Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

18. júní 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðMRN Fréttir

Ávarp á vef Opnun Ísmúss gagnagrunnsins

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við opnun gagnagrunnsins Ísmús í Salnum í Kópavogi, 8. júní 2012.


Í dag erum við hér samankomin meðal annars til að fagna opnun á nýrri og stórbættri útgáfu af gagnagrunni sem hefur að geyma hluta af menningararfleið þjóðarinnar. Það er ÍSMÚS gagnagrunnurinn sem þegar hefur aflað sér vinsælda og er vel þekktur á sínu sviði, en þessi nýja útgáfa mun bæta verulega aðgengi að þeim djásnum sem gagnagrunnurinn hefur að geyma.  ÍSMÚS heldur utan um og birtir á vefnum gögn er varða íslenska tónlistarsögu og tónlistarmenningu fyrr og nú, en hann var upphaflega opnaður af forvera mínum, Birni Bjarnasyni árið 2001. Nú, rúmum áratug síðar, hefur verið unnið ötullega að þróun grunnsins. Meira efni er komið í hann og nýjir tæknimöguleikar eru nýttir.

Það er hverri þjóð nauðsynlegt að varðveita sinn menningararf fyrir komandi kynslóðir. En það er ekki síður mikilvægt að gera þennan menningararf aðgengilegan fyrir hvern þann sem áhuga hefur á honum. Það er að mínu áliti eitt stærsta viðfangsefni menningarstofnana í samtímanum að gera það aðgengi sem best og sem víðtækast. Með tilkomu netsins og stafrænnar tækni hafa opnast nýir möguleikar til að kynna og varðveita efni og til að auðvelda aðgangi að því með margvíslegum hætti; það er einmitt markmiðið með hinni nýju útgáfu ÍSMÚS, sem við erum að opna hér í dag.

Eins og flestir hér þekkja á ÍSMÚS uppruna sinn að rekja til starfs Bjarka Sveinbjörnssonar, sem nú gegnir stöðu forstöðumanns Tónlistarsafns Íslands, allt frá 1995 við skráningu á gögnum um íslenska tónmenningu fyrr og síðar. Bjarki hefur síðan staðið í stafni með þetta verkefni sem með tímanum hefur verið víkkað út og nú er að finna í gagnagrunninum hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta, sem opna breiðan og einstakan aðgang að menningarsögu þjóðarinnar. Hér verða til áður óþekktir möguleikar til rannsókna og heimildaöflunar af ýmsum toga, fyrir almenning, sérfræðinga og skólakerfið. Lengi er hægt að bæta við en nefna má að ÍSMÚS geymir nú þegar tæplega 42 þúsund hljóðrit, rúmlega 190 handrit og bækur, upptökur með rúmlega 2640 einstaklingum og þar eru hljóðupptökur af 514 orgelum í landinu. - Það má semsagt týna sér vel og lengi í þessum töfraheimi.

Við höfum þegar séð mikilvægi góðs aðgengis að gagnagrunnum af þessu tagi fyrir skólafólk, fjölmiðlafólk, fræðimenn og allan almenning. Nægir að nefna vefi eins og timarit.is, sem er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í íslenskum blöðum og tímaritum, auk efnis frá Færeyjum og Grænlandi. Einnig má nefna handrit.is  sem veitir aðgang að stórmerkum handritum sem ná hundruð ára aftur í tímann. Gegnir.is og Sarpur eru líka mikilvæg gagnasöfn hvort með sínu sniði og aðgengi, sem bæði gegna stóru hlutverki í menningarlífi landsins.

Það er von margra sem fylgjast með þessum málum, að öll gagnasöfn á menningarsviðinu munu með tíð og tíma verða aðgengileg í gegnum  leitarvefinn leitir.is, sem opnaður var á síðasta ári, en með honum er ætlunin að gera notendum kleift að leita í flestum slíkum gagnasöfnum landsins á einum stað. Nafnið á þeim vef höfðar til íslenskrar þjóðmenningar og þeirrar aldagömlu hefðar bændasamfélagsins að fara í leitir á haustin til að smala sauðfé af fjöllum. Nú förum við í leitir til að safna upplýsingum og það með æ betri árangri, þökk sé þrotlausu starfi þeirra sem er annt um slíkt aðgengi. 

Góðir gestir,

Það hefur ýmislegt skemmtilegt verið sagt um tónlist og tónlistarfræðinga í gegnum tíðina. Hinn frægi hljómsveitarstjóri og annar stofnenda London Philharmonic hljómsveitarinnar, Sir Thomas Beecham, sagði eitt sinn að tónlistarfræðingar væru menn sem gætu lesið nótur, en heyrðu ekki tónlist. Ég er ekki viss um að þessi skilgreining sé rétt. Ég held að rithöfundurinn Victor Hugo hafi komist nær kjarnanum þegar hann skilgreindi þessa listgrein á þann veg að tónlist tjáði það sem ekki væri hægt að segja með orðum, en mætti ekki liggja í þagnargildi. 

Það er trú mín, að endurnýjaður og uppfærður vefur ÍSMÚS leggi sitt af mörkum til þess, að íslensk tónlistarsaga liggi ekki í þagnargildi, heldur verði öllum opin og aðgengileg sem aldrei fyrr, og styðji þannig við enn frekari þróun í íslensku tónlistar- og menningarlífi í framtíðinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum