Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

21. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Dagur menntunar í ferðaþjónustu

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur um starfsmenntun á degi starfsmenntunar í ferðaþjónustu, 16. febrúar 2012.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur á degi menntunar í ferðaþjónustu, 16. febrúar 2012, sem haldinn var á Hilton hóteli í Reykjavík.

Dagur menntunar í ferðaþjónustu

Ágætu fundarmenn!
Mér er það heiður að fá að ávarpa þennan fund um mikilvægi fræðslu og endurmenntunar í ferðaþjónustu.  Ferðaþjónustan er e.t.v. sá geiri atvinnulífsins sem gefur flest tilefni til að bjóða hagnýtt nám, til styttri eða lengri tíma, sem miðar að því að auka færni fólks til starfa. Nú þegar stendur fólki ýmislegt til boða, hvort heldur er á framhaldsskóla- eða viðbótarstigi eða í framhaldsfræðslu. Hér mætti nefna nám eins og Færni í ferðaþjónustu I og II sem veitt er í Menntaskólanum í Kópavogi. Einnig mætti velta fyrir sér snertiflötum náms í ólíkum kerfum og hvort leiðir einstaklinga í gegnum námið séu nógu greiðar.
Starfsmenntamál eru almennt í mikilli deiglu þessi missirin og ýmislegt að gerast, sem ástæða er til að nefna. Vil ég þar einkum nefna þrennt:
Mennta- og menningarmálaráðuneytið efndi til fundaraðar í vetur, sem ber yfirskriftina Starfsmenntun – hvert skal stefna? Tilgangurinn með fundunum var að fá fram sjónarmið ýmissa þeirra, sem koma að mótun starfsmenntunar,  heyra um stöðu mála og fá fram upplýsingar um það sem brennur á fólki í hinum ýmsu geirum starfsnáms. Haldnir hafa verið 11 fundir fyrir mismunandi svið starfsmenntunar þar sem fulltrúar skóla, fyrirtækja, starfsgreinaráða, nemenda og náms- og starfsráðgjafa hafa komið saman til þess að ræða málefni starfsmenntunar á sínu sviði. Tæplega 500 manns hafa tekið þátt í fundunum hingað til. Þrátt fyrir að menntun á sviði ferðaþjónustu hafi fengið umfjöllun á einum fundinum, er dýrmætt að aðilar vinnumarkaðarins boði til fundar sem þessa í dag, þar sem kastljósið er eingöngu á ferðaþjónustunni. Ekki veitir af.
En svo ég víki aftur að fundunum þá hefur verið á það bent að nemendur líta ekki síst til fyrirtækja þegar þeir velja sér starfsvettvang og er fullyrt að á sumum sviðum hætti allt að 60% nemenda í námi eftir að hafa reynt fyrir sér á vinnustað. Því hljóta fyrirtækin að gegna lykilhlutverki við að  halda nemendum í starfsnámi, ekki síður en skólarnir.  Brotthvarfið er ekki eingöngu fólgið í því að nemendur flosna upp úr námi í skóla, heldur hætta þeir störfum í fyrirtækjum vegna þess að þeim líst ekki á vinnustaðinn eða á þau störf sem eru í boði. Hér er greinilega verk að vinna og við verðum að fá fyrirtækin í lið með okkur við að gera nám og störf meira aðlaðandi, taka betur á móti nemendum og sinna þeim vel.  
Ráðuneytið hefur upp á síðkastið tekið þátt í tveimur verkefnum í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina, OECD, annars vegar um brotthvarf og hins vegar um mótun starfsmenntunar á svokölluðu 4. þrepi viðmiðaramma, eða fagháskólastigi. Haldin var ráðstefna hér á landi í nóvember sl. þar sem ræddar voru ýmsar ábendingar frá OECD um íslenska menntakerfið og brotthvarf nemenda. Meðal þess sem þar kom fram var að íslenska starfsmenntakerfið vantaði aðdráttarafl og það væri álitaefni hvort gæði náms væru nægilega mikil. Þarna er átt við gæði í þeim skilningi að atvinnulífið metur ekki starfsmenntun og gerir ekki kröfur um að fá menntað fólk til ýmissa starfa, sem í öðrum löndum krefjast starfsmenntunar. Spurt var hvort námið væri nógu áhugavert og viðeigandi þegar brotthvarfið úr því er svona mikið. Þetta eru spurningar sem við verðum að leita svara við í áframhaldandi samstarfi viðOECD og aðra,sem málið varðar.
Í þriðja lagi vildi ég nefna átaksverkefni ríkisstjórnarinnar Nám er vinnandi vegur, sem er átak í mennta- og atvinnumálum.  Á þessu ári verður varið 300 milljónum króna til ýmissa verkefna, sem ætlað er að efla starfstengt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi og auka þátttöku fólks í starfsnámi. Verður fljótlega tilkynnt um ráðstöfun þessa fjármagns og erí því sambandi meðal annars horft til þess að þróa nýtt námsframboð, sem getur vakið áhuga ungs fólks.  Lögð er sérstök áhersla á styttri starfsnámsbrautir og nám á 4. þrepi viðmiðarammans, sem ég vék að áðan. Í þessu átaki felst einnig að veitt verður 150 milljónum króna í vinnustaðanám í ár og næstu tvö árin, samtals 450 milljónum króna. Með þessu framlagi verður unnt að þróa vinnustaðanám samhliða nýjum starfsnámsbrautum.
Loks er þess að geta að nýlega gerði nefnd á mínum vegum tillögu að frumvarpi um vinnustaðanámssjóð, sem ég hyggst leggja fram á yfirstandandi þingi.
Góðir tilheyrendur
Ég nefni þessi atriði hér vegna þess að ég held að þau varpi ljósi á þau margvíslegu verkefni, sem blasa við okkur í starfsmenntun og jafnframt til hvaða ráða stjórnvöld hafa gripið  til að efla og bæta starfsnám. Ég tel að margt af því eigi erindi við þá, sem vilja efla starfsmenntun í ferðaþjónustu, ekki síður en aðra og því vil ég að þið vitið af þeim og kannið með hvaða hætti þeir geta gagnast ykkur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum