Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. apríl 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Opnun hátíðarinnar Laxness í lifandi myndum

Katrín Jakobsdóttir opnaði kvikmyndahátíð í Bíó Paradís með myndum sem gerðar voru eftir verkum Halldórs Laxness
Kvikmyndahátíðin „Laxness í lifandi myndum“ var opnuð í Bíó Paradís
23. apríl 2012 og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp við það tilefni.


Góðir gestir

„Ég er með geysileg prójékt í höfðinu, sem ég get ekki trúað neinum fyrir sem stendur, en ég lofa þér því að eftir nokkur ár skaltu heyra mig öskra ofan af húsaþökunum í stórri borg, - líklega ofan af skyscraper.“

Þetta ritaði Halldór Laxness í bréfi til góðvinar síns Kristjáns Albertssonar árið 1927 þegar hann var nýkominn til Vesturheims. Ekki er hægt að segja annað en að Halldór hafi tekið ameríska drauminn með trompi – væntingar hans voru alla vega slíkar að ekkert dugði annað en að setja stefnuna á Hollywood og „semja 10 kvikmyndir“ eins og hann sagðist ætla að gera í bréfi til annars vinar síns, Erlends Guðmundsonar í Unuhúsi.

Halldór Laxness áttaði sig fullvel á áhrifamætti kvikmyndarinnar sem svo oft hefur verið nefnd merkasta listform tuttugustu aldarinnar og hann taldi sjálfur þá „lýðræðislegustu skemmtun sem upp hafi verið fundin.“

Í hugvísindum á borð við sagnfræði eru orð eins og ef og hefði ekki sérlega vinsæl til brúks eða líkleg til fræðilegs árangurs, en það má á mjög svo óvísindalegan máta velta fyrir sér hvernig ferill kvikmyndagerðarmannsins Halldórs Laxness hefði mögulega geta þróast ef Halldór og Hollywood hefðu smollið betur saman. Þetta er ekki síst áhugvert að hugleiða nú, 85 árum síðar, þegar Íslenskir listamenn eru svo sannarlega farnir að fá stór tækifæri í draumaverksmiðjunni miklu á strönd Kyrrahafsins og leika þar í myndum, vinna við klippingar, semja tónlist – meira að segja leikstýra stórmyndum.   

Það var e.t.v. okkar lán að Halldór Laxness eða Hall d‘Or eins og sumir í kvikmyndabransanum (in movie circles) vildu kalla hann þar vestra, náði ekki lengra sem filmurithöfundur í Vesturheimi. Um leið má þó auðvitað velta fyrir sér hvort kvikmyndasagan hafi þarna orðið af miklum meistaraverkum. Um þetta er erfitt að dæma, því eins og menn vita mæta vel eru þær margar kvikmyndirnar sem ekki ná fram að ganga, bæði þar vestra og víða annars staðar.  Allavega fór það svo að drög Halldórs að kvikmyndahandritum urðu aðeins drög.

Ísland var á þessum tíma, og líklega oft síðan, ekki nægilega stórt svið fyrir listamann á borð við Halldór Laxness. Svo fór að honum leist ekki nægilega vel á kvikmyndaiðnaðinn og hann var gagnrýninn á listrænt gildi draumaverksmiðjunar sem var á þessum árum að ræsa sínar miklu vélar. Talkvikmyndir voru að koma til sögunnar einmitt um þetta leyti og kvikmyndaiðnaðurinn í mikilli deiglu.

Sagan af væntingum Halldórs til kvikmyndabransans er í dag forvitnileg ungum íslenskum listamönnum sem í síauknum mæli leggja land undir fót með fjölbreytta listsköpun sína frá Íslandi til að syngja, leika, stýra eða skrifa fyrir heiminn. Um þessa þrá og þessar væntingar má lesa í bréfum Halldórs og bókunum, sem hafa verið ritaðar um lífshlaup hans.

Hér á þessari hátíð sem nú er að hefjast eru það hinar lifandi myndir af verkum Laxness og af honum sjálfum sem eru í forgrunni. Kvikmyndaðlögun á miklum bókmenntaverkum getur reynst vandasamt verkefni og margar af persónum og atvikum í bókum Laxness er vart hægt að sjá fyrir sér á hvítu tjaldi. En í sumum tilvikum hefur tekist vel til og kvikmyndaaðlögunin hefur haft jákvæð áhrif á upplifun lesandans af sígildum verkum skáldsins. Þannig er Sigurður Sigurjónsson í huga margra hinn eini sanni Umbi í Kristinhaldinu, hafi maður séð myndina. Það er erfitt að þurrka leikarann út og smíða annan Umba í kollinum við lesturinn. 

Margar kvikmyndanna sem gerðar hafa verið eftir verkum Halldórs eru merkur vitnisburður um íslenska kvikmyndagerð á ákveðnum tímaskeiðum, en einnig merkar þegar við hugsum um viðtökur og tilfinningu fyrir verkum Halldórs sem þjóðin hefur ræktað með sér í gegnum árin.

Eitt hundrað og tíu ár eru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness og vitanlega má víða greina spor hans í íslenskri menningu, ekki aðeins í bókmenntalífinu. Verk hans koma inn á fjölmörg svið íslenskra lista og menningar. Mikið verk er óunnið í greiningu verka hans, ævisögur hafa treyst grundvöllinn, leikgerðir eru unnar og loks eru það kvikmyndirnar sem hafa bæði gert höfundinum og verkum hans skil á ýmsan hátt.

Það er gaman að sjá að ólíkir aðilar í íslensku menningarlífi komi saman til að standa að slíkri hátíð: Gljúfrasteinn vitanlega, Bíóparadís, Ríkisútvarpið, Kvikmyndasafn Íslands, framleiðendur og leikstjórar myndanna.

Aðstandendum óska ég til hamingju með hátíðina og gestum góðrar skemmtunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum