Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

17. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum

Barátta gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum er eitt mikilvægasta og brýnasta verkefni sem hægt er að hugsa sér. Afleiðingar ofbeldisins eru miklar þó þær séu ekki endilega sýnilegar og fylgja þolendum alla ævi. Einstaklingar sem hafa orðið fyrir slíku ofbeldi í bernsku glíma við andleg veikindi, stoðkerfisvandamál og margþátta líkamlega sjúkdóma sem leiða jafnvel til örorku. Þannig er líf heilbrigðra einstaklinga eyðilagt og ljóst að það er dýrt fyrir samfélagið loka augunum fyrir þessu meini. 

Það er von mín að með því að opna umræðuna og vekja athygli á ömurlegum afleiðingum kynferðislegs ofbeldis getum við upprætt þetta samfélagsmein. Í nóvember 2011 fól ríkisstjórnin verkefnisstjórn með fulltrúum úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu að undirbúa vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum í samræmi við ákvæði í samningi Evrópuráðsins sem Ísland er aðili að. Nú er afrakstur þess að líta dagsins ljós og er athyglinni að þessu sinni beint að börnunum sjálfum og fullorðnum sem með þeim starfa.

Í menntastefnu nýju aðalnámskrárinnar eru heilbrigði og velferð einn grunnþáttanna sex. Með því að fá starfsfólk grunnskóla til að fræðast um þessi mál og vinna með nemendum höfum við möguleika á að ná til allra Íslendinga á aldrinum 6 - 16 ára auk hinna fullorðnu sem með þeim starfa. Enda gegnir starfsfólk skóla miklu hlutverki sem fyrirmyndir. Í námskránni segir:


Til að mæta áherslum um heilbrigði þurfa allir sem í skólum starfa að skoða störf sín með hliðsjón af heilbrigði og vinna í sameiningu að skýrum markmiðum sem styðja jákvæðan skólabrag, bættan námsárangur og vellíðan. ...  Einnig þarf að vinna náið með foreldrum, heilsugæslu og aðilum úr nærumhverfinu því að slík samvinna er forsenda þess að góður árangur náist. (bls. 21)

Rannsóknir benda til að fræðslu um kynferðislegt ofbeldi skortir almennt innan veggja heimilanna og því gegnir skólinn þar afar mikilvægu hlutverki. Börnin þarf að upplýsa um hvað beri að varast og við þurfum að læra að hlusta þegar þau eru að reyna að tjá sig um óæskilega og / eða glæpsamlega framkomu fullorðinna í þeirra garð. Ég vona að heimsókn Brúðuleikhússins í alla grunnskóla hjálpi börnum til að tjá sig og að stjórnendur skólanna sjái til þess að starfsfólk fái þjálfun í hvernig eigi að hlusta og bregðast við ef upp koma tilfelli meðal barnanna. Þá er forvarnarstarfið að sjálfsögðu óendanlega mikilvægt.

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum varðar einnig annan grunnþátt aðalnámskrár sem er jafnrétti. vegna þess að stúlkur verða frekar fyrir ofbeldinu en drengir. En því má ekki gleyma að bæði drengir og stúlkur verða fyrir því. Gerendur eru oftar úr hópi karla en kvenna  og því miður eru dæmi um unglingsdrengi í hópi gerenda. Sérstakt teymi sálfræðinga er farið að vinna með þeim og verður sagt frá því starfi hér á eftir.

Það er ekki hægt að berjast gegn kynferðislegu ofbeldi nema að minnast á klám. Ungt fólk hefur því miður greiðan aðgang að klámi á netinu og  klám er ríkjandi í mjög mörgum tónlistarmyndböndum sem ungir krakkar horfa á. Við þurfum að sjálfsögðu að finna leiðir til að sporna við svo að þeim finnist þetta efni ekki eðlilegar fyrirmyndir í raunveruleikanum. Nauðganir og ofbeldi milli unglinga verður á dagskrá hér á eftir og verður meðal annars sýnt brot úr stuttmynd á vegum vitundarvakningarinnar sem er ætlað að benda á hinn mikla mun milli heilbrigðs kynlífs og kynferðislegs ofbeldi.

Markmið þessarar vitundarvakningar er að mynda tengslanet milli einstaklinga í öllum grunnskólum landsins. Það er von mín að þetta tengslanet verði síðan öflugur vettvangur til að samhæfa og framkvæma aðgerðir til að sporna við kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Þið, sem hér eruð viðstödd, eruð hluti af því tengslaneti.

Vandinn er tekinn alvarlega og við ætlum okkur að útrýma því að börn verði fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hægt var að útrýma drykkjulátum ungmenna í Miðbænum, kennsluaðferðir með barsmíðum eru löngu liðnar undir lok og  kennaraprikin farin veg allrar veraldar. Með kennslu í hreinlæti tókst að minnka barnadauða til muna. Með kennslu um kynferðislegt ofbeldi er hægt að minnka það tjón sem gerendur valda, hægt að fækka tækifærum sem þeir hafa og vonandi vekja þá til umhugsunar um afleiðingar gjörða sinna. Vitundarvakningin er þannig mikilvægt skref í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi.

Kæru tengiliðir. Mér er sönn ánægja að hitta ykkur hér og ýta þessari lífsnauðsynlegu vitundarvakningu úr vör. Vonandi náið þið að mynda þétt net ykkar á milli því með samstilltu og öflugu átaki getum við náð að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum