Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Gildi íslenskra rannsókna á brjóstakrabbameini

Ágætu gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag á afmælismálþingi styrktarfélagsins Göngum saman.

Oft heyrast úrtöluraddir varðandi vísindarannsóknir á Íslandi. Hefur svo lítil þjóð eins og við Íslendingar eitthvað með það að gera að stunda grunnrannsóknir? Hvað þá dýrar grunnrannsóknir sem kalla á langa þjálfun, flókinn tækjabúnað og mikið samstarf í langan tíma? Eigum við ekki að leggja áherslu á hagnýtar rannsóknir ef við erum að stunda rannsóknir yfir höfuð? Huga að hagvexti og verðmætasköpun? Ætti ekki frekar að huga að því hvernig megi yfirfæra þekkingu út í atvinnulífið og samfélagið, þ.e. frekar en að rannsaka einstök prótín eða aðrar smásameindir, svo eitthvað sé nefnt.

Hagnýting rannsókna er auðvitað mikilvæg, en það má aldrei gleyma því að grunnvísindi eru undirstaða allrar framþróunar í vísindum. Ég hef lagt áherslu á það í minni ráðherratíð að standa vörð um opinbera rannsóknasjóði, þrátt fyrir að við höfum staðið frammi fyrir þessum mikla niðurskurði á fjárlögum allt frá efnahagshruninu. Ríkisstjórnin setti einnig markmið fram í stefnunni Ísland 2020 um að auka framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar.   Í maí sl. kynnti ríkisstjórnin fjárfestingaáætlun fyrir Ísland 2013-2015, þar sem var lagt til að hluti sérstaks veiðigjalds renni til eflingar rannsóknasjóða. Það er ánægjuefni að segja frá því að í frumvarpi til fjárlaga 2013 sem lagt var fram á setningardegi Alþingis í fyrradag, er lagt til að aukreitis renni 550 m.kr. í Rannsóknasjóð,  sama upphæð í Tækniþróunarsjóð og 200 m.kr. í Markáætlanir og nær tvöfalda þar með opinbera samkeppnissjóði til rannsókna og þróunar.

Göngum saman eru grasrótarsamtök sem safna fjármunum til grunnvísindarannsókna á brjóstakrabbameini. Göngum saman hefur varið alls 32 milljónum í styrki til grunnvísinda frá
stofnun. Þetta þykja mér mikilsverð tíðindi og væri ánægjulegt ef fleiri aðilar tækju höndum saman, í samstarfi við stjórnvöld eða ekki, um að styðja við grunnrannsóknir á Íslandi. En Göngum saman hefur ekki bara safnað fé til grunnrannsókna. Samtökin hafa líka staðið fyrir stefnumótum vísindamanna og almennings og þannir stuðlað að bættum skilningi á því mikilsverða starfi sem vísindamenn sinna og gefið þeim tækifæri til að skýra fyrir almenningi starf sitt og jafnvel heyra frá þeim spurningar sem brenna á fólki.

Hér er í gangi áhugavert samspil almennings og vísindamanna. Það er oft sagt að vísindamenn séu í sínum fílabeinsturni og stundi göfug og háleit vísindi sem séu óskiljanleg hinum almenna borgara. En við eigum að skilja það sem vísindamennirnir fást við og vísindamenn verða að geta miðlað rannsóknum sínum. Þannig vinnum við saman. Og það sýnist mér að Göngum saman hafi einmitt gert og á mjög skemmtilegan máta.

Ég óska ykkur hjartanlega til hamingju með afmælið og með það góða starf sem þið hafið unnið. Ég vona að þið haldið áfram ótrauð um ókomna tíð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum