum þar sem happdrættis- og veðmálastarfsemi er leyfisskyld. Í þessu tilviki stóðu norsk stjórnvöld frammi fyrir því hvaða stefnu ætti að taka þegar hagnaður af starfsemi á netinu rennur til einkafyrirtækja í öðrum ríkjum en afleiddur kostnaður af starfseminni leggst á norska skattborgara.
Hér á eftir munum við fá að heyra í framsöguerindum hvaða álitamál eru helst á döfinni hvað varðar Internetið á alþjóðavísu. Mörg þeirra eiga eflaust einnig við hér á landi, enda stöndum frammi fyrir samskonar tækifærum og vanda og nágrannaþjóðir okkar.
Eftir hádegið verður boðið upp á sex ólíkar og spennandi málstofur þar sem ýmis brýn og mikilvæg álitamál er varða Internetið verða til umræðu.
Ég vona að allir ráðstefnugestir finni eitthvað við sitt hæfi í málstofunum og eigi eftir að taka virkan þátt í umræðum um Internetið og þróun þess hér á landi og vænti þess að ráðstefnan leiði til áframhaldandi umræðna ólíkra hagsmunaaðila og frekari stefnumótunar á þessu sviði.
Við megum þó ekki gleyma því að þetta málþing er haldið á Alþjóðlega netöryggisdaginn, en SAFT hefur undanfarin ár haldið ráðstefnu einmitt á þessum degi. Við viljum því nýta tækifærið og veita verðlaun í Evrópusamkeppni um besta barnaefnið á netinu.
Þessi Evrópusamkeppni er sameiginlegt átak fjórtán netöryggismiðstöðva í Evrópu og þeirra þjóða er starfa samkvæmt netöryggisáætlun Evrópusambandsins. Samkeppnin er nú haldin í fyrsta sinn og mun fara fram í tvennu lagi:
Fyrst er samkeppni á landsvísu sem fram fer í fjórtán löndum. Hún er skipulögð af netöryggismiðstöðvum í hverju landi fyrir sig.
Síðan fer fram Evrópusamkeppni í júní 2011 en þar etja sigurvegararnir úr landskeppnunum kappi.
Tilgangur samkeppninnar er að vekja athygli á gæðaefni fyrir 6 til 12 ára börn sem er nú þegar til staðar á netinu. Einnig er ætlunin að hvetja til framleiðslu á þess háttar efni. Markmiðið er að netefnið gagnist börnum á einn eða annan hátt svo sem við fræðslu og sköpun.
Samkeppnin er opin fullorðnum og ungu fólki á aldrinum 12 til 17 ára. Evrópusamkeppnin er einungis opin fyrir vinningshafa frá hverju landi fyrir sig. Þar verða tvenns konar verðlaun veitt. Annars vegar er um að ræða verðlaun fyrir efni frá fullorðnum og hins vegar verðlaun fyrir efni útbúið af unglingum.
Og ég óska sigurvegurunum hjartanlega til hamingju !

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum