Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

10. janúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Útgáfa aldarsögu Háskóla Íslands

hi
hi

Ágæta samkoma
Háskóli Íslands er í dag allt í senn, skóli þjóðarinnar og okkar helsta rannsóknarstofnun. Það er því skylda hans að færa þjóðinni sögu sína en um leið að tryggja að hún sé skráð af fagmönnum, - af sérfræðingum sem þekkja til efnisins og eru í framvarðasveit þeirra sem hafa sem sérsvið að nálgast leifar fortíðarinnar og búa hana í búning nútímans. Höfundar ritsins eru Guðmundur Hálfdánarson, Sigríður Matthíasdóttir og Magnús Guðmundsson en ritstjórn þess var í höndum Gunnars Karlssonar. Öll eru þau sagnfræðingar að mennt og samanlagt spannar starfs- og námsaldur þeirra við Háskóla Íslands gott betur en þá einu öld sem hér er sögð af  sögu skólans.
Hér hefur því verið vandað til verks og valdir til þess úrvals fræðimenn. Markmið ritsins er hvorki að skapa glansmynd af skólanum né draga fram gagnrýniverða þætti úr sögu hans heldur að gefa eins trúverðuga og heildstæða mynd af starfsemi hans og unnt er. Það er eðlilegt að menn geri þá kröfu til Háskóla Íslands að ritun aldarsögu hans gefi fordæmi um verk af þessu tagi, enda stendur sagnfræðikennsla við skólan á gömlum merg og hlutverk hennar er ríkulegt í þróun þjóðríkis hér á landi
Verkefnið er vandasamt. Hér er um að ræða stofnun sem hefur á einni öld vaxið frá því að telja tæplega sextíu manns en er nú rúmlega fjórtán þúsund manna samfélag. Saga Háskóla Íslands verður því að vera allt í senn, saga stofnunar, félagssaga menntunar og rannsókna og mótunarsaga íslensks stúdentamannlífs í heila öld. Og ekki má gleyma að saga háskólans endurspeglar sögu íslensku þjóðarinnar á einhverju mesta mótunarskeiði hennar og bregður birtu á þá gríðarlegu umbreytingar sem orðið hafa á íslensku fræðasamfélagi á tímabilinu.
Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því hversu mikilvægt það var fyrir íslensku þjóðina  að fá eigin háskóla hér á landi fyrir öld síðan.  Þegar íslenskir stúdentar sóttu um aldir Kaupmannahafnarháskóla fólst einnig í því ákveðinn tilgangur, að tryggja að íslenskir menntamenn tækju út sinn þroska í dönsku umhverfi og skóluðust í dönskum hefðum. Að fá eigin háskóla hér í Reykjavík, um leið og þjóðin fetaði sig varlega á hálli braut sjálfstæðisins var gríðarlega mikilvægt við mótun íslensks samfélags og þjóðarvitundar í heild sinni.
Góðir gestir, þegar ég horfi á þessa miklu og þungu bók, velti ég því fyrir mér hvort umfang hennar og mikilleiki endurspegli ekki einmitt hlutverk Háskólans í bókahillu hins íslenska samfélags. – Hún er stór í sniðum, vönduð og mikið til hennar kostað. Ég óska Háskóla Íslands innilega til hamingju með þetta góða rit.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum