Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

12. febrúar 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Opnunarávarp - Sýning sýninganna, Ísland í Feneyjum í 50 ár á Kjarvalsstöðum 5. febrúar 2011

Kæru gestir !
Feneyjatvíæringurinn hefur öðlast fastan sess í íslensku listalífi, og annað hvert ár fylgjast margir landsmenn náið með upphafi hinnar miklu alþjóðlegu myndlistarveislu í borginni þar sem listaheimurinn kemur saman til að fagna því sem þykir áhugaverðast í myndlistinni á hverjum tíma, og spá í hvað verður efst á baugi í náinni framtíð.
Hin síðari ár hefur hópur íslenskra listunnenda ferðast til Feneyja til að vera við opnun hátíðarinnar og fagna íslenska fulltrúanum á þessum alþjóðlegasta vettvangi myndlistarinnar. Menn hafa mætt á staðinn spenntir yfir því hvað viðkomandi hefði fram að færa, og hvort að framlagið næði að fanga athygli á alþjóðavettvangi með sama hætti og hér heima. Opnunar sýninganna hefur gjarnan einnig verið minnst fyrir góð partí, jafnvel tónlistarveislur sem margir minnast, þar sem íslenskir tónlistarmenn hafa jafnvel staðið fyrir mikilli gleði fram eftir kvöldi.
Feneyjatvíæringurinn hélt upp á aldarafmæli sitt 1995, og það er ljóst að frá þeim tíma hefur hann haldið áfram að eflast og festa sig enn frekar í sessi sem þessi eina og sanna „sýning sýninganna“ á alþjóðavettvangi. Eins og fram kemur á þessari sýningu á þátttaka Íslendinga í þessari hátíð myndlistarinnar sér styttri sögu, en á síðasta ári var hálf öld liðin frá því að fyrstu íslensku listamennirnir áttu verk á sýningunni, þeir Jóhannes Kjarval og Ásmundur Sveinsson. Hinn fyrrnefndi varð 75 ára á sýningarárinu, en sá síðarnefndi 67 ára, þannig að segja má að þeir hafi verið eins konar heiðurs-öldungar íslenskrar myndlistar á þeim tíma.
Ég sé ekki ástæðu til að rekja hér þátttöku Íslendinga í þessu ævintýri myndlistarinnar, það geta aðrir gert betur og um það fjallar sýningin í heild. Hins vegar er hér gott tækifæri til að staldra við og spyrja hinna áleitnu spurninga: Er regluleg þátttaka í Feneyjatvíæringnum fyrirhafnarinnar og peninganna virði fyrir íslenska myndlist? Skilar tvíæringurinn einhverju til hins almenna listunnanda hér á landi? Er þessi samkoma eitthvað meira en gott partí, þar sem listamenn og þeirra helstu aðdáendur koma saman, skjalla hver annan og lýsa því yfir hversu stórfenglegir þeir séu?  Og þessi spurning er raunveruleg því Feneyjatvíæringurinn var eitt af því sem kom til greina að skera niður í hinum mikla samdrætti ríkisútgjalda undanfarin þrjú ár.
Eftir nokkra íhugun held ég að flest rétthugsandi fólk komist að þeirri niðurstöðu að svörin við ofangreindum spurningum eru í öllum tilvikum:        - já, vissulega.   
- Feneyjatvíæringurinn er eini reglulegi alþjóðlegi myndlistarviðburðurinn sem við tökum þátt í, og um leið sá virtasti í heimi; þarna eru myndlistarmenn  okkar  meðal fulltrúa frá yfir 150 þjóðum og vandséð að annar vettvangur væri betri til að kynna íslenska myndlist á alþjóðavettvangi. Á tvíæringinn streymir áhrifafólk úr öllum listheiminum, og þar myndast sambönd sem geta komið öllu íslensku listafólki til góða til lengri tíma litið, hvort sem um er að ræða tækifæri til sýninga erlendis, sölu listaverka eða persónulegra sambanda sem geta leitt til annarra tækifæra.
- Hin síðari ár hefur myndast sú hefð að framlag íslenskra listamanna í Feneyjum hefur í kjölfarið verið sýnt hér á landi, og er skemmst að minnast sýningar Steingríms Eyfjörð í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi 2008 og sýningar Ragnars Kjartanssonar í Hafnarborg á síðasta ári. Slíkar sýningar veita íslenskum listunnendum gott tækifæri til að fylgjast með og meta á eigin forsendum þá dóma, sem íslensk myndlist hefur fengið hjá þeim sem fjalla um tvíæringinn sjálfan.
- Og jú, vissulega er opnun Feneyjatvíæringsins í júní annað hvert ár gott partí en um leið verður til umtalsverð reynsla á sviði alþjóðlegra samskipta í listum, þekking á framkvæmdaþáttum og þekkingarmiðlun, sem ætíð skilar sér til baka með einhverjum hætti til þeirra sem njóta myndlistarinnar hér heima – auk þess sem tugir eða hundruð þúsunda erlendra listunnenda, sem annars hefðu ekki til þess tækifæri, fá séð íslenska myndlist í alþjóðlegu samhengi. Íslensk myndlist þroskast ekki og þróast nema hún komist í tæri við alþjóðlega strauma og stefnur og um leið skilur hún sínu inn í alþjóðlegt myndlistarumhverfi.
Það er því vel þess virði fyrir okkur sem þjóð og fyrir íslensk stjórnvöld að halda áfram að styðja við bakið á þátttöku íslenskra myndlistarmanna í „sýningu sýninganna“, Feneyjatvíæringnum sjálfum.

Góðir gestir,
Það fennir fljótt í sporin, og sögulegt minni er oft stopult. Það er því gott að fá tækifæri sem þetta til að líta yfir farinn veg og sjá með hvaða hætti íslensk myndlist hefur verið kynnt á þessum alþjóðlega vettvangi í borginni frægu við Adríahaf síðustu hálfa öld; ég er þess fullviss að hér gleður margt augað.
Ég lýsi „Sýningu sýninganna“ formlega opna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum