Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

02. apríl 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Hvernig tryggjum við nýnemum skólavist í framhaldsskólum?

Í lögum um framhaldsskóla, sem sett voru árið 2008 er að finna ákvæði um að öll ungmenni 16-18 ára skuli eiga rétt á að stunda nám við hæfi í framhaldsskóla. Ekki er tilgreint nákvæmlega hvernig þessi réttur skuli tryggður en það hefur verið sameiginlegt verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis og  framhaldsskóla landsins að útfæra hann. Þar er forgangsatriði að tryggja öllum nýnemum skólavist og nám við hæfi. Talsverðar umbætur voru gerðar á fyrirkomulagi innritunar í framhaldsskóla vorið 2010 til að ná framangreindum markmiðum en þær voru:

 

1.      Innritun fatlaðra nemenda var flýtt.

2.      Forinnritun 10. bekkinga var tekin upp.

3.      Skólum í umsókn var fækkað úr fjórum í tvo (fyrsta og annað val).

4.      Framhaldsskólum var gert skylt að veita 10. bekkingum sem brautskráðust úr
         tilteknum grunnskólum forgang að skólavist með því að taka til hliðar a.m.k. 45%
         plássa fyrir þá nemendur svo fremi sem þeir uppfylltu inntökuskilyrði.

5.      Sameiginleg úrvinnsla umsókna þar sem tekið er fullt tillit til vals á skóla tvö fái
          umsækjandi ekki skólavist í skóla númer eitt.

6.      Innritun eldri nemenda var flýtt.

 

       Innritun nýnema vorið 2010 gekk í heildina vel. Um 95% umsækjenda fengu skólavist í öðrum þeirra skóla sem þeir völdu og 82% í skólanum sem þeir settu í fyrsta val. Mun greiðlegar gekk að tryggja öllum skólavist en áður en árið 2009 var stór hópur án tilboðs um skólavist allt fram í ágúst  Áberandi var að mun færri nemendur með góðan árangur í grunnskóla voru án skólavistar í lok innritunar vorið 2010 en árið áður.

 

Skiptar skoðanir hafa verið um þá ákvörðun að tryggja nýnemum forgang að framhaldsskólum eftir grunnskólum. Hefur aðferðinni verið lýst sem skipulegri mismunun á aðstöðu eftir búsetu og jafnvel átthagafjötrum. Því hefur verið haldið fram að hún komi í veg fyrir að nemendur fái skólavist á eigin verðleikum. Í umræðunni virðist gleymast að forgangurinn tekur aðeins til hluta nýnema í almennu námi og bóknámi sem skólarnir áforma að veita skólavist og er gert ráð fyrir að miðað verði við 40% plássa í ár. Einnig er horft framhjá því að 30% til yfir 95% nýnema hafa um árabil sótt nám í framhaldsskólum, sem teljast í þeirra nágrenni. Meðfylgjandi tafla sýnir hve margir nýnemar fengu skólavist í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu vorið 2010 og hve margir þeirra koma úr forgangsskólum.

 

Framhaldsskóli

Nýnemar alls

Úr forgangs- skólum

Úr öðrum grunnskólum

Borgarholtsskóli 235 141 94
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 268 153 115
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 189 107 82
Fjölbrautaskólinn við Ármúla 180 64 116
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 188 177 11
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ 39 31 8
Iðnskólinn í Hafnarfirði 77 34 43
Kvennaskólinn í Reykjavík 154 58 96
Menntaskólinn í Kópavogi 259 161 98
Menntaskólinn í Reykjavík 211 93 118
Menntaskólinn við Hamrahlíð 262 80 182
Menntaskólinn við Sund 221 113 108
Verzlunarskóli Íslands 306 83 223
Alls 2589 1295 1294

Um 50% nýnema á höfuðborgarsvæðinu koma úr grunnskólum sem eru forgangsskólar samanborið við um 40% árið 2009, þegar engin slík regla var við lýði. Bóknámsskólarnir fimm í Reykjavík tóku inn 1154 nýnema í fyrra. Þar af komu 427 úr forgangsskólum sem allir uppfylla inntökuskilyrði skólanna og langflestir hefðu fengið þar skólavist óháð forgangi (voru 330 vorið 2009). Hvað breyttist þá? Ljóst er að stærri hópur nemenda sækir nú framhaldsskóla í nágrenni heimilis en áður, sem hlýtur að teljast sanngjarnt, uppfylli þeir skilyrði til skólavistar og vilji stunda þar nám. Af hverju ætti að vísa þessum nemendum í skóla fjarri heimili og jafnvel sæta óvissu um skólavist vegna smávægilegs munar á einkunnum? Auk þess verður ekki séð að hið nýja fyrirkomulag skerði að neinu marki möguleika nýnema til að komast í skóla utan síns ,,svæðis“, hafi þeir mjög góðan undirbúning til þess að mati skólans.

Stóra verkefnið er að tryggja öllum nýnemum skólavist og til þess eigum við góða framhaldsskóla um allt land. Mikilvægast er að það sé gert á forsendum nemendanna sem eru að ljúka sínu skyldunámi. Þar þarf að ráða upplýst val byggt á styrkleikum og veikleikum hvers og eins, áhuga og áformum um framtíðarnám og störf. Mikilvægur þáttur í því er samstarf skóla á grunn- og framhaldsskólastigi. Grunnskólarnir þekkja nemendur sína og framhaldsskólarnir bjóða þá velkomna. Skipuleg tengsl grunn- og framhaldsskóla við innritun nýnema er liður í því að styrkja þetta nauðsynlega samband. Það er samfélagsleg skylda okkar að tryggja ungmennum nám við hæfi í framhaldsskólum. Það er trú mín að það sem hér hefur verið rakið feli í sér framfaraspor í átt að því marki. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum