Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. mars 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Háskóladagur 2012

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Háskóladeginum 2012 í Háskólanum í Reykjavík


Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Háskóladeginum 2012 í Háskólanum í Reykjavík

Kæru gestir.

Á undanförnum árum hefur háskólastigið vaxið til muna hér á landi. Nýir háskólar hafa náð fótfestu og námsframboð hefur verið aukið, sérstaklega í rannsóknatengdu námi til meistaragráðu og doktorsgráðu. Ungu fólki standa því fleiri og fjölbreyttari kostir til boða en fyrr og það er til bóta, bæði fyrir þá sem standa frammi fyrir valinu – nema kannski fyrir þá sem þjást af alvarlegum valkvíða – og fyrir samfélagið í heild sinni, sem þarf á fólki að halda með fjölbreytta menntun og þjálfun.

Við megum ekki gleyma að það eru forréttindi að hafa val um háskóla og að hafa yfir höfuð möguleika á að sækja háskólanám. Á því hefur orðið mikil breyting á Íslandi á mjög skömmum tíma. Víða um heim er það enn forréttindi fárra að geta sótt háskólamenntun. Skemmst er að minnast atburðar í Suður-Afríku í síðasta mánuði þegar öngþveiti braust út er tugþúsundir ungmenna reyndu að skrá sig til náms við háskólann í Jóhannesarborg, með skelfilegum afleiðingum.

Stjórnvöld hafa stutt þennan vöxt háskólastigsins, þrátt fyrir niðurskurð að undanförnu, sem við lítum á sem tímabundið ástand. Háskólarnir hafa unnið með yfirvöldum í því að mæta þessum niðurskurði eftir fremsta megni, ásamt því að opna háskólana og taka á móti fleiri nemendum. Þrátt fyrir augljósa mótsögn í þessum aðgerðum þá er staðreyndin sú að aldrei hafa fleiri nemendur stundað nám við íslenska háskóla og nú.  Það er full ástæða til að hafa áhyggjur ef  niðurskurður verður langvarandi og fer að hafa áhrif á rannsóknir og menntun á Íslandi til framtíðar. Það tekur vissulega mörg ár að byggja upp öflugt starf í háskóla og áhrif þess að loka námsbrautum og draga úr rannsóknarstarfi geta verið mikil til lengri tíma og hugsanlega einnig  á samkeppnishæfni Íslands. Það verður því að stíga varlega til jarðar, því ekki má slaka á gæðum háskólastarfs á Íslandi. En ég vil ítreka að það er stefna stjórnvalda að auka framlög til háskóla og rannsókna um leið og rekstur ríkisins nær betra jafnvægi.

Ég minntist á gæði háskólastarfs. Gæðaráð háskólanna er nýtekið til starfaog nú er verið að  undirbúa fyrstu  háskólaúttektina eftir stofnun þess og er það einmitt Háskólinn í Reykjavík sem verður fyrstur í röðinni. Ég ber miklar væntingar til starfs gæðaráðsins og að það muni leiða til betra  og gagnasærra eftirlits með gæðum háskólastarfs hér á landi.

Eins og ykkur er sjálfsagt  vel kunnugt um þá starfa sjö háskólar á Íslandi, nokkuð sem kemur á óvart hjá svo fámennri þjóð. Ítrekað hefur verið bent á að fækka ætti háskólum og fá þar með stærri einingar með meiri samstarfi og jafnvel mögulegri sérhæfingu.  Á árinu 2010 gaf ég út stefnu um opinbera háskóla, sem fól m.a.  í sér samstarf  um stofnun samstarfsnets þeirra með hugsanlega sameiningu í huga. Markmiðið er þríþætt: Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun, sem styrkir framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags. Í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna til  að fjármunir nýtist sem allra best. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu.

Samstarf opinberu háskólanna hefur gengið nokkuð vel og meðal annars má nefna að þeir gerðu á síðasta ári með sér samning um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við skólana. Samningurinn hefur þegar tekið gildi og munu nemendur geta skráð sig í námskeið í öðrum skóla en þeir skráðu sig í upphaflega, án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga, sem gestanemandinn tekur með þessum hætti. Þetta er mikilvægt skref í samstarfi háskóla og til mikilla hagsbóta fyrir nemendur. Við væntum þess að einkareknu háskólarnir muni einnig sjá sér hag í að taka þátt í samstarfsnetinu með einhverjum hætti.

Í dag er Háskóladagurinn haldinn hátíðlegur og allir háskólar á Íslandi kynna alla þá fjölmörgu möguleika sem þeir bjóða upp á. Háskólinn í Reykjavík kynnir námsframboð sitt hér í sínu húsnæði. Í Háskólabíói verða  Háskólinn á Akureyri, Hólaskóli-Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Keilir og norrænir háskólar með kynningu á sínu námi. Háskóli Íslands kynnir starfsemi sína á ýmsum stöðum á háskólasvæðinu. Háskólinn í Bifröst mun verða í Norræna húsinu.

Það verða því kynningar og ýmsir viðburðir á vegum allra  háskólanna hér í Vatnsmýrinni í dag og án efa fjölmargt áhugavert bæði fyrir verðandi háskólanema  og aðra sem leggja leið sína í Vatnsmýrina í dag.

Mig langar í lokin til að vekja athygli á kynningu háskóla frá nágrannaríkjum okkar, sem verður í Háskólabíói. Þó að námsframboð hafi aukist mikið hér á landi undanfarin ár þá er enn mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að mennta okkur einnig í útlöndum. Það eykur fjölbreytni og víðsýni í samfélaginu og kemur í veg fyrir stöðnun, ekki síst í háskólasamfélaginu. Ég álit það vera mikinn styrk fyrir íslenska háskóla að hafa kennara og vísindamenn sem búa að reynslu og menntun, sem sótt er bæði innanlands og erlendis.

Ég hvet ykkur til að skoða vel háskólana og námsframboðið og nálgast það með opnum huga. Það er stór ákvörðun sem þið standið frammi fyrir, en hún er líka afar spennandi.

Ég lýsi Háskóladaginn 2012 settan og vona að þið njótið dagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum