Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

03. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar ráðstefnu Iðnmenntar

Katrín Jakobsdóttir ávarpaði fulltrúa á ráðstefnu Iðnmenntar, sem haldið var 3. febrúar sl. undir fyrirsögninni „Starfsmenntun, skóli – atvinnulíf. Gildi starfsmenntunar í íslensku samfélagi“.

Mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar ráðstefnu Iðnmenntar
Mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar ráðstefnu Iðnmenntar

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur á ráðstefnu Iðnmenntar, sem haldið var 3. febrúar sl. undir fyrirsögninni „Starfsmenntun, skóli – atvinnulíf. Gildi starfsmenntunar í íslensku samfélagi“.
Ágætu fundarmenn!
Ég vil þakka forsvarsmönnum Iðnmenntar fyrir tækifærið til að ávarpa þessa ráðstefnu. Starfsmenntamál eru nú í mikilli deiglu og þarft að þeir aðilar sem hér eru saman komnir: atvinnulíf, skólar, ráðuneyti og rannsakendur, leiði saman hesta sína í samræðu um þennan mikilvæga málaflokk.  
Spurt er hver sé stefna mennta- og menningarmálaráðuneytis í iðn- og starfsmenntun í grunn- og framhaldsskólum?  Segja má að almenn stefna ráðuneytisins sé mörkuð í lögum um þessi skólastig, reglugerðum sem settar hafa verið í samræmi við þau og í nýjum aðalnámskrám sem gefnar voru út síðastliðið vor. Einnig tekur starfsmenntastefna mið af sérstökum áherslum stjórnvalda og samkomulagi þeirra við atvinnulífið og má þar nefna 2020 áætlunina og Nám er vinnandi vegur, átak í mennta- og atvinnumálum.
Ráðuneytið vinnur nú að frekari mótun þessarar stefnu með sérstökum verkefnum í samstarfi við starfsgreinaráð, greiningarvinnu í samvinnu við OECD og umræðufundum um starfsmenntamál.  Ráðuneytið mun síðan hnýta saman enda í þessari stefnumótun  í samstarfi við starfsgreinanefnd, sem skipuð er formönnum starfsgreinaráða.
Að baki þessari vinnu býr það sjónarmið að ná sem víðtækastri samstöðu um nýskipan í starfsmenntun á Íslandi bæði til skemmri og lengri tíma
Ég lít svo á að starfsmenntakerfið á Íslandi hvíli á þremur stoðum: ráðuneyti, starfsmenntaskólum og atvinnulífi. Ráðuneytið sér um stefnumótun og fjármögnun, fer með framkvæmdavaldið og á að sjá um að lögum og reglugerðum sé framfylgt. Starfsmenntaskólar sjá um fagbóklega og verklega kennslu nemenda, en fyrirtækin annast síðan vinnustaðanámið. Allir þessir aðilar verða að vinna vel saman ef vel á að takast til um menntun nemenda. Enginn kemur í annars stað.
Ég mun nú víkja að helstu þáttum starfsmenntastefnunnar í ljósi þeirra forsendna sem ég nefndi hér að ofan.
Segja má að í nýrri aðalnámskrá framhaldsskóla birtist almenn menntastefna sem liggja á til grundvallar frekari mótun starfsmenntunar. Í námskránni eru skilgreindir sex grunnþættir sem hafa verið vel kynntir og þið þekkið. Grunnþættirnir geta vísað veginn  bæði hvað varðar innihald almennrar menntunar og starfsmenntunar.  Sem dæmi má nefna að grunnþátturinn sjálfbærni tengist uppbyggingu menntunar fyrir ný störf í grænu hagkerfi framtíðarinnar.
Ráðuneytið vinnur  að því að skilgreina hæfniviðmið fyrir starfsmenntabrautir í samstarfi við starfsgreinaráð.  Útfærsla viðmiðarammans og hvernig hann er nýttur við mótun starfsnáms skiptir  miklu mál um þróun þess innan nýrrar námskrár.
Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er það hlutverk skólanna að útfæra námsbrautir sem ráðuneytið vottar. Þeir munu hafa það hlutverk að útfæra grunnþætti í tengslum við starfsmenntun og skilgreina brautir á hæfniþrep. Þar skiptir máli að hlustað sé á þarfir atvinnulífsins fyrir menntun og að þróun starfsmenntunar taki mið af framtíðarþörfum íslensks atvinnulífs. Í þessu samhengi vil ég nefna að Ísland mun taka þátt í verkefni á vegum Starfsmenntastofnunar Evrópusambandsins, Cedefop,  um greiningu á þörfum atvinnulífsins fyrir menntun í framtíðinni, Skills Forecasting.
Mikilvægur þáttur sem lýtur að skipulagi starfsmenntunar er vinnustaðanám. Ég mun víkja frekar að þessum þætti síðar, en almennt er viðurkennt að efla eigi hlut vinnustaðanáms í starfsmenntun og þar með ábyrgð fyrirtækja og stofnana í menntun sinna framtíðarstarfsmanna.  
Það má vera ljóst af þessari lýsingu að í  þeirri almennu starfsmenntastefnu sem birtist í lögum, reglum og námskrám er lagður víður rammi fyrir mótun starfsnáms í landinu.  Mennta- og menningarmálaráðuneyti vinnur nú að frekari útfærslu þessarar almennu stefnu og mun ég nú drepa á helstu atriði í þeirri vinnu.
Til þess að fá fram ólík sjónarmið um starfsmenntun efndi  mennta- og menningarmálaráðuneytið til fundarraðar, sem ber yfirskriftina Starfsmenntun – hvert skal stefna? Haldnir hafa verið 11 fundir fyrir hin ýmsu svið starfsmenntunar þar sem fulltrúar skóla, fyrirtækja, starfsgreinaráða, nemenda og náms- og starfsráðgjafa hafa komið saman til þess að ræða málefni starfsmenntunar á sínu sviði. Tæplega 500 manns hafa tekið þátt í fundunum hingað til.
Fundirnir hafa verið afar vel heppnaðir og mikil ánægja ríkt með þá. Einkum hefur verið lærdómsríkt að heyra raddir nemenda, því að það er einmitt þeirra vegna sem við viljum bæta starf okkar.
Meðal þess sem fólk hefur nefnt á þessum fundum er að það þurfi að bæta ímynd starfsmenntunar og þeirra starfa sem hún leiðir til og jafnframt að kynna starfsnám betur gagnvart nemendum, ekki síst nemendum grunnskóla. Nefnt hefur verið að nemendur grunnskóla þurfi að fá kynningu á starfsnámi mun fyrr en nú er og njóta leiðsagnar náms- og starfsráðgjafa sem eru vel upplýstir um möguleika starfsnáms og líta á það sem raunhæfan kost. Hér væri einnig hægt að efla og auglýsa betur keppnir eins og Íslandsmót iðn- og verkgreina þannig að þær næðu eyrum og augum grunnskólabarna og foreldra þeirra.
Þá hefur verið á það bent að nemendur líta ekki síst til fyrirtækja þegar þeir velja sér starfsvettvang og að á sumum sviðum hætta 60% nemenda í námi eftir að hafa reynt fyrir sér á vinnustað. Því hljóta fyrirtækin að leika lykilhlutverk þegar kemur til þess að halda nemendum í starfsnámi, ekki síður en skólarnir.  Brotthvarfið er ekki eingöngu fólgið í því að nemendur flosna upp úr námi í skóla, heldur hætta þeir störfum í fyrirtækjum vegna þess að þeim líst ekki á vinnustaðinn eða á þau störf sem eru í boði. Hér er greinilega verk að vinna og við verðum að fá fyrirtækin í lið með okkur við að gera nám og störf meira aðlaðandi og taka betur á móti nemendum og sinna þeim vel.  Allt fellur þetta vel að áherslum í nýjum námskrám.
Ráðuneytið hefur upp á síðkastið tekið þátt í tveimur verkefnum í samstarfi við OECD annars vegar um brotthvarf og hins vegar um mótun starfsmenntunar á svokölluðu 4. þrepi viðmiðaramma, eða fagháskólastigi, eins og það hefur einnig verið kallað. Varðandi síðara verkefnið þá er nú unnið að greiningarskýrslu þar sem nám er tekur við að loknum framhaldsskóla er kortlagt. Í ágúst munu síðan sérfræðingar á vegum OECD koma í heimsókn, rýna stöðu mála hér, bera hana saman við önnur lönd og veita ráðgjöf um framtíðaruppbyggingu.
Sem hluta af verkefninu um brotthvarf  var haldin ráðstefna hér á landi í nóvember sl. þar sem ræddar voru ýmsar ábendingar frá OECD um íslenska menntakerfið og brotthvarf nemenda. Meðal þess sem þar kom fram var að íslenska starfsmenntakerfið vantaði aðdráttarafl og að spyrja mætti hvort gæði náms væru nægilega mikil. Þarna er átt við gæði í þeim skilningi að atvinnulífið metur ekki starfsmenntun og gerir ekki kröfur um að fá menntað fólk til ýmissa starfa sem í öðrum löndum krefjast starfsmenntunar. Spurt var hvort námið væri nógu áhugavert og viðeigandi þegar brotthvarfið úr því væri svona mikið. Þetta eru spurningar sem við verðum að leita svara við í áframhaldandi samstarfi, bæði OECD, og annarra sem málið varðar.
Í sambandi við framangreindar vangaveltur má spyrja hversu markvisst atvinnulífið er í að koma óskum sínum og ábendingum um þörf fyrir menntun og útfærslur á þeim til skóla og stjórnvalda.
En víkjum nú að vinnustaðanámi.
Ein af ábendingum OECD um það sem betur má fara í starfsnámi á Íslandi lýtur einmitt að vinnustaðanámi. Sérfræðingar stofnunarinnar benda á það að starfsnám á Íslandi sé of skólamiðað og að það þurfi að huga að því að auka vinnustaðaþáttinn í starfsnámi. Við í ráðuneytinu höfum velt þessu sama fyrir okkur, þ.e. hvort ekki sé líklegt að með tilkomu vinnustaðanámsstyrkja megi færa ákveðna þætti námsins aftur út til fyrirtækjanna. Þar með myndi væntanlega losna um tiltekið fjármagn sem mætti nýta til þess að efla vinnustaðaþáttinn enn frekar. Þetta viljum við að menn íhugi með okkur.
Spurt hefur verið hver aðkoma skóla ætti að vera að vinnustaðanámi? Við í ráðuneytinu viljum ekki taka ábyrgðina á þessum þætti starfsmenntunarinnar frá fyrirtækjunum, heldur viljum við að þau komi með virkum hætti inn í kennsluna og sinni henni af fagmennsku og metnaði. Við viljum styðja þau til góðra verka, við teljum að framlag þeirra til starfsmenntunar sé ómetanlegt, að ekkert geti komið í stað vinnustaðanámsins.
Samskipti fyrirtækja og skóla hefur verið veikur hlekkur í starfsmenntun og það verður verðugt viðfangsefni okkar sem störfum að menntamálum að takast á við úrbætur í þessum efnum á næstu árum. Klárlega þarf að koma á fyrirkomulagi þar sem fyrirtæki og skólar eiga samskipti um þá nemendur sem þessir aðilar annast, samskipti sem einkennast af gagnkvæmri virðingu, trausti og vilja til þess að veita nemandanum sem besta þjónustu. Nemandinn og nám hans á alltaf að vera í forgrunni. Hvert form eða fyrirkomulag þessa samstarfs á að vera get ég ekki sagt. En ég beini því til fyrirtækja og skóla að ganga í lið með okkur, sameinast í því verkefni að byggja upp samskiptakerfi til framtíðar sem virkar.  
Að lokum er rétt að víkja að framkvæmd stefnunnar
Við stöndum nú á tímamótum í frekari mótun og innleiðingu starfsmenntastefnu. Sá rammi sem settur er fyrir þróun menntunar á þessu sviði í lögum og námskrá er víður og mikið veltur því hvernig unnið er að framkvæmd hennar á næstu misserum.
Með samkomulagi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins hefur fjármagni verið veitt til þróunarverkefna í starfsmenntun sem hluta af átakinu Nám er vinnandi vegur.  Á þessu ári og því næsta verður varið samtals 600 m.kr. til ýmissa verkefna sem hafa það að markmiði að efla starfstengt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi og auka þátttöku fólks í starfsnámi. Verður fljótlega tilkynnt um ráðstöfun þessa fjármagns en þar er horft til þess að þróa nýtt námsframboð sem getur vakið áhuga ungs fólks.  Er þar lögð sérstök áhersla á styttri starfsnámsbrautir og nám á 4. þrepi viðmiðarammans.
Í þessu átaki felst einnig að veitt verður 150 m.kr. í vinnustaðanám í ár og næstu tvö árin, samtals 450 m.kr. Með þessu framlagi verður unnt að þróa vinnustaðanám samhliða nýjum starfsnámsbrautum. Nýlega skilaði nefnd á mínum vegum tillögu að frumvarpi um vinnustaðanámssjóð sem ég hyggst leggja fram á þessu þingi. Ég hef nýlega fengið athugasemdir frá starfsmenntaskólum við frumvarpið sem teknar verða til skoðunar í ráðuneytinu. Hvað varðar þær athugasemdir vil ég vísa í orð mín hér að ofan um nauðsyn þess að fyrirtæki eigi hlutdeild í þróun vinnustaðanáms og að virkt samtal sé milli þeirra og skóla um skipulag og framkvæmd þess.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun áfram vinna að því að ná sem víðtækastri samstöðu um þá stefnumótun sem nú er í gangi og miðar að nýskipan í starfsmenntun á Íslandi. Unnið hefur verið markvisst að greiningu og gagnaöflun og sem flestir aðilar hafðir með í opnum umræðum um málaflokkinn.   Niðurstöður þessarar vinnu og helstu línur í frekari stefnumótun um starfsmenntun verða kynntar á ráðstefnu sem ráðuneyti stendur fyrir þann 23. apríl næstkomandi. Næsta vetur á að afmarka viðfangsefnið frekar og stefna að samstöðu um þær breytingar sem gera þarf til að efla starfsmenntun á Íslandi.
Ýmislegt fleira mætti tína til og nefna sem dæmi um þau viðfangsefni á sviði starfsmenntunar sem framundan eru en ég læt staðar numið að sinni. Þó  að ytri skilyrði hafi ekki verið mjög hliðholl síðari árin tel ég vera töluverða grósku í starfsnámi. Vonandi heldur þessi gróska áfram og vil ég þakka ykkur sem hér eruð stödd fyrir ykkar framlag til eflingar starfsmenntunar á Íslandi.
Óska ég ykkur ánægjulegrar ráðstefnu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum