Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

19. apríl 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra flutti predikum á skátamessu í Hallgrímskirkju á sumardaginn fyrsta

Á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 2012, flutti Katrín Jakobsdóttir predikun á skátamessu í Hallgrímskirkju.

Forseti Íslands, kæru skátar, kæru gestir.

Sumarið er gengið í garð samkvæmt dagatalinu. Sem betur fer halda Íslendingar enn hátíðlegan þennan gleðidag, sumardaginn fyrsta, sem raunar er stundum lítt sumarlegur. Þórarinn Eldjárn orti gott kvæði um þennan ágæta dag sem kallast Sumardagurinn frysti. Þar segir meðal annars:

 

Menn elta sífellt ólar

við öfl sem landið hrista:

Enginn sá til sólar

á sumardaginn frysta.

---

Mjóir menn og feitir

marga hlutu gusu.

Léku lúðrasveitir

lög sem úti frusu.

 

Sem betur fer frystir ekki í dag þó að enn sé ekki orðið verulega hlýtt. En eins og sonur minn orðaði það í gær: Á sumrin er ekki alltaf heitt en þá er bjart og þá eru allir úti að leika. Það er öruggt merki þess að sumarið gengur í garð að skyndilega tínast börn út úr öllum húsum og fara að leika sér á öllum mögulegum og ómögulegum leiksvæðum. Þau snúa rjóð og sæl heim og húsin fyllast af „útilykt“ – við loftum út og þetta er ekki ólíkt því að koma úr kafi, oft eftir langan og dimman vetur.

Það gleður mig fátt meira en að heyra óminn af útileikjum barna sem færir mér heim sanninn um að ennþá fara íslensk börn út að leika og finna þar alls kyns ævintýri í hversdagslífinu. Ímyndunaraflið lifir enn góðu lífi, sem betur fer.

Sjálf ólst ég upp við hliðina á Laugardalnum þegar hann var einn mói og ekki enn deiliskipulagður samkvæmt kröfum nútímans. Þar voru þá enn skurðir og búskapur á einum bæ og engir fullorðnir nærri og vissu ekkert af öllum ævintýrunum sem ég og mínir vinir úr nærliggjandi blokkum lentum. Við lögðum planka yfir skurði og földum okkur í háum stráum, lékum indjána og kúreka, löggur og bófa. Ekki þarf að taka það fram að ég var strax orðin stjórnmálamaður af lífi og sál, ég reyndi alltaf að vera annars vegar indjáni (og standa með minnihlutanum) og hins vegar lögga (í liði með réttvísinni). En núna er Laugardalurinn  löngu orðinn þrælskipulagður og er reyndar frábært útivistarsvæði þó að það sé með öðrum hætti en hina gömlu góðu daga.

Ég er líka orðin háöldruð allavega miðað við ungskátanna í þessari messu og margt hefur breyst frá mínum bernskuárum. Líf barna og unglinga er orðið talsvert skipulagðara og meira framboð er af alls kyns starfi, hvort sem er skólastarfi eða frístundastarfi. Sumir sakna gamalla tíma, frelsis og tímaleysis sem margir tengja fortíðinni, en ég hygg þó að fleiri fagni faglegu frístundastarfi þar sem börn kynnast krefjandi verkefnum og fá tækifæri til að rækta ýmsa og ólíka hæfileika.

Þar hafa skátarnir svo sannarlega skipt máli. Skátarnir fagna hundrað ára afmæli sínu í ár og margt hefur auðvitað breyst í samfélaginu frá árinu 1912 en Skátafélag Reykjavíkur var stofnað þá upp úr skátaflokki sem Ingvar Ólafsson stofnaði 1911 en sá flutti hugmyndir skátahreyfingarinnar heim frá Danmörku. Friðrik Friðriksson var svo aðalhvatamaðurinn að stofnun skátafélagsins Væringja innan vébanda KFUM en séra Friðrik var mikill brautryðjandi í íslensku æskulýðsstarfi, og stóð ekki aðeins að starfsemi KFUM heldur einnig skátanna, stofnaði líka reykvíska íþróttafélagið Val og raunar fleiri íþróttafélög, þeirra á meðal eitt sem bar nafnið Hvatur – og hefur ekki átt sama árangri að fagna og Valur.

Saga skátanna er áhugaverð og ekki síst er gaman að skoða gamlar skátabækur, barnabækur, sem sumar hverjar eru hugsaðar í uppeldisskyni og segja frá ævintýrum ungra skáta. Ungskátarnir lenda gjarnan í miklum hremmingum en komast í gegnum þær með hugprýðina að vopni eða eins og segir aftan á skátasögunni Ylfingahópur Simma sem kom út íslenskri þýðingu 1950 hjá Úlfljóti: „Þó fer svo að lokum að ylfingunum [sem eru ungir og hraustir skátar] tekst að sigra „Rauðu Loppuna“ [sem er óaldarflokkur ungra drengja] — ekki með hrekkjum og brellum — heldur með góðmennsku sinni og yfirburðum. Flestar eru sögurnar sagðar „hollar aflestrar“ og á einni þeirri sem heitir einfaldlega Ljósálfarnir og kom út á íslensku 1951 stendur að sagan kenni „börnunum hvernig þau eigi að koma fram til gagns og ánægju fyrir mömmu og pabba“. Ég bendi öllum foreldrum á þetta lesefni!

Já, það hefur margt breyst á sextíu árum frá því að þessar bækur komu út og víst er að íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á þeirri öld sem Skátarnir hafa verið til og gengið í gegnum heila iðnbyltingu með tilheyrandi þróun borgarsamfélags. Sífellt fleiri búa í þéttbýli og eru þar af leiðandi ekki í daglegri snertingu við náttúruna. Nú er það svo að á Íslandi er náttúran líklega sýnilegri en víðast hvar annars staðar enda landið strjálbýlt og ósnortin víðerni einn mesti fjársjóður sem við eigum. Margar einstakar náttúruperlur má líka finna innan þéttbýlis. Eigi að síður er það svo að mörg börn eru keyrð á milli staða og komast því miður sjaldan í snertingu við náttúruna sjálfa. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur er heimurinn í auknum mæli að verða manngerðari.

Þegar ég tók þátt í stofnun Náttúruskóla Reykjavíkur var ein af ástæðum þess að í grunnskólum Reykjavíkur fundu menn fyrir því að þeim börnum fór fjölgandi sem ekki höfðu kynnst mold nema af afspurn, aldrei gróðursett, vaðið í læk eða fylgst með briminu í fjörunni.  Því var farið í sérstakt átak í svokallaðri útikennslu og æ fleiri skólar tóku upp vettvangsnám þar sem börnin fengu að þreifa á náttúrunni í bókstaflegum skilningi. Á þessum vettvangi hefur einmitt verið virkt samstarf við skátana sem hafa einmitt staðið fremst í flokki í að kenna börnum að spjara sig í náttúrunni, bera virðingu fyrir henni og bera skynbragð á að maður og náttúra hljóta alltaf að þurfa að lifa saman í friði.

Þó að ýmsir telji að skátarnir eyði sínum tíma fyrst og fremst i að hnýta hnúta (sem er í sjálfu sér gagnlegt og nytsamlegt) þá eru hnútahnýtingarnar einkum  táknrænar fyrir að kunna að bjarga sér úti í náttúrunni en fyrsta markmið íslensku skátahreyfingarinnar er að skátar sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu. Þetta skiptir miklu máli í heimi sem í og með glímir við vandamál sem spretta af því að menn hafi gengið of langt fram án þess að sýna umhverfinu virðingu.

Markmið skátahreyfingarinnar – sem margir þekkja fyrst og fremst út frá kjörorðinu ÁVALLT VIÐBÚINN – eru áhugaverð fyrir alla þá sem hafa áhuga á samfélagsþróun því að þau sýna að skátahreyfingin hefur fylgst með samfélagsbreytingum og þróast í takt við tímann. Í markmiðunum er meðal annars lögð áhersla á að taka tillit til skoðana og tilfinninga annarra, efla baráttu gegn ranglæti og fyrir betra samfélagi og áhersla lögð á að vera skapandi og sjálfstæð í hugsun, orði og verki – sem er einmitt það sem eru stærstu áhersluatriðin í nýrri námskrá – þar sem lögð er áhersla á lýðræðislega virkni, skapandi og sjálfstæða hugsun og gagnrýna og ábyrga umræðu.

Skátahreyfingin hefur sýnt mikið frumkvæði í ýmsum samfélagslegum verkefnum, meðal annars við að fræða ungmenni um umferðaröryggi og dreifa endurskinsmerkjum, og þá hefur hreyfingin staðið fyrir öflugri kynningu á íslenska fánanum og kynnt fánareglurnar og fánann fyrir æsku landsins og almenningi. Það er full ástæða til að vekja athygli á þessari þróun skátanna sem sýnir að samtökin hafa breyst og þróast og taka hlutverk sitt alvarlega og skipta okkur miklu sem störfum að æskulýðsmálum hér á landi. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna okkur á að það skiptir miklu hvernig við búum að börnunum okkur, hvort sem er í skólunum, frístundastarfinu eða þá heima við. Framtíð þessa samfélags snýst um hvernig við hugsum um börnin – og markmiðið er að öll börn fái tækifæri til að leyfa hæfileikum sínum að njóta sín.

Í mínum huga er þessi tími, vorkoman, tími barnanna. Rétt eins og græðlingarnir gægjast fram, eru börnin að hefja vegferð sína, reyna að fóta sig í lífinu. Það er okkar hinna að búa þeim heilbrigt umhverfi, hlúa að þeim – efla þau og styrkja. Ef það tekst getum við verið ánægð með að skila af okkur nýrri og betri kynslóð.

Ég hvet okkur öll til að hugsa vel um æsku þessa lands og fagna um leið sumarkomunni – þetta er dagurinn þar sem við ákveðum að vera bjartsýn, ákveðum að sumarið sé komið hvernig sem viðrar, og hleypum sjálfum okkur út í vorið eins og kálfunum í sveitinni. Njótum þess tíma sem framundan er, og munum hvað við eigum mikinn fjársjóð í okkur sjálfum, þjóðinni, og náttúru þessa lands.

Gleðilegt sumar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum