Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Skólaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga - Staða skólamála

4. nóvember 2011, Hilton Hótel Nordica

Ágætu skólaþingsgestir

Ég vil byrja á því að þakka Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir að standa í fjórða sinn að metnaðarfullu skólaþingi. Ég fagna því sérstaklega hversu mikið rúm er hér gefið til umfjöllunar um innleiðingu nýrra aðalnámskráa sem gefnar voru út í vor.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur undanfarið átt gott og fjölþætt samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga á sviði menntamála. Ég vil sérstaklega vekja athygli á samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um ytra mat á gæðum skólastarfs í grunnskólum.  Ég tel að reynslan af þessu formlega samstarfi ráðuneytisins og Sambandsins með tilstyrk Jöfnunarsjóðs sýni að með samstarfi er hægt að hrinda ýmsum málum í framkvæmd á hagkvæman og skilvirkan hátt og að rétt sé að skoða samstarfsmöguleika á fleiri sviðum.
Í framhaldi af setningu laga árið 2008 um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu nýrrar menntastefnu Undirstaða þeirrar vinnu er ritun og útgáfa reglugerða og útgáfa nýrra aðalnámskrá fyrir skólastigin þrjú. Á sama tíma hefur samfélagið þurft að kljást við afleiðingar bankahrunsins sem varð skömmu eftir gildistöku menntalaganna og mikil orka hefur farið í það að verja lögbundna grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga, mennta- og velferðarmál. Sveitarfélög og ríki hafa þurft að hagræða verulega í skólamálum og hafa útgjöld til leik-, grunn- og framhaldsskóla og íþrótta- og æskulýðsmála lækkað að raungildi um allt að 15% frá 2008 sem vissulega er ekki sársaukalaust. Á þessum erfiðu tímum hefur hins vegar komið í ljós að samfélagið gerir í senn kröfur og treystir á skólana okkar, leik- grunn- og framhaldsskóla sem undirstöðustofnanir, þar sem hlúð er að æskunni. Ég kann öllu okkar skólafólki þakkir fyrir að hafa staðið undir trausti almennings á þessum erfiðu tímum og um leið höfum við haldið ótrauð áfram þróunarstarfi og  unnið að innleiðingu laga og námskrár.

Ég mun í þessu yfirliti um stöðu skólamála fyrst fjalla um innleiðingu nýrra laga og námskráa en síðan ræða skipulag skólamála og skil milli skólastiga.

Innleiðing laga og námskrár
Nú er lokið útgáfu yfir 30 reglugerða við menntalögin frá 2008 en ekki verða allar reglugerðarheimildir nýttar að svo stöddu.  Ég vil nota tækifærið til að þakka Sambandi íslenskra sveitarfélaga og starfsfólki þess fyrir afar farsælt samstarf við setningu reglugerða við leik- og grunnskólalögin.
Síðasta reglugerðin sem gefin var út fjallar um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum.  Markmið þessarar reglugerðar er m.a. að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að efla og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru höfð að leiðarljósi.
Þá vil vekja athygli á því að með breytingum á grunnskólalögum vorið 2011 var bætt við heimild í grunnskólalög til að setja reglugerð um skólahald fósturbarna en nokkur misbrestur hefur verið á skólagöngu þeirra og deilur um ábyrgð og kostnaðarþátttöku. Ráðuneytið hefur nú skipað starfshóp til að útbúa tillögu að reglugerð fyrir lok febrúar 2012.  Þess er vænst að með þeirri reglugerð verði hægt að leggja skýrar línur um verklag, ábyrgð og skyldur aðila, en vilji löggjafans er skýr að öll fósturbörn eigi skilyrðislaust rétt á skólavist í lögheimilissveitarfélagi fósturforeldra.
Ráðuneytinu berast í auknum mæli kærur eða ábendingar vegna starfsemi grunnskóla sem varða m.a. fósturbörn, einelti og brot á ákvæðum um skólaskyldu.  Áður voru slík erindi oft afgreidd í símtali eða í óformlegri athugun og eftir atvikum fyrir milligöngu gagnvart hlutaðeigandi stjórnvöldum. Í kjölfar umfjöllunar í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis þar sem formleysi við afgreiðslu mála í stjórnsýslunni er sérstaklega gagnrýnt, hefur í ríkara mæli verið tekin upp formlegri afgreiðsla slíkra mála í ráðuneytinu. Ráðuneytið hefur ritað sveitarfélögum bréf og óskað upplýsinga með formlegum hætti þegar því berast ábendingar og kvartanir. Oft hefur þurft ítrekuð bréf ráðuneytisins vegna ófullkominna svara sveitarfélaga eða að ráðuneytið hefur beitt sér fyrir sérstökum frumkvæðisathugunum á afmörkuðum þáttum skólastarfs. Hafi úttektir leitt í ljós brotalamir er úttektinni fylgt eftir með tillögum um úrbætur, krafist umbótaáætlana og þeim síðan fylgt eftir. Með þessu nýja verklagi er leitast við að standa betur vörð um réttindi barna.

Nýjar aðalnámskrár

Nýjar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla voru gefnar út í maí sl. og er nú unnið að kynningu þeirra og innleiðingu. Í aðalnámskrám eru skilgreindir sex grunnþættir í menntun sem eiga sér stoð, hver með sínum hætti í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Grunnþættir í menntun eru skilgreindir í sameiginlegum inngangskafla í aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla en þeir eru: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigðis og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
Nýjum aðalnámskrám er og verður áfram fylgt eftir með ýmsum hætti. Ritun greinanámskráa fyrir grunnskóla er hafin og verða þær væntanlega gefnar út vorið 2012. Mikilvægt er að ríki, sveitarfélög og skólar stilli saman strengi við innleiðinguna með áherslu á að nýta bæði tiltæka starfskrafta og fjármagn í því skyni.
Ég vil nota tækifærið til að geta þess að gert hefur verið samkomulag milli mennta- og menningarmálaráðuneytis, Kennarasambands Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga og þeirra háskóla sem sinna sí- og endurmenntun um samstarfsvettvang um endurmenntun kennara. Einnig hefur ráðuneytið gert samning við menntavísindasvið Háskóla Íslands um samstarf um endurmenntun kennara vegna innleiðingar nýrra laga og aðalnámskrár. Miklar væntingar eru til þess að hægt verði að samhæfa framboð á nauðsynlegri endurmenntun kennara í samræmi við nýjar aðalnámskrár.  Í framhaldi af samkomulagi í tengslum við nýlega kjarasamninga leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara verða settir af stað starfshópar samningsaðila til að endurskoða vinnutímaþátt kjarasamninga, starfsþróun kennara og þróun skólastarfs í áttina að sameiginlegri framtíðarsýn.
Einnig þarf að huga að menntun leikskólakennara en viðvarandi skortur er á leikskólakennurum þó að vissulega sé staðan misjöfn eftir sveitarfélögum. Lög um leikskóla kveða á um að a.m.k. 2/3 stöðugilda þeirra sem starfa við menntun og uppeldis skulu hafa leikskólakennaramenntun. Á landsvísu er hlutfallið um 31% og er því langt í land að uppfylla lögin hvað það varðar. Þá höfum við upplýsingar um að umsóknum um leikskólakennaranám hafi fækkað mikið. Við þessu verðum við að bregðast og bind ég vonir við að helstu hagsmunaaðilar taki þar höndum saman til að sammælast um aðgerðir.
Ég tel ekki vænlegt að draga úr menntunarkröfum til leikskólakennara heldur beri að leita annarra leiða til að efla þessa fagstétt. Nú er á vegum samstarfsnefndar ráðuneytisins um leik- og grunnskóla væntanleg skýrsla um stöðu leikskólastigsins sem mun vera innlegg í mótun aðgerða á þessu sviði.

Læsi
Mikilvægur þáttur í innleiðingu nýrra námskráa verður áhersla á læsi. Ríkisstjórnin hefur sett það markmið að árið 2020 verði færni íslenskra grunnskólanemenda sambærileg við 10 efstu þjóðir samkvæmt OECD PISA rannsókninni á lesskilningi og læsi á stærðfræði og raungreinar.
Ljóst er að til þess að ná þessu markmiði þarf að vinna að breytingum á mörgum sviðum og efla starf  bæði í leik- og grunnskólum sem og samstarf milli þessara skólastiga. Við fögnum að sjálfsögðu síðustu PISA-könnun sem sýnir að við stefnum upp á við á þessu sviði og er það til marks um að skólar og sveitarfélög taka þetta verkefni alvarlega og vinna að úrbótum.
Nýlega úttekt ráðuneytisins á tíu leikskólum varpar ljósi á mikið og öflugt þróunarstarf  þar sem leikskólar hafa beitt sér sérstaklega á sviði málörvunar og lestrarnáms og er mikill áhugi hjá stjórnendum og starfsfólki á viðfangsefninu. Mikilvægt er að nýta sér slíkt þróunarstarf víðar í leikskólum.
Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg kemur fram að mikill munur er á lestrarárangri milli kynjanna. Um 16% fimmtán ára reykvískra nemenda er undir hæfnisþrepi 2 samkvæmt mælingum PISA en þessi hópur getur ekki lesið sér til gagns. Um 23% drengja í Reykjavík eru í þessum flokki en 9,0% stúlkna  og er munurinn því nærri þrefaldur.  Einnig kemur fram töluverður munur á milli skóla hvað varðar lestrarárangur og kynjamun.
Ráðuneytið vinnur nú að samskonar greiningu fyrir alla grunnskóla  í landinu og mun nýta niðurstöður hennar ásamt öðrum gögnum til að móta aðgerðir m.a. í tengslum við innleiðingu nýrrar námskrár. Ljóst er hins vegar að á þessu eru engar einhlítar skýringar, bent hefur verið á að þetta sé alþjóðleg tilhneiging og fjöldinn allar af ástæðum verið nefndur. Þetta þarf fyrst og fremst að greina betur og rannsaka sem og kynjamun á öðrum sviðum, eins og t.d. líðan barna, atlæti heima fyrir og svo framvegis.

Skipulag skólamála og skil milli skólastiga
Í kjölfar efnahagshrunsins og krafna um niðurskurð og hagræðingu í skólakerfinu hefur umræða um breytingar á skipulagi skólakerfisins og verkskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga verðið áberandi.
Ráðuneytið átti á sínum tíma samstarf við Sambandið um greiningu á tillögu sveitarfélaga um hagræðingu í grunnskólum. Ekki náðist þá samstaða um samræmdar aðgerðir en ég lagði áherslu á að ekki mætti skerða kennslutímafjölda grunnskólabarna nema um það næðist sátt meðal helstu hagsmunaaðila. Þá lagði ég áhersla á að sveitarfélög myndu leita allra leiða til hagræðingar sem ekki hefðu áhrif á lögbundna skyldu áður en fækkun kennslustunda kæmi til greina, þ.m.t. að sveitarfélög fullnýttu útsvarsheimildir sínar.
Í nýlegri ályktun stjórnar Sambands sveitarfélaga er varpað fram hugmyndum um róttækari breytingar á skipulagi grunnskóla og ég hvött samstarfs um skoðun á því að stytta grunnskólanám og að breyta skilum milli grunnskóla og framhaldsskóla. Er þar vísað í hugmyndir um setningu nýrra laga um skólakerfi sem taki á skilum milli skólastiga lengd námstíma og uppbyggingu menntakerfisins, skólaskyldu og fræðsluskyldu.
Eins og ég lýsti hér að framan er innleiðing nýrra námskráa nú hafin og mikið þróunarstarf framundan. Samhliða innleiðingunni vinnur ráðuneytið nú að mótun aðgerða til að draga úr brotthvarfi í framhaldsskólum  og efla starfsmenntun og læsi en bæði þau verkefni munu snerta grunnskólann og skil hans við framhaldsskólastigið. Ég held að það sé fyrsta skrefið því rannsóknir benda til að árangur á unglingastigi hafi mikið forspárgildi um árangur í framhaldsskólum. Brottfallið þarf því að skoða þvert á skólastig í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og mun ráðuneytið standa fyrir málþingi í samstarfi við OECD nú í nóvember þar sem þessi mál verða tekin til heildstæðrar skoðunar.
Annað atriði sem kemur til skoðunar þegar rætt er um skil skólastiga og skólakerfið er  fyrirkomulag valgreina á unglingastigi. Í nýlegri könnun sem ráðuneytið gerði meðal skólastjóra í grunnskólum svaraði nærri helmingur þeirra til að framboð valgreina væri óbreytt frá 2008 og 10% sögðu að það hefði minnkað nokkuð eða umtalsvert.
Einnig var grennslast fyrir um afstöðu skólastjóra til þess að auka val nemenda á unglingastigi í allt að þriðjung námstímans sem lögin frá 2008 gerðu ráð fyrir. Skólastjórar virðast skiptast nokkuð í tvo hópa, með og á móti aukningunni. Áberandi er hversu margir benda á að erfitt eða illmögulegt sé fyrir fámenna skóla að uppfylla lagaákvæðið. Þá nefna margir að ekki sé til fjármagn til að auka framboðið og að skortur sé á kennurum.
Alþingi ákvað á vorþingi að breyta ákvæðum um val nemenda á unglingastigi þannig að það verði fimmtungur námsins. Hefur þetta ákvæði þegar verið útfært í aðalnámskrá grunnskóla, en ljóst er að fjöldi grunnskóla nær ekki 20% vali á unglingastigi. Ráðuneytið áætlar að skoða aftur umfang valgreinakennslu haustið 2012 í tengslum við athugun á innleiðingu laga og námskrár en þegar við berum okkur saman við aðrar OECD-þjóðir kemur á daginn að fæstar þeirra voru með jafnhátt hlutfall og við í frjálsu vali á unglingastigi.
Annað atriði sem snertir skil skólastiga er sú staðreynd að vegna hagræðingar í framhaldsskólum hefur framlag til þeirra vegna nemenda í 10. bekk grunnskóla til að stunda nám í fyrstu áföngum framhaldsskóla verið fellt niður. Með heimild fyrir slíku fyrirkomulagi í lögum um grunnskóla var hugmyndin  sú að þannig gætu nemendur betur stjórnað skólagöngu sinni og jafnvel lokið fyrr lokaprófi á því skólastigi. Á árunum 2005-2010 stækkaði hópur þeirra sem nýttu sér boð framhaldsskóla en þeim hefur nú fækkað verulega.
Á síðasta vorþingi voru gerðar breytingar á grunnskólalögum þess efnis að ráðuneytið skuli setja reglur um framkvæmd og fyrirkomulag á rétti grunnskólanemenda til að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi. Undanfarin ár hefur verið virkur samstarfshópur í tengslum við innritun í framhaldsskóla, m.a. með fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og hefur sá hópur tekið að sér að fara yfir þessi mál í samræmi við vilja Alþingis og vinna drög að reglum.
Ég nefni fyrirkomulag valgreina á unglingastigi og nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum sem dæmi um sveigjanleika milli skólastiga sem vinna má að án  þess að ráðast í umfangsmiklar breytingar á skólakerfinu í heild. Hins vegar er líka mikilvægt að við skoðum  setningu laga um skólakerfið í heild á grundvelli faglegra sjónarmiða og metum þá þörf í kjölfar þeirrar vinnu sem fer fram á næstunni í tengslum við brottfall.
Á þessum stutta tíma hef ég farið yfir ýmsa þætti er varða stöðu skólamála og þurft að sleppa mörgu. Eitt vil ég þó nefna að lokum og það er samkomulag ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms til þriggja ára sem var undirritað þann 13. maí sl. en á grunni þess veitir ríkissjóður 480 milljónir til kennslukostnaðar í tónlistarskólum fyrir nám í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi. Á móti flytjast ákveðin verkefni yfir til sveitarfélaga, m.a. endurmenntunarsjóður grunnskóla, Námsgagnasjóður og fleiri sem nema230 milljónum og aukning á fjárframlögum til málaflokksins nemur því 250 milljónum. Þetta er fagnaðarefni og í kjölfarið verður lagt fram frumvarp til laga um tónlistarskóla nú í vetur.

Kæru gestir.
Skólamál varða okkur öll með einum eða öðrum hætti. Við þurfum sérstaklega á tímum sem þessum að vera vakandi til þess að tryggja að skólastarf bíði ekki skaða. Miklu skiptir að vinna áfram að framþróun skólastarfs og það er ánægjuefni að finna að nýjar námskrár hafa fengið jákvæð viðbrögð. Ég veit að sveitarstjórnir vítt og breitt um land hafa staðið frammi fyrir erfiðum ákvörðunum undanfarin misseri til að tryggja þá lögbundnu grunnþjónustu sem þeim ber að sinna. Krafa um hagræðingu og sparnað í þessum gjaldastærsta málaflokki sveitarfélaga er enn uppi og hana þurfa ríki og sveitarfélög áfram að ræða. Miklu skiptir að við höfum þá umræðu opna en gleymum ekki að þessir málaflokkar eru fjöregg okkar allra, því innan leik- og grunnskóla er lagður grunnur að framtíðinni. Þar þarf að halda vel á spöðunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum