Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Málþing í tilefni af 75 ára afmæli Arkitektafélags Íslands

5. nóvember 2011, Hótel Borg

Ágæta samkoma
Þegar byggingu aðalstöðva Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, í París var lokið, árið 1958, voru ummæli heimsins á einn veg: „Sigur mannsandans í steinsteypu“. Þessi orð voru notuð um hönnun byggingarinnar. Byggingin er sérstök og hönnun hennar einnig – enda er hún árangur teymis þriggja arkitekta Marcel Breuer, Pier Luigi Nervi og Bernard Zehrfuss auk þess sem bæði  Walter Gropius  og Charles Le Corbusier komu að verkinu. Allir þessir arkitektar höfðu hlotið heimfrægð á sínu sviði.
En byggingin er ekki aðeins einstök á sínu sviði heldur er henni ætlað það einstaka hlutverk að vera heimili friðar og framsækni alþjóðasamfélagins og endurspegla það í hönnun og viðmóti. Að letra málefni alþjóðasamfélagsins í veggi er nefnilega alls ekki létt verk en það sýnir hversu vandasamt hlutverk arkitektsins getur verið, að móta umgjörð og umhverfi sem fellur að smekk og viðmóti hins stóra fjölda, í þessu tilfelli án vísanna til þjóðlegra gilda.
Það er mér því sérstakt ánægjuefni að sjá að hér muni taka til máls fulltrúi norska fyrirtækisins Snöhetta – en þetta fyrirtæki vann hönnunarsamkeppnina um nýtt bókasafn í Alexandríu, sem einmitt tengist UNESCO og sigri mannsandans í steypu – órjúfanlegum böndum. Það sýnir enn fremur þá virðingu sem borin er fyrir Norrænni hönnun á alþjóðavettvangi.

Góðir gestir, arkitektúr er alvarlegur þáttur sem snertir samfélag og umhverfi sérhverrar manneskju og mótar líf okkar, beint og óbeint, dag hvern. Segja má að arkitektar séu hagyrðingar menningar og umhverfis. Það er ekki þeirra að móta eða leggja óskoraðar línur um hvernig manngert umhverfi okkar skuli líta út. Arkitektinn er viðhlæjandi náttúrunnar og hirðskáld samtímans en honum er ekki ætlað að yrkja bálkinn í heild. – Náttúran leggur til fyrsta versið en hagyrðingar hönnunar botna. Menntun og fagmennska arkitekta er því afar mikilvæg – svo að hönnunin rími við fyrri part náttúrunnar, að stuðlar og höfuðstafir séu á réttum stöðum og hið viðkvæma samband manns og náttúru sé í jafnvægi. Að yrkja hús í anda hinnar rímlausu skálmaldar fellur sjaldnast í góðan jarðveg,  á meðan vel hönnuð bygging er kallast á við umhverfið er ætíð til prýði.
Þetta á ekki síst við í samfélagi nútímans þegar við höfum gert okkur grein fyrir því hversu viðkvæmt samband manns og náttúru er orðið. Kröfur um sjálfbærni verða æ háværari og það með réttu og sambúð okkar við náttúruna þarf sífellt meiri ráðgjafar við. Ég vil sérstaklega lyfta þessu fram hér sem mennta- og menningarmálaráðherra því að undirstaða þess að við nálgumst umhverfi okkar af virðingu er að sú sérfræðiþekking sem við teystum verður að byggja á réttum og fræðilegum grunni. Menntun og fagmennska er lykilatriði í þessu samhengi.
Arkitektafélag Íslands fagnar nú 75 ára afmæli. Grunnurinn að þessu félagi liggur vitaskuld í hugmyndinni um fagmennsku og að nám í arkitektúr leiði til tiltekinnar hæfni. Þessa menntun ber að virða og að þessari sérhæfingu verður að hlúa með alúð, til að tryggja gæði hönnunar og fagmennsku í daglegu starfi. Endurskoðun gilda, rannsóknir og endurmenntun eru einnig þættir sem ekki má vanmeta. Ég er þess fullviss að hér á Íslandi höfum við margt til málanna að leggja í þessum málum. Nýlega var sýnt fram á gildi skapandi greina fyrir þjóðarbúið  - að hönnun hér á landi er metnaðarfullur atvinnuvegur með bjarta framtíð. Á sviði vistmenntar og vistvænnar hönnunar má sjá mörg sóknarfæri, bæði innanlands og erlendis.

Góðir gestir, ég óska ykkur kærlega til hamingju með afmæli Arkitektafélagsins. Ég vona að þið munið eiga hér ánægjulega samverustund í dag á þessu spennandi afmælismálþingi.
Takk fyrir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum