Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

03. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Íþróttastarf í þágu þjóðarinnar

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, 28. janúar 2012.
Íþróttastarf í þágu þjóðarinnar
Íþróttastarf í þágu þjóðarinnar

Ávarp, sem Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti á 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands,  í Ráðhúsi Reykjavíkur 28. janúar 2012.
Forseti Íslands, ráðherrar, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, forystufólk íþróttahreyfingarinnar og aðrir góðir gestir
Ég vil hefja mál mitt á því að óska Íþrótta- og Ólympíusambandinu innilega til hamingju á þessum tímamótum. Það eru mjög merkileg tímamót þegar stærsta fjöldahreyfing landsins fagnar aldarafmæli sínu. Á þessum 100 árum hefur ÍSÍ verið samnefnari allrar íþróttahreyfingarinnar í landinu.  Þá er vert að minnast þeirra, sem sýndu þá framsýni að stofna ÍSÍ um það íþróttastarf, sem þá var til staðar í landinu. Ekki síður er mikilvægt að minnast þeirra fjölmörgu einstaklinga, sem á síðustu 100 árum hafa lagt sitt af mörkum til þess að íþróttastarfið í landinu hafi fengið að þróast og dafna til þess, sem það er í dag.
Frá upphafi hefur starf íþróttahreyfingarinnar byggst upp á sjálfboðaliðastarfi og er svo enn þrátt fyrir gjörbreytt umhverfi.  Ég ætla ekki að nafngreina einn umfram annan, sem sérstaklega er vert að nefna í sögu sambandsins,  enda veit ég þeirra er getið í því riti, sem hér á eftir verður afhent um hluta af sögu ÍSÍ í 100 ár. Rit Gísla Halldórssonar, heiðursforseta ÍSÍ,  um sögu Íslendinga á Ólympíuleikum, er einnig mjög gott innlegg í sögu íþrótta á Íslandi.  100 ára saga Ungmennafélags Íslands er einnig mikilvæg heimild og svo hafa héraðssamböndin og sérsamböndin gefið út sögurit hvert um sig, sem veitir okkur nánari þekkingu á þessari 100 ára sögu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.  
Íslendingar hafa ávallt haft mikinn áhuga fyrir íþróttum og hann hefur aukist í áranna rás. Við erum afar stolt af íþróttafólki okkar, sem nær árangri í alþjóðlegri samkeppni og oft sameinast þjóðin í áhuga sínum þegar íþróttafólk okkar keppir á stórmótum. Í mínum huga eru íþróttir ákveðin menning, sem hefur haft ótrúlega mikil áhrif í samfélaginu og er fyrir alla þá sem taka þátt í þessu starfi, ómetanleg lífsfylling.  Afreksfólkið okkar er toppurinn á ísjakanum, þar undir er stór fjöldahreyfing, ungir sem aldnir og ég efast um að almenn þátttaka í íþróttum sé nokkurs staðar jafn mikil hér á landi. Þetta má fyrst og fremst þakka ötulu starfi ÍSÍ og allra þeirra sambanda, íþróttafélaga og deilda um land allt, sem að sambandinu standa. Þetta eru að mínu mati helstu verðmætin sem íþróttahreyfingin og í raun öll þjóðin getur státað af.  
Kröfur samfélagsins  til ÍSÍ og íþróttahreyfingarinnar eru mjög miklar nú á tímum. Það þykir sjálfsagt að staðið sé mjög vel að öllu íþróttastarfi barna og ungmenna og að þar sé sýnd fagmennska í hvívetna. Mér sýnist íþróttahreyfingin hafi mætt þessum kröfum af einurð og náð góðum árangri í uppbyggingu starfsins í heild þrátt fyrir oft á tíðum þröngan kost. Fyrir þetta ber að þakka og má ekki líta á sem sjálfsagðan hlut. Komið hefur í ljós í rannsóknum hin síðari ár hversu mikið forvarnargildi þátttaka barna og ungmenna í íþróttum hefur. Þetta hefur m.a. gert það að verkum að umgjörð starfsins hefur breyst til hins betra að mínu mati og það er mikilvægt að við höldu áfram á þeirri vegferð að bæta enn frekar umgjörð íþróttastarfsins. Mér þykir athyglisvert hvernig ÍSÍ hefur tekist að fá landsmenn til að taka þátt í  almenningsíþróttum með ýmsum verkefnum, til dæmis Lífshlaupinu, Hjólað í vinnuna og Kvennahlaupinu.  Ekki síst verð ég þessa áhuga vör á mínum vinnustað, þar sem flestir starfsmenn taka þátt í einhverjum af þessum verkefnum, ráðuneytið er allt á iði þegar þau standa yfir!
Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út sl. haust nýja íþróttastefnu. Í henni er tekið á mörgum helstu atriðum sem snerta íþróttastarfið í landinu. Ég er mjög ánægð með viðbrögð íþróttahreyfingarinnar við þessari stefnu en geri mér jafnframt grein fyrir því að mikilvægt er að unnið verði að því að ná þeim markmiðum, sem stefnt er að og það munum við gera í sameiningu.
Í tilefni af afmælinu ákvað ríkisstjórn Íslands að veita Íþrótta- og Ólympíusambandinu 30 milljónir.  Mig langar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að óska hreyfingunni hjartanlega til hamingju og þakka allri íþróttahreyfingunni sem að baki stendur fyrir hið mikla íþróttastarf í þágu þjóðarinnar.  


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum