Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

03. mars 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Opnun sýninganna „Viðtöl um dauðann“ og „Hljóðheimar“

26. febrúar 2011, Listasafn Íslands

Opnun sýninganna „Viðtöl um dauðann“ og „Hljóðheimar“

Eins og fram hefur komið erum við stödd hér í Listasafni Íslands í dag til að opna tvær sýningar.

Annars vegar er um að ræða sýningu sem hlotið hefur yfirskriftina „Hljóðheimar“. Þá framkvæmd væri raunar nær lagi að kalla röð sýninga, því þar mun hver viðburðurinn reka annan næstu þrjá mánuði í þéttri dagskrá þar sem fjölmargir listamenn koma verkum sínum á framfæri hver á eftir öðrum fremur en allir saman, eins og hefðbundnara er um samsýningar. Það gera þeir ýmist með innsetningum eða gjörningum, tónleikum eða flutningi hljóðs af öllu tagi við ýmsar aðstæður. Þessi aðferðafræði minnir okkur á hversu fjölskrúðug sú flóra er orðin, sem er hægt að skilgreina innan víðra marka myndlistar, marka sem eru í reynd sífellt að breytast eða flytjast til – sem að sjálfsögðu verður bæði til að kæta okkur og ergja í senn, því við þurfum stöðugt að vera að taka afstöðu á ný til hinnar síkviku spurningar um skilgreiningu myndlistar. Það verður því nóg að sjá – og hlusta á – innan „Hljóðheima“ hér í safninu næstu mánuðina.

Hin sýningin sem hér verður opnuð í dag er samvinnuverkefni læknis og listamanns og fjallar um viðtöl um dauðann. Hljóð tengja þessar tvær sýningar óneitanlega saman. Helga Hansdóttir, öldrunarlæknir, skapaði hinn fræðilega grundvöll sýningarinnar með rannsóknum sínum á viðhorfum aldraðra til lífs og dauða, læknisfræðilegrar meðferðar við lífslok og hvernig þessar hugmyndir tengjast. Í grein sem fylgdi sýningunni úr hlaði þegar hún var sýnd í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu 2003 lýsti Helga því hvernig hugmyndin að þessari samvinnu hennar og Magnúsar Pálssonar myndlistarmanns kviknaði nokkrum árum fyrr þegar hún kynntist hljóðverki Magnúsar í bakporti við hús í Þingholtunum. Það verk samanstóð af þremur hátölurum, þar sem einstaklingar lýstu draumum sínum – og Helgu varð hugsað til þess hvort að svörin sem hún fékk í sínum rannsóknum gætu með svipuðum hætti orðið að listaverki í höndum Magnúsar. Árangurinn sjáum við hér í dag, en nú er þetta verk í eigu Listasafns Íslands, eins og fram hefur komið.

Sumir segja að aðeins sé hægt að ganga að tvennu vísu í þessu lífi, þ.e. sköttunum og dauðanum; sá sé þó munurinn á, að dauðinn sækir okkur aðeins einu sinni, en skatturinn kemur aftur og aftur og aftur ... en ég er viss um að þetta er haft eftir einhverjum í stjórnarandstöðu.

Sigmund Freud sagði af nokkrum vísdómi að markmið alls lífs fælist í dauðanum, og það er margt til í þeirri fullyrðingu. Í ljósi hennar hlýtur hver og einn að fyllast auðmýkt við að kynnast þeim viðhorfum, sem viðmælendur Helgu setja fram um lífið og dauðann og Magnús hefur búið svo viðeigandi umgjörð í sýningunni. Hér kemur fram mannleg reisn án allrar tilgerðar, fölskvalaust raunsæi á lífið og tilveruna, ástúð og æðruleysi gagnvart dauðanum, sem allir viðmælendur horfast í augu við án kvíða og með þakklæti í hjarta fyrir það líf sem liggur að baki – og hafi það að markmiði að takast á við dauðann.

Góðir gestir,

Okkur er full þörf á því í dag sem endranær að vera minnt á lífsgildi af þessu tagi, og því er fengur að sýningunni „Viðtöl um dauðann“. Ég lýsi hana og sýninguna „Hljóðheima“ hér með opna.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum