Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

04. júní 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

30 ára afmæli Blindrabókasafns Íslands

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á 30 ára afmæli Blindrabókasafns Íslands

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á 30 ára afmæli Blindrabókasafns Íslands, 25. maí 2012.

Ágætu gestir

Við erum hér saman komin til að fagna 30 ára afmæli Blindrabókasafns Íslands. Og það er sannarlega ástæða til að fagna, því safnið hefur ætíð leitast við að gegna sínu hlutverki í samræmi við óskir og þarfir þeirra sem því ber sjá fyrir bókasafnsþjónustu samkvæmt lögum um safnið.  

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast úr hæfilegri fjarlægð með þeim stóru skrefum sem safnið hefur stigið á sínu sviði á síðustu árum. Fjöldi virkra lánþega þess hefur þrefaldast á fjórum árum, og felst mesta breytingin í fjölda lesblindra nemenda, sem áður höfðu í fá hús að venda til að leita sér aðstoðar á menntabrautinni. Nú munu lesblindir vera nær 70% af þeim sem safnið þjónar, og er það svipuð þróun og annars staðar. Er fagnaðarefni að sú þjónusta, sem upphaflega var ætluð eingöngu fyrir blinda og sjónskerta getur þannig komið fleirum að gagni.

Til að mæta kröfum um aukna þjónustu hefur safnið undanfarin ár stigið stór skref við nýtingu nútímatækni. Mikil vinna fólst í að yfirfæra efni safnsins af snældum yfir í stafrænt form, ný heimasíða var tekin í notkun, og nú ber hæst tilkoma nýrra þjónustukerfa sem voru innleidd á síðasta vori, þegar segja má að safnið hafi stigið inn í nýja tíma. Fyrir vikið er ekki lengur nein bið eftir efni, lánþegar geta fengið óskir sínar uppfylltar með sérsniðnum tölvudiskum eða með beinu niðurhali á efni í gegnum netið. Þá eru hafnar tilraunir með notkun á streymisspilara, sem gerir notendum mögulegt að hlusta á bækur beint úr bókakosti safnsins í stað þess að hala þeim niður. Í náinni framtíð verður áhugavert að fylgjast með hvernig tekst til við næstu áfanga, t.d. í notkun á talgervli til að lesa efni á rafbókarformi. Ef vel gengur opnast þarna ótæmandi möguleikar með stórbættu aðgengi allra lánþega safnsins að efni t.d. tímarita og dagblaða, en forsendan fyrir þessari þjónustu er að til verði nýtilegur talgervill á íslensku. Hér eru spennandi verkefni í undirbúningi, og ég óska safninu alls hins besta við næstu áfanga í starfseminni.

Það er ekki að ósekju að fjölmargir hafa tekið eftir hinu kraftmiklu starfi Blindrabókasafnsins undanfarin ár. Þannig veitti SFR safninu titilinn „Fyrirmyndarstofnun 2011“ í samræmi við niðurstöðu könnunar VR og SFR meðal ríkisstarfsmanna og annarra starfsmanna á vinnumarkaði, og nýlega var tilkynnt að safnið hefði hlotið þessa viðurkenningu á ný á þessu ári. Safnið hlaut einnig á síðasta ári sérstaka viðurkenningu frá nýsköpunarvef Háskóla Íslands fyrir nýsköpun í opinberum rekstri vegna yfirfærslu snældubóka á stafrænt form og bættrar þjónustu við lánþega safnsins. Og síðast en ekki síst má nefna að þegar safnið leitaði eftir stuðningi við að koma verkefnum sínum í höfn var svörun meðal lánþega ótrúleg, en styrkir frá þeim til safnsins námu nær 5 m.kr. á síðasta ári.

Góðir gestir,

Á þessum afmælisdegi getum við verið stolt af Blindrabókasafni Íslands, þeim verkefnum sem það hefur komið til leiðar, og þeirri þjónustu sem starfsfólk safnsins kappkostar við að innleiða á næstu árum. Framboð efnis eykst stöðugt, og samkvæmt nýjustu fréttum fær nú stór hópur lesenda óskir sínar uppfylltar: Loksins, loksins hafa allar 47 bækurnar um Ísfólkið verið lesnar inn og eru til útláns hjá Blindrabókasafninu.

 

Ég óska lesendum – eða réttar sagt hlustendum – þeirra og öðrum lánþegum bóka safnsins til hamingju með áfangann, þakka starfsfólki safnsins fyrir öflugt starf, og óska þeim og öllum velunnurum safnsins til hamingju með daginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum